Sjáðu tillögur að nýja miðbæjarskipulaginu
Tillögur um framtíðaruppbyggingu í miðbæ Akureyrar eru kynntar á fundi sem hófst klukkan 17. Fundinum er streymt á Facebook síðu Akureyrarbæjar þannig að allir geta fylgst með. Svæðið sem um ræðir afmarkast af Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu og Strandgötu.
- Athugið að margar myndir af svæðinu eru neðst í fréttinni
Á fundinum er sagt frá skipulagsvinnunni og ferlinu framundan, tillögurnar kynntar ítarlega og spurningum svarað. Íbúar og aðrir áhugasamir geta spurt spurninga jafn óðum með því að skrifa í athugasemdir - Comment - og verður þeim svarað í lok fundarins.
Um er að ræða fjórar lóðir/byggingarreiti: Skipagata 13 er syðst á núverandi bílastæði, á horni Glerárgötu og Kaupvangsstrætis, þar fyrir norðan Skipagata 11, þá Hofsbót 3 og loks Hofsbót 1, á horni Glerárgötu og Strandgötu.
Rétt er að taka fram að húsin á teikningunum eru ekki hönnuð hús, heldur sýna þær hvert byggingamagnið má vera.
Breytingar sem lagðar eru til á núverandi deiliskipulagi eru þessar, samkvæmt greinargerð sem lögð er fram með tillögunni:
- Glerárgata verður áfram 2+2 vegur (tvær akreinar í hvora átt) í núverandi legu í stað þess að færast til austurs og vera 1+1 vegur eins og gert er ráð fyrir í gildandi deiliskipulagi.
- Gert er ráð fyrir þrengingu Glerárgötu í 1+1 veg með veglegri gönguþverun á einum stað milli gatnamóta við Strandgötu og Kaupvangsstrætis, en í gildandi deiliskipulagi var gert ráð fyrir þremur þverunum gangandi yfir Glerárgötu. Gönguþverun þessi verður í framhaldi af þeim aðalgönguás sem verður frá Skipagötu að Glerárgötu, sem er óbreytt frá gildandi deiliskipulagi.
- Gert er ráð fyrir að sá hluti Skipagötu sem liggur milli Ráðhústorgs og Hofsbótar verði einstefna til suðurs. Þá er gert ráð fyrir að umferðarstefna Hofsbótar breytist, þ.e. verði einstefna frá Skipagötu að Strandgötu.
- Gert er ráð fyrir að hægt sé að koma fyrir hjólastíg í sérrými eftir Skipagötu í samræmi við skipulag stígakerfis Akureyrarbæjar.
- Lóðir og byggingarreitirnir fjórir (við Skipagötu 11 og 13 ásamt Hofsbót 1 og 3) minnka í heildina um 2.104 fermetra þar sem ekki er gert ráð fyrir færslu Glerárgötu.
- Vegna minnkunar byggingarreita minnkar mögulegt byggingarmagn innan lóðanna og í heildina fer það úr 23.750 fermetrum í 18.351 fermetra.
- Húsagerðir innan lóðar við Skipagötu 11 og 13 ásamt Hofsbót 1 og 3 breytast frá því að vera með portbyggðu mænisþaki í að vera með flötu þaki eða einhalla með 5° hámarkshalla.
- Hæðir bygginganna var að mestu 3 hæðir auk rishæðar en verða að mestu 3 hæðir auk inndreginnar fjórðu hæðar. Þó verða suðurhlutar Skipagötu 11 og 13 ásamt norðurhluta Hofsbótar 1 einni hæð hærri, þ.e. 4 hæðir auk inndreginnar fimmtu hæðar.
- Hámarks nýtingarhlutfall inndreginnar efstu hæðar er 50% af grunnfleti byggingarreits í öllum tilfellum.
- Áfram er gert ráð fyrir að hluti jarðhæða við Skipagötu 11 og 13 verði nýttar fyrir bílageymslur og verður bílastæðaþörf þeirra bygginga leyst innan lóða eins og áður. Eftir sem áður er mögulegt að hafa bílakjallara undir þessum húsum.
- Gert er ráð fyrir bílakjallara undir byggingum við Hofsbót 1 og 3 en innkeyrsla inn í bílakjallarana verður frá Strandgötu. Bílastæðaþörf þessara bygginga verður því leyst innan lóða eins og áður.
- Vikið er frá lágmarkskröfum um fjölda bílastæða fyrir nýbyggingar og í stað lagðar til hámarskröfur. Þá eru lagðar til lágmarkskröfur um fjölda hjólastæða og útfærslu þeirra.
- Bílastæðum á skipulagssvæðinu fækkar samhliða minnkuðu byggingarmagni. Heildarfjöldi almennra bílastæða á skipulagssvæðinu skv. gildandi deiliskipulagi er 814 en stæðum fækkar um 42 og verða þau 770 skv. breytingu á deiliskipulagi. Í dag eru 771 almennt bílastæði á skipulagssvæðinu og fækkar stæðum því um eitt frá núverandi ástandi.
- Meðfram Skipagötu sunnan Hofsbótar er sú breyting gerð að langstæði verða aðeins meðfram götunni vestanverðri en áður var gert ráð fyrir langstæðum beggja megin götunnar. Með þessari breytingu aukast möguleikar á að skapa áhugaverð rými á jarðhæðum nýrra bygginga við Skipagötu sem snúa í vestur og njóta nokkurrar sólar.
- Meðfram Hofsbót er einnig sú breyting gerð að bílastæði verða aðeins meðfram götunni vestanverðri en áður var gert ráð fyrir stæðum beggja megin götunnar, samhliða skapast áhugaverð rými á jarðhæðum nýrra bygginga sem snúa í vestur og njóta nokkurrar sólar.
- Gert er ráð fyrir reiðhjólastæðum og reiðhjólaskýlum fyrir almenning í miðbænum. Þá er gert ráð fyrir reiðhjólageymslum í öllum nýjum byggingum innan þess svæðis sem breyting á deiliskipulagi nær til.
- Sú kvöð er sett á jarðhæð við austur-vestur gönguása skipulagssvæðisins sem og við austanverða Skipagötu að starfsemi verði lifandi, s.s. verslanir, veitingastaðir, þjónusta, menningarstarfsemi o.þ.h. sem hafi hag af því að starfsemin flæði út í almenningsrými gönguása og taki þannig þátt í fjölbreyttu og líflegu miðbæjarlífi.
- Bætt er við þeirri kvöð að almenn gönguleið og almenningsrými verði á milli bygginga þar sem lóðir við Hofsbót 1 og Hofsbót 3 liggja saman.
- Sú breyting er gerð að heimilt er að fjarlægja af skipulagssvæðinu byggingar við Skipagötu 8 (Ljósmyndastofa Páls), Strandgötu 6 (Nætursalan), Hafnarstræti 106b (í portinu aftan við Icewear í Braunshúsi) og hús BSO við Strandgötu. Áður var heimilt að rífa byggingar við Skipagötu 8 og Strandgötu 6 í þeim tilgangi að byggja önnur ný ásamt því að heimilt var að flytja af skipulagssvæðinu byggingu við Hafnarstræti 106 og húsnæði BSO við Strandgötu.
Sjáðu muninn á gamla og nýja skipulaginu hér
Hægt að vinna málið áfram af fullum krafti
Horn Glerárgötu og Kaupvangsstrætis, horft úr suðaustri. Fyrirhugaðar byggingar syðst á reitnum.
Gatnamót Strandgötu og Glerárgötu, hornið þar sem nú er húsnæði Bifreiðastöðvar Oddeyrar, leigubílastöðvarinnar.
Horft í vestur frá Hofi, stóra brúna byggingin aftast fyrir miðju er Alþýðuhúsið við Skipagötu.
Horft úr suðaustri. Fyrirhugaðar byggingar á miðju núverandi bílastæði, gönguleiðin frá Glerárgötu að Skipagötu til vinstri á myndinni.
Svæðið sem til umfjöllunar var; Glerárgata neðst, Kaupvangsstræti til vinstri, Skipagata efst og Strandgata til hægri.
Aðal gönguleið yfir Glerárgötu sunnan við menningarhúsið Hof, í átt að fyrirhuguðum byggingum og upp í Skipagötu.
Hof til vinstri og fyrirhugaðar byggingar á svæðinu þar sem nú eru bílastæði og húsnæði BSO, lengst til hægri.