Fara í efni
Fréttir

Samkaup sporna við sóun og láta gott af sér leiða

Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum. Mynd: aðsend

„Matarsóun er eitt stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, þetta er bæði umhverfis- og samfélagsmál,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála hjá Samkaupum. Hún hefur leitt verkefni fyrirtækisins til þess að sporna gegn matarsóun úr verslunum Samkaupa. Bergrún var ráðin í starfið í september 2023 og segir í viðtali við Akureyri.net að verkefnið 'Hættum að henda, frystum og gefum!' gangi vonum framar. 

„Þann 11. október 2022 undirrituðu Samkaup og Hjálpræðisherinn á Íslandi samning um samstarfsverkefni sem snýr að mataraðstoð gegn matarsóun. En Samkaup gefur Hjálpræðishernum mat og aðrar nauðsynjavörur sem til falla,“ segir Bergrún Ósk. „Þetta er frábært dæmi um hringrásarhagkerfi að verki, en bæði björgum við matvælum frá því að vera hent, sem og komum því í góðar hendur þannig að þau nýtist.“

Númer eitt, tvö og þrjú er þessi samfélagslega ábyrgð og vilji til þess að sporna við úrgangi, sem og að nýta

Á Akureyri er Samkaup í samstarfi við Hjálpræðisherinn og Frú Ragnheiði, en einnig er farið með mat í Frískápinn hjá Amtsbókasafninu. Samkaup rekur fjórar verslanir á Akureyri; tvær Nettóverslanir og tvær Krambúðir. „Starfsfólkið í verslununum er meðvitað um nýtingu,“ segir Bergrún. „Og þetta á ekki bara við um matvælin. Ef það er til dæmis sjampóbrúsi með brotið lok - er hægt að gefa hann eitthvert til nýtingar frekar en að henda? Er hægt að nýta götóttan hveitipoka? Ég tel í rauninni að það séu engin takmörk fyrir því sem hægt er að gera. Númer eitt, tvö og þrjú er þessi samfélagslega ábyrgð og vilji til þess að sporna við úrgangi, sem og að nýta.“

Matarsóun er gríðarlega stórt vandamál í samfélaginu. Bæði úr verslunum og heimahúsum. Mynd: Samkaup

Við gefum mjólkurvörur, kjötvörur, allskonar þurrvörur, ávexti og grænmeti sem eru á síðasta snúning

„Mér finnst þetta frábær vegferð sem við erum á og við getum öll verið stolt af því að vinna hjá fyrirtæki sem gefur áfram frekar en að sóa og henda jafnvel óflokkuðu,“ segir Nanna Rut Guðmundsdóttir, en hún er verslunarstjóri Nettó á Glerártorgi. „Við gefum mat sem er að renna út, við byrjuðum á því að frysta kjöt á síðasta söludegi og gefa í Hjálpræðisherinn sem gefur svo áfram. Svo fórum við að bæta við, ef það kemur pakkning sem er ónýt, til dæmis þvottaefni sem er með gati og eitthvað hefur lekið út, þá límum við fyrir og gefum í Hjálpræðisherinn, það getur alltaf einhver nýtt sér það þó það vanti smávegis í kassann.“

„Við gefum mjólkurvörur, kjötvörur, allskonar þurrvörur, ávexti og grænmeti sem eru á síðasta snúning og meira að segja höfum við verið að gefa fólki ávexti sem gefa svo fuglum í görðunum hjá sér. Auðvitað er alltaf eitthvað sem fer til spillis en það er þá allt flokkað svo það fari rétta leið,“ segir Nanna Rut. „Herinn sækir hjá okkur þrisvar sinnum í viku á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, hina dagana fer ég með mat í frískápinn við bókasafnið ef það er eitthvað. Það er auðvitað misjafnt hversu mikið fellur til hverju sinni.“

Eflaust er einfaldara og kannski ódýrara fyrir stóra verslunarkeðju að fá starfsfólkið til þess að henda því sem ekki selst eða skemmist í verslunum, en það er til fyrirmyndar að finna fyrir samfélagslegri ábyrgð og koma verkefni sem þessu í fastar skorður, þannig að allir geti notið góðs af.