Fara í efni
Fréttir

Samgönguappið Flæði tilbúið til notkunar

Smáforritið Flæði er nú tilbúið til notkunar eftir prófanir frá því í upphafi árs. Reynsla af notkun þess í sumar verður metin og tekin ákvörðun í sumarlok um framhaldið.

Smáforritinu er ætlað að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar með því að tengja saman í eitt flæði ýmsa umhverfisvæna ferðamáta. Í frétt Akureyrarbæjar er þar vísað til strætisvagna, rafskúta frá Hopp og gangandi umferðar. Flæði er afurð samevrópsks nýsköpunarverkefnis á vegum EIT Urban Mobility sem Akureyrarbær og Vistorka hafa unnið að með franska sprotafyrirtækinu Instant System. Verkefnið gengur út á að para saman sveitarfélög og sprotafyrirtæki með það að leiðarljósi að finna nýjar lausnir sem styðja við breyttar ferðavenjur. 

Smáforritið Flæði er hægt að sækja í Playstore og Appstore. Það verður aðgengilegt í sumar, en í sumarlok verður tekin ákvörðun um áframhaldandi samstarf. Verði fólk vart við galla í forritinu er það beðið um að senda ábendingar til Ísaks Más Jóhannessonar, verkefnastjóra úrgangs- og loftslagsmála, á netfangið isakj@akureyri.is.