Fara í efni
Fréttir

Naustagata 13: Kynna nýja tillögu að skipulagi

Skjáskot úr deiliskipulagstillögunni sem unnin var af Kollgátu fyrir Kistu byggingafélag ehf. Hér er horft til suðausturs yfir umrædda lóð og væntanlegar byggingar.

Meirihluti skipulagsráðs samþykkti nýlega að kynna nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Naustagötu 13 og jafnframt að kynnt verði drög að breytingu á aðalskipulagi til samræmis við ákvæði deiliskipulagsins. Áfram eru áform um að byggja þar tvö hús, annað fimm hæða og hitt tveggja hæða með bílakjallara. Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð en íbúðum á efri hæðum. Sú breyting var kynnt í október í fyrra og bárust engar athugasemdir við þá breytingu.

„Ekki nægilega vel útfærð“

Fulltrúi B-lista í skipulagsráði, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, og Sindri S. Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi frá S-lista, lögðu fram bókun við afgreiðslu málsins þar sem þau lýsa þeirri skoðun að fyrirliggjandi tillaga sé ekki nægilega vel útfærð og í raun ekki fullunnin og því ætti ekki að leggja hana fram sem tillögu skipulagsráðs að framtíðardeiliskipulagi svæðisins. Þau taka sem dæmi umfjöllun um bílastæði, hæð húsa og einstakra hæða, þar sem upplýsingar séu óljósar að þeirra mati, auk þess sem þau hafa efasemdir um mikla aukningu byggingarmagns samanborið við gildandi deiliskipulag. Helgi Sveinbjörn Jóhannsson, M-lista, sat hjá við atkvæðagreiðsluna í skipulagsráði.
 
Með umræddri breytingu á deiliskipulagi er gert ráð fyrir að byggingarmagn verði allt að 4.750 fermetrar, þar af að minnsta kosti 1.000 fermetrar nýttir fyrir verslun og þjónustu. Gert er ráð fyrir fimm hæða húsi á vesturhluta lóðar, en tveggja hæða auk bílakjallara á austurhlutanum. 
 
Deilt um réttmæti stjórnsýslu
 

Í aðdraganda þess að breytingin á aðalskipulagi var auglýst síðastliðið haust var nokkuð um það deilt í bæjarstjórn hvort bæjarstjórn væri að brjóta jafnræðisreglu með endurúthlutun til sama aðila og áður en með verulega breyttum skilmálum þar sem endurskilgreining reitsins fól í sér blandaða notkun verslunar, þjónustu og íbúðabyggðar og verulega aukið byggingarmagn í samræmi við hugmyndir lóðarhafa, Kistu byggingarfélags ehf., um byggingu fimm hæða húss á vesturhluta lóðarinnar með íbúðum á efri hæðum. 

Skjáskot úr greinargerð sem Kollgáta vann fyrir Kistu byggingarfélag ehf. Hér er horft til suðausturs. 

Útlit og framsetning á byggingum í nýjustu tillögunni er nokkuð öðrvísi en unnið hefur verið með hingað til og Akureyri.net hefur fjallað um í fyrri fréttum um málið. Við afgreiðslu tillögunnar í skipulagsráði vék Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs, af fundi vegna vanhæfis til að fjalla um málið vegna persónulegra tengsla við byggingarfyrirtækið.

Loftmynd sem sýnir skipulagsreitina á svæðinu og afstöðu til aðliggjandi íbúðabyggðar. Skjáskot af map.is/akureyri.