Fara í efni
Fréttir

Tunnuskipti mislangt komin við Eyjafjörð

Fjórar sorptunnur eru komnar við öll heimili í Fjallabyggð Mynd: Elín Björg Jónsdóttir

Sveitarfélög landsins eru mislangt komin varðandi úrlausnir á sorpflokkun í takt við ný lög sem tóku gildi á síðasta ári. Akureyri.net lék forvitni á að vita hvernig þessi vinna gengi hjá sveitarfélögunum við Eyjafjörð en sorptunnuskipti standa nú yfir á Akureyri.  

 

Fjögur sorpílát við hús í Fjallabyggð

Í Fjallabyggð var fjórða ílátið innleitt í febrúar 2023 og eru nú fjögur sorpílát við hvert heimili. Að sögn Ármanns Viðars Sigurðssonar, deildarstjóra tæknideildar Fjallabyggðar, er í skoðun að bjóða upp á að vera með tvískiptar tunnur. Ílátin verða í eigu Fjallabyggðar, þau voru í leigu en samþykkt að kaupa þau eftir síðasta útboð á sorphirðu.

Í Dalvíkurbyggð hefur sorp verið flokkað heim við hús í tvær tvískiptar tunnur síðan 2009 (lífrænt, pappír og pappi, plast, málmar og óflokkað). Að sögn Helgu Írisar Ingólfsdóttur, deildarstjóra eigna- og framkvæmdadeildar hjá Dalvíkurbyggð, hafa enn engar breytingar verið gerðar á núverandi tunnum sem eru í eigu sveitarfélagsins. „Ég get ekki svarað því núna hvort tunnum verði fjölgað, það fer eftir því hvaða leið verður valin, en mér þykir líklegt að þær verði þrjár,“ segir Helga og heldur áfram: „Það sem við þurfum að tækla eru kröfurnar um að fólk borgi í samræmi við magn og eins að koma upp grenndarstöðvum. Eins og staðan er í dag eru allir undir sama hatti og einfalt sorphirðugjald lagt á hverja íbúð. Það liggur fyrir að við erum að fara að bjóða út sorphirðuna hjá okkur núna á haustdögum og stefnan er tekin á að innleiða meiri sveigjanleika í stærðum á ílátum við álagningu sorphirðugjalds árið 2025 til að gefa íbúum kost á að sníða þjónustuna betur að eigin þörfum og borga í samræmi við það.“

 

Þriðja tunnan á Grenivík í haust

Í Grýtubakkarhreppi verður þriðju tunnunni bætt við heimili í sveitarfélaginu í haust en sveitarfélagið mun endurnýta tunnur sem falla til við tunnuskipti í öðrum sveitarfélögum, t.d. Akureyri. 

„Þegar lögin tóku gildi var flokkun þannig háttað hér, að urðunarsorp var sett í aðra tunnuna og lífrænt í hólf í henni. Síðan var hin tunnan endurvinnslutunna þar sem nokkur efni fóru saman, s.s. plast, pappír, málmar og batterí. Við gerðum þá breytingu að í endurvinnslutunnuna mátti nú einungis setja plast og pappír, öðru er skilað á gámasvæði. Nú er hins vegar Úrvinnslusjóður hættur að greiða fyrir endurvinnsluefnin pappír og plast nema þeim sé safnað aðskildum við húsvegg. Við höfum því ákveðið að bæta við þriðju tunnunni í haust, þannig að pappír fari í eina og plast í eina. Urðunarsorp verður áfram í tunnu með hólfi fyrir matarleifar/lífrænt, sú hirðing verður óbreytt,“ segir Þröstur Friðfinnsson, sveitastjóri Grýtubakkahrepps. Þá stendur til að setja upp litla grenndarstöð á Grenivík þar sem hægt verður að skila smærri málmum/dósum, sem og gleri/krukkum og minni rafhlöðum. Aðgengi verður alltaf að stöðinni en gámasvæðið aðeins opið tvisvar í viku.  

Grenivík fær litla gámastöð í haust og endurnýtir tunnur sem falla til við tunnuskipti í öðrum sveitarfélögum. 

Breytingar um næstu áramót í Hörgársveit

Í Hörgársveit verður breytt fyrirkomulag tekið upp um næstu áramót. Frá þeim tíma verða þrjár tunnur við hvert lögheimili í stað tveggja og verða tunnurnar í eigu sveitarfélagsins. Fasteignaeigendum gefst kostur á að velja úr tveim stærðum á tunnum fyrir hvern úrgangsflokk, þ.e.a.s blandaðan úrgang, pappír og pappa og plastumbúðir. Í Svalbarðsstrandarhreppi eru ruslatunnuskipti ekki hafin en stefnt að því að fara í útboð á málaflokknum þegar líða fer á haustið. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu verður í kjölfarið farið í skipulagningu á hvenær og hvernig ruslatunnuskiptin munu fara fram, og hvort tunnurnar verða keyptar eða leigðar. Eyjafjarðarsveit er á svipuðum stað og Svalbarðsstrandarhreppur, þ.e.a.s. vinna hefst þar í haust við undirbúning á nýju útboði sem mun þá leiða til einhverra breytinga og frekari útfærslu að sögn sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar.

Við höfum verið nokkuð gagnrýnin á að við setningu og innleiðingu nýju laganna var lítt horft til þess hvernig var unnið fyrir að hirðingu og flokkun, t.d. við Eyjafjörð, og einnig virtist sem kostnaður væri aukaatriði. Víða er þannig verið að auka kostnað við hirðinguna gríðarlega.

Hærri gjaldskrá fyrir sorphirðu?

Varðandi það hvort breytingarnar á kerfinu skili sér í hækkun á sorphirðugjöldum eru svörin hjá sveitarfélögunum nokkuð misjöfn. Í Fjallabyggð hækkaði gjaldskrá fyrir sorphirðu um 41,5% áramótin 2023-2024. Í Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Eyjafjarðarsveit hefur gjaldskrá enn ekki verið ákveðin.

„Allur aukakostnaður sem fellur til við sorphirðu mun koma fram í sorphirðugjöldunum. Hve hár kostnaðurinn verður fer eftir hvaða leið sveitarstjórn mun fara eftir útboð á sorphirðunni,” segir Fannar Freyr Magnússon, skrifstofustjóri hjá Svalbarðsstrandarhreppi. „Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort fyrirhugaðar breytingar kalli á hækkun gjalda umfram venjubundna vísitöluhækkun. Hér er þjónustustig í sorphirðunni mjög hátt eins og er og gjöldin því í hærra lagi á landsvísu. Ég held að íbúar hér muni því ekki sjá jafn mikinn mun á gjöldunum eins og á mörgum öðrum stöðum,” segir Helga Íris Ingólfsdóttur, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar hjá Dalvíkurbyggð, en í Dalvíkurbyggð hækkuðu sorphirðugjöldin um 4,9% á þessu ári. 

Í Grýtubakkahreppi er vonast til þess að heildarkostnaður hækki ekki. Að sögn sveitarstjórans fellur einhver kostnaður til við endurmerkingu á tunnum og þá kostar uppsetning á lítilli grenndarstöð eitthvað, sem og umsjón hennar. Á móti kemur þá vonast hann eftir lækkun á hirðingu við húsvegg vegna færri losunarferða og þá koma einnig til endurgreiðslur frá Úrvinnslusjóði. Að hans sögn hafa sorphirðugjöld í Grýtubakkahreppi hækkað töluvert undanfarin ár, þó þau séu enn mjög lág á landsvísu, en samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að láta þau standa undir kostnaði. „Við höfum verið nokkuð gagnrýnin á að við setningu og innleiðingu nýju laganna var lítt horft til þess hvernig var unnið fyrir að hirðingu og flokkun, t.d. við Eyjafjörð, og einnig virtist sem kostnaður væri aukaatriði. Víða er þannig verið að auka kostnað við hirðinguna gríðarlega,” segir Þröstur Friðfinnsson, sveitastjóri Grýtubakkahrepps. 

Sveitarfélögin við Eyjafjörð eru mislangt komin varðandi sorptunnuskipti í takt við lög sem tóku gildi í fyrra um flokkun úrgangs. Mynd: Haraldur Ingólfsson