Metan hækkar mikið í verði á Akureyri
Verð á metangasi á Akureyri hefur hækkað um ríflega 40 af hundraði að undanförnu. Ástæðan er kostnaður vegna flutninga á metangasi frá Reykjavík sem hafa reynst nauðsynlegir vegna minnkandi framleiðslu úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal.
RÚV greindi frá þessu í dag.
Á meðal metanbíla á Akureyri eru strætisvagnar og ferlibílar hjá Akureyrarbæ og bílar Norðurorku. Haft eftir Eyþóri Björnssyni, forstjóra Norðurorku, að þó svo verð á metangasinu hafi hækkað sé það enn umtalvert lægra en verð á jarðefnaeldsneyti, en vegna dræmrar framleiðslu hér hafi þurft að nýta jarðefnaeldsneyti á metanbíla. Það sé því ekki endilega svo að rekstrarkostnaður viðkomandi bíla hækki við þessa verðhækkun.
„Við vitum að það eru áform hér uppi um að byggja líforkuver þar sem metan verður framleitt. Við trúum því að innan ekki langs tíma verði nóg til af metani,“ segir Eyþór í frétt RÚV og hvetur hann eigendur metanbíla til að halda rekstri þeirra áfram þrátt fyrir þetta bakslag í framleiðslunni.
Ýtrustu áætlanir gengu ekki eftir
Fyrr á árinu þurfti Norðurorka, í samstarfi við SORPU, að hefja flutninga á metangasi frá Reykjavík til Akureyrar. Um miðjan júlí kom svo einnig fram að þjónustfall hefði orðið á afgreiðslu metans hér á Akureyri og hafi þurft að grípa til lokunar stöðvarinnar. Ástæðurnar voru tvíþættar, annars vegar aukin spurn eftir metani og hins vegar vandkvæði við vinnslu metangass úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal.
Akureyri.net fjallaði um málið í byrjun apríl í tengslum við flutning á metangasi frá Reykjavík til Akureyrar. Þá kom fram í svari Sunnu Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra umhverfis- og loftslagsmála hjá Norðurorku, að þegar farið var af stað með metanvinnslu á Glerárdal hafi það verið tilraunaverkefni þar sem unnið hafi verið með gamaldags ruslahaug þar sem efnaúrgangur, heimilissorp, bílhræ og allt þar á milli hafi verið urðað í bland og það hafi gert alla áætlana gerð og reksturinn erfiðari. Sunna benti þó einnig á að þó haugurinn hafi ekki staðist ýtrustu væntingar eða farið eftir spálíkönum hafi vinnsla á metani úr honum haft umtalsverð jákvæð umhverfisáhrif og þegar fyrirtækið standi frammi fyrir áskorunum í metanvinnslunni sé gott að rifja upp að þá þegar hafi fyrirtækið safnað, hreinsað og þjappað rúmlega 1,4 Nm3 af metangasi. Það hafi sparað innflutning jafn margra lítra af jarðefnaeldsneyti og sparað losun á því sem nemur 25 þúsund tonnum af koltvísýringi.
Í áðurnefndri umfjöllun var einnig haft eftir Sunnu Guðmundsdóttur að frekari metanvæðing gæti ekki hafist fyrr en metanframleiðsla við stýrðar aðstæður hefjist á svæðinu enda sé flutningur á metangasi bæði kostnaðarsamur og mengandi. Sunna sagði það verkefni samfélagsins að finna lausnir til frekari framleiðslu á metangasi og hafi Norðurorka bent á mikilvægi þess að hefja þá vinnu.
Líforkugarðar í undirbúningi
Í október greindi Akureyri.net frá því að Líforkugarðar ehf. hafi formlega óskað eftir því við Hafnasamlag Norðurlands að fá úthlutað lóð við Dysnes þar sem fyrirhugað væri að reisa móttöku og vinnslu dýraleifa sem er fyrsti fasi líforkugarða.
Líforkuver snýst að safna saman lífrænum úrgangi sem fellur til á Norðausturlandi á einn stað og vinna úr honum verðmætar afurðir. Á vef Vistorku er líforkuver útskýrt í stuttu máli: „Líforkuver er lausn sem felur í sér að safna saman öllum lífrænum úrgangi og búfjáráburði sem fellur til á svæðinu og vinna úr því verðmæti, þ.e. lífdísil, metan og moltu.“
Þar til slíkri vinnslu verður komið á fót mun væntanlega áfram þurfa að flytja metan frá Reykjavík til Akureyrar með tilheyrandi kostnaði sem hefur áhrif á verðlagningu þess hér.