Fara í efni
Fréttir

Ósáttir við framgang mála í Móahverfi

Móahverfið. Mikil óánægja ríkir meðal Meistarafélags byggingamanna á Norðurlandi með framgang mála varðandi rafmagn á verkstöðum. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Stjórn Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi (MBN) segir algjörlega óásættanlegt að ekki skuli enn vera komið rafmagn á verkstaði í Móahverfi. Þetta kemur fram í harðorðri ályktun stjórnarinnar sem send hefur verið bæjaryfirvöldum á Akureyri og stjórnendum Norðurorku. Bæjarráð fjallaði um erindið á fundi í morgun.

Á sama fundi lagði Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B-lista) fram tillögu um að undirbúin yrði úttekt á allri framkvæmd við Móahverfi og verkferlum við stærri framkvæmdir. Bæjarráð felldi tillögu Sunnu Hlínar með þremur atkvæðum gegn einu, en Hilda Jana Gísladóttir (S-lista) sat hjá. Meirihluti bæjarráðs bókaði jafnframt að ekki væri tímabært að hefja vinnu við úttekt á þessu stigi þar sem framkvæmdir eru enn í fullum gangi í hvefinu. „Staðan verður endurmetin þegar fyrsta áfanga verður lokið,“ segir einnig í bókuninni.

Hilda Jana sat hjá við atkvæðagreiðsluna, en lagði fram bókun þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi þess að kjörnir fulltrúar og almenningur fengju upplýsingar um uppbyggingu Móahverfis og þær áskoranir sem þar hafa komið upp, þar á meðal þann viðbótarkostnað sem fallið hefur til. Þá segir hún einnig mikilvægt að allir sem að málum hafa komið fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og tillögum að því hvernig megi bæta ferlið. 

Bæjarstjóra var falið að svara erindi stjórnar félagsins.

Aukakostnaður hækkar íbúðaverð

Eitt af þeim atriðum sem byggingamenn gagnrýna er það sem þeir segja að Akureyrarbær feli sig á bakvið ákvæði í gjaldskrá sveitarfélagsins þar sem segir að óski lóðarhafi að hefja framkvæmdir áður en lóð telst byggingarhæf skuli gatnagerðargjald greiðast að fullu fyrir útgáfu byggingarleyfis. Þetta segja þeir einnig óásættanlegt.

Fyrstu skóflustungur teknar í Móahverfi í september 2023. Frá vinstri: Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður skipulagsráðs, og Andri Teitsson, þáverandi formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þá segja byggingamenn það óskiljanlegt að veitur skuli ekki vera tilbúnar við úthlutaðar byggingarlóðir. Bent er á að fyrst hafi verið fyrirhugað að afhenda lóðirnar til uppbygginga á haustmánuðum 2023, en niðurstaðan hafi orðið að fyrstu byggingaraðilar hafi ekki getað hafið framkvæmdir fyrr en í byrjun sumars 2024. „Horft til þessa dráttar hefðu allir álitið að nægur tími hefði átt að vera til að tryggja að allar veitur væru tilbúnar, en því miður var það ekki og er ekki enn þegar þetta er ritað,“ segir einnig í ályktuninni.

Byggingaverktakar segja gríðarlegan aukakostnað hafa fallið á þá við að verða sér sjálfir úti um allar veitur. Bent er á að kostnaður við að keyra rafstöð á hverjum verkstað sé 1,5 milljónir króna á mánuði og það geri ekkert annað en að hækka íbúðaverð í hverfinu.

Fara fram á framlag frá Akureyrarbæ og Norðurorku

Stjórn MBN fer fram á að vegna þeirrar stöðu sem byggingaverktakar standa frammi fyrir í Móahverfi að Akureyrarbær og/eða Norðurorka komi með framlag til umræddra byggingarverktaka „til að lágmarka þennan aukakostnað sem augljóslega hefur fallið á viðkomandi. Þetta framlag getur verið í formi niðurfellingar á ýmsum gjöldum, aðal atriðið er að Akureyrarbær ogNorðurorka skilji alvarleika stöðunnar og sýni vilja í verki með einhverskonar aðkomu.“

Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara ályktun frá Meistarafélagi byggingamanna.

- - -

Ályktun stjórnar Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi er í heild svohljóðandi: 

Stjórn Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi (hér eftir nefnt „MBN“) samþykkti á stjórnarfundi sínum , 15. janúar síðastliðinn, eftirfarandi ályktun. Það er algjörlega óásættanlegt að ekki skuli enn vera komið rafmagn á verkstaði í Móahverfi á Akureyri. Byggingarverktakar eru að rembast við að aðstoða sveitafélög við að byggja upp íbúðarhúsnæði ekki síst til að sveitafélög geti uppfyllt sínar eigin „húsnæðisáætlanir. Því miður er hvorki Akureyrarbær né Norðurorka að aðstoða við að aðstæður til að byggja upp þessi mannvirki séu viðunnandi.

Það að veitur skuli ekki vera tilbúnar við úthlutaðar byggingalóðir er óskiljanlegt. Fyrst var fyrirhugað að afhenda lóðirnar til uppbygginga á haustmánuðum 2023. Niðurstaðan var að fyrstu byggingaraðilar gátu ekki hafið framkvæmdir fyrr en í byrjun sumars 2024. Horft til þessa dráttar hefðu allir álitið að nægur tími hefði átt að vera til að tryggja að allar veitur væru tilbúnar, en því miður var það ekki og er ekki enn þegar þetta er ritað.

Það að Akureyrarbær skuli fela sig á bakvið það að í gjaldskrá sveitafélagsins segi að „Óski lóðarhafi að hefja framkvæmdir áður en lóð telst byggingarhæf skal gatnagerðargjald greiðast að fullu fyrir útgáfu byggingarleyfis.“ er óásættanlegt“. Það er gríðarlegur aukakostnaður sem hefur fallið á byggingarverktaka við að verða sér sjálfir út um allar veitur. Þess má geta að ca. 1,5 milljón kostar að keyra rafstöð á hverjum verkstað á mánuði sem gerir ekkert annað en að hækka íbúðaverð í þessu hverfi. Reikna má með að þessi hækkun hafi áhrif á allt íbúðaverð á Akureyri, vegna þess að hækkun húsnæðisverðs hefur áhrif á „fasteignamat“ í öllu sveitafélaginu. Stjórn MBN trúir því ekki að þetta sé einhver leikur hjá sveitafélaginu til að auka tekjur sínar með hækkandi fasteignamati.

Vegna þeirrar stöðu sem byggingarverktakar í Móahverfi standa frammi fyrir fer stjórn MBN framá að Akureyrarbær og/eða Norðurorka komi með framlag til umræddra byggingaraðila til að lágmarka þennan aukakostnað sem augljóslega hefur fallið á viðkomandi. Þetta framlag getur verið í formi niðurfellingar á ýmsum gjöldum, aðal atriðið er að Akureyrarbær og Norðurorka skilji alvarleika stöðunnar og sýni vilja í verki með einhverskonar aðkomu.

Það er von stjórnar MBN að þessi atriði sem upp eru talin fái efnislega umfjöllun og að stjórn MBN fái formleg svör frá bæjaryfirvöldum, og Norðurorku um niðurstöður umfjöllunarinnar.

Fulltrúar stjórnar MBN eru tilbúnir til að koma til fundar við ráðamenn bæjarins ef þess er óskað.