Fara í efni
Fréttir

Mikil loftmengun á Akureyri í dag

Mynd af vef Akureyrarbæjar

Mikil loftmengun var á Akureyri klukkan 12 á hádegi í dag og á vef bæjarins er fólki bent á að talsverðar líkur séu á svifryksmengun í dag.

Á vef Umhverfisstofnunar er Akureyri merkt með rauðu á hádegi. Rautt í þessu sambandi merkir ÓHOLL loftgæði.

Rautt er útskýrt þannig á vef stofnunarinnar: 

Mikil loftmengun. Einstaklingar með alvarlega hjarta- og/eða lungnasjúkdóma ættu að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun. Forðast ætti að vinna erfiðsvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.

Eftirfarandi tilkynning var birt á vef Akureyrarbæjar í hádeginu:

„Nú er hægur vindur, kalt í veðri og götur þurrar og því má búast við að svifryksmengun á Akureyri fari hækkandi í dag og gæti farið yfir heilsuverndarmörk. Spáð er auknum vindi og úrkomu á morgun sem ætti að draga úr svifryksmengun.

Íbúar eru hvattir til þess að draga úr akstri eins og kostur er. Til dæmis með því að nýta sér almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni fjölfarinna umferðagatna.“

Mengun er raunar farin yfir heilsuverndarmörk miðað við tölur af mæli bæjarins og Umhverfisstofnunar við Strandgötu. Svifryk þar mældist 111,0 míkrógrömm á rúmmetra en loftgæði teljast mikil sé sú tala 50 eða lægri.

Hægt er að fylgjast með mælingum á styrk svifryks og annarra mengunarefna á vefnum loftgæði.is.