Metnaðarfull áform fyrir Hraun í Öxnadal
Hraun í Öxnadal verður menningarmiðja þar sem minning þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar verður heiðruð á fjölbreyttan hátt. Í skýrslu sem verkefnastjórn skilaði af sér til menningarmálaráðherra í lok síðasta árs, er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu á gestastofu, útisýningu og göngustígum á staðnum.
„Markmiðið með uppbyggingunni er að búa til einstakan áningarstað þar sem gestir fá tækifæri til þess að kynnast persónu Jónasar og framlagi hans til náttúruvísinda, tungumálsins, sögu og menningu þjóðarinnar,“ segir Hanna Rósa Sveinsdóttir, formaður verkefnastjórnarinnar, en hún er jafnframt formaður stjórnar Menningarfélagsins Hrauns.
Tillögurnar eru metnaðarfullar en gert er ráð fyrir því að verkefnið verði áfangaskipt og vinnist eftir því sem fjármögnun leyfir. Áætlaður heildarkostnaður vegna uppbyggingar á staðnum, með uppgerð á útihúsi sem gestastofu, sýningum úti og inni, bílastæði, merkingum og stígagerð er um 700 milljónir króna.
Forsaga málsins er sú að Menningarfélagið Hraun ehf, var stofnað árið 2003, með það að markmiði að heiðra líf og starf Jónasar Hallgrímssonar á fæðingarstað hans, Hrauni í Öxnadal. Árið 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu sem studdi þetta markmið. Veruleg hreyfing komst þó ekki á málið fyrr en Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði verkefnastjórn fyrir rúmu ári sem skilaði nýlega af sér tillögum að uppbyggingu á staðnum.
Fyrirhuguð uppbyggingin að Hrauni miðar að því að þar verði einstakur áningastaður. Gestir fá tækifæri til þess að kynnast persónu Jónasar Hallgrímssonar, bæði úti og inni, og framlagi hans til náttúruvísinda, tungumálsins, sögu og menningu þjóðarinnar. Efninu verður miðlað á nýtískulegan og áhugaverðan hátt í gegnum afþreyingu, upplifun og tengingu við náttúruna. Hugmyndaskissa: Gagarín/Kollgáta
Heimsókn í Hraun á að vekja hughrif
Flestir Íslendingar kannast vel við þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson, en dagur íslenskrar tungu er haldinn honum til heiðurs, á fæðingardegi hans þann 16. nóvember. Jónas var þó miklu meira en skáld, hann var líka hugsuður, orðasmiður, listamaður og náttúrufræðingur. Segir Hanna Rósa að hugmyndin sé sú að gestir kynnist öllum þessum hliðum Jónasar í Hrauni. Þannig verður athygli gesta beint að ylhýru tungumálinu, bæði í gegnum skáldverk Jónasar og í gegnum nýyrðasmíði hans, en íslensk tunga á mörg orð eftir Jónas. Þá vann Jónas rannsóknir á jarðfræði Íslands og fékkst við landakortagerð, en hvoru tveggja jók skilning almennings á náttúru landsins. „Við sjáum fyrir okkur að það verði lögð mikil áhersla á mikilvægi náttúrunnar og náttúruverndar á staðnum,“ segir Hanna Rósa og bætir við að öll framsetning sé hugsuð þannig að heimsókn í Hraun veki hughrif gesta og að þeir fræðist um skáldið og staðinn, bæði innandyra og utan, í gegnum afþreyingu, upplifun og tengingu við náttúruna.
„Þessi staður er hugsaður sem heild, sem sagt bæði bæjarstæðið og fólkvangurinn. Og þessi stórkostlega náttúra myndar umgjörð fyrir upplifun, menningu, fræðslu og útivist. Til þess að geta tekið á móti gestum að Hrauni þarf að verða þar ákveðin innviðauppbygging. Við lögðum áherslu á það skv. okkar tillögum að þessi uppbygging verði í samtali við umhverfið, náttúruna og bæjarhólinn. Okkur finnst mikilvægt að það sé farið nærfærnum höndum um ásýnd svæðisins í allri hönnun af því þetta er einstakt svæði,“ segir Hanna Rósa.
Til þess að geta tekið á móti gestum að Hrauni þarf að verða þar ákveðin innviðauppbygging. Við lögðum áherslu á það skv. okkar tillögum að þessi uppbygging verði í samtali við umhverfið, náttúruna og bæjarhólinn. Okkur finnst mikilvægt að það sé farið nærfærnum höndum um ásýnd svæðisins í allri hönnun af því þetta er einstakt svæði.
Teikning eftir Sigurð Guðmundsson málara frá 1860 (t.v) af Jónasi. Sigurður gerði teikninguna eftir vangamynd sem Helgi Sigurðsson, þá læknastúdent í Kaupmannahöfn, dró upp af Jónasi á líkbörunum á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn í maí 1845.
Mannvirki sem fyrir eru á jörðinni verða nýtt
Tillögur verkefnastjórnarinnar gera ráð fyrir því að þau mannvirki sem fyrir eru á Hrauni verði nýtt, annaðhvort byggt við þau eða þau endurgerð. Þá verði gamlar grjóthleðslur látnar standa og unnið í kringum þær og þannig haldið í arfleifðina. „Ein af tillögunum sem við leggjum til við ráðuneytið tengist uppbyggingu á húsakosti á Hrauni. Tillagan miðar að því að nýta gamla hlöðu og fjárhús sem gestastofu, en þessi húsakynni voru byggð um miðja síðustu öld. Í gestastofunni stendur til að koma upp aðstöðu fyrir þjónustu við gesti, þ.e.a.s snyrtingum, einfaldri veitingasölu, upplýsingamiðstöð, fjölnotasal og síðast en ekki síst, metnaðarfullri sýningu,“ segir Hanna Rósa.
Í hönnun gestastofunnar er leitast við að nota íslenskar lausnir í efnisvali, bæði innanhúss og utan. Mynd: Kollgáta
Menningarmiðlun bæði úti og inni
Leitað hafi verið til hönnuða og hugmyndasmiða hjá Kollgátu, Landslagi og Gagarín til að vinna tillögur nefndarinnar áfram. „Við vildum fá aðila til liðs við okkur sem bæði hefðu reynslu og gætu sameinast með okkur í þessari sýn. Þau eru öll frábær, hver á sínu sviði,“ segir Hanna Rósa og bætir við að Kollgáta sé langt komin með frumhönnun gestastofunnar, en önnur stofa er að taka við verkefninu og mun sjá um að fullvinna það. „Gagarín sér um miðlunarþáttinn og kom með mjög skemmtilegar hugmyndir inn í þessa vinnu varðandi það hvernig hægt væri að miðla efninu á nýtískulegan og áhugaverðan hátt. Þau eru búin að vinna rosalega flotta hugmyndabók sem inniheldur fullt af tillögum sem á eftir að þróa betur. Þetta er mjög metnaðarfullt hjá þeim en í stuttu máli þá ganga hugmyndir þeirra út á það að miðlunin sé ekki bara í formi sýningar innanhúss heldur verði þessi menningarmiðlun bæði úti og inni og hreinlega hríslist um svæðið eftir ákveðnum gönguleiðum. Þar fléttast saman margbreytileiki, gagnvirkni, húmor og leikur. Gestir fá að fikta og prófa og náttúran blandast við tungumálið,“ segir Hanna Rósa.
Jörðin Hraun í Öxnadal er um 2330 hektarar. Þar er fyrir íbúðarhús frá árinu 1933 sem og nokkur útihús. Mynd :SNÆ
Uppbyggingaráform gera ráð því að sem mest af byggingum sem fyrir eru á staðnum verði nýttar. Gert er ráð fyrir að þessi hlaða og fjárhús verði nýtt undir gestastofuna.
Hraun örlagastaður í lífi Jónasar
Einhver kann að spyrja af hverju Hraun í Öxnadal sé rétti staðurinn til þess að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar. Ekki stendur á svari frá Hönnu Rósu. „Þetta er fæðingarstaður hans. Hann fæddist í torfbæ á bæjarhólnum og núverandi íbúðarhús er reist á grunni þessa torfbæjar. Jónas var ekki alinn upp í Hrauni, en þessi staður gróp sig engu að síður í sál hans og fylgdi honum alla tíð. Hraun varð stór örlagastaður í lífi hans því faðir hans drukknaði í Hraunsvatni. Sá atburður setur líf hans í allt annað samhengi sem ungs drengs,“ segir Hanna Rósa. Hún bendir á að á fullorðinsárum hafi Jónas ferðast um svæðið vegna náttúrurannsókna sinna og þá hafi hann einnig ort til staðarins. Hraun virðist því hafa haft mikla þýðingu í hans lífi og huga og þangað sótti hann innblástur í skáldskap sinn. „Ef leita þarf réttlætingar fyrir því að þessi staður sé byggður upp en ekki einhver annar í minningu hans þá held ég að við séum komin með hana því það er þessi persónulega tenging hans við Hraun og dalinn góða.“
Menningarfélagið Hraun hefur lengi staðið fyrir ýmsum viðburðum í Hrauni. Árlega er í boði gönguferð með leiðsögn og eins hefur félagið boðið upp á dagskrár tengdar Jónasi, bæði eitt og í samstarfi við aðra. Þá er félagið formlegur aðili að degi íslenskrar tungu og verðlaunahafi Jónasarverðlaunanna fær að gjöf vikudvöl í Hrauni.
Verkefni sem þarf að taka í minni skrefum
Í kjölfar þess að verkefnastjórnin kynnti tillögur sínar fyrir Lilju Alfreðsdóttur undirritaði hún viljayfirlýsingu þann 18. nóvember 2024 þess efnis að vilji sé til þess að unnið sé eftir þessum tillögum og haldið verði áfram með verkefnið á grundvelli þingsályktunartillögu Alþingis frá 2017. En er Hanna Rósa bjartsýn á að það verði eitthvað úr þessu? „Já við erum bjartsýn og vonum að þessar tillögur lifi stjórnarskiptin af, enda miðuðum við við það að verkefnið væri komið á það form að það væri hægt að áfangaskipta verkþáttum. Þetta er það stórt verkefni að það þarf að taka þetta niður í minni skref. Að fullklára þetta getur tekið nokkur ár en við erum komin af stað og munum halda áfram með þann hluta sem snýr að hönnun gestastofunnar. Við sóttum um fjármagn til fjárlaganefndar fyrir árið 2025 til þess að klára hönnunina og fengum fjármagn í það. Það gefur manni ákveðna von. Að vera komin hingað, það er sigur og eftir allt sem á undan er gengið þá er það bara virkilega stór sigur. Mér finnst það líka persónulega fyrir mig sem stjórnarmann í Hrauni. Ég hef trú á þessu verkefni og þetta er auðvitað einstakur staður. Auðvitað finnst öllum sinn fugl fagur en það er samt ákveðin kynngimögnun þarna. Það gerir dranginn og landslagið í heild,” segir Hanna Rósa.
- Betur verður farið yfir forsöguna á bak við uppbygginguna að Hrauni á Akureyri.net á næstu dögum en Menningarfélagið Hraun hefur unnið að uppbyggingu á staðnum frá árinu 2003. Leiðin hefur þó síður en svo verið dans á rósum.
Á MORGUN – SPENNANDI TÍMI EFTIR HREMMINGAR HRUNSINS