Fara í efni
Fréttir

Malbikið rúmur þriðjungur svifryks

Götuþvottur er væntanlega ein leiðin til að minnka svifryk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stærstur hluti upprunaefna svifryks samkvæmt sýnum sem tekin voru við gatnamót Glerárgötu og Strandgötu á tímabilinu frá nóvember 2020 fram í júní 2021 er vegna bílaumferðar. Malbik var að meðaltali 36% upprunaefna. Þetta kemur fram í skýrslunni Upprunagreining svifryks á Akureyri, rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar 2020-21. Höfundur skýrslunnar er Snævarr Örn Georgsson, umhverfisverkfræðingur hjá EFLA verkfræðistofu.

EFLA verkfræðistofa fékk styrk frá Vegagerðinni til að safna sýnum af svifryki og greina innihaldsefni þess svo hægt væri að leggja mat á uppruna svifryksins. Akureyrarbær og Norðurorka styrktu verkefnið einnig. Skýrsla um uppruna svifryks var gefin út 1. júní og kynnt í umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar í byrjun júlí. Reyndar gætti nokkurrar óþolinmæði við bið eftir skýrslunni og til dæmis bókuðu Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista og Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista á fundi bæjarráðs 2. mars að það væri „vægast sagt sérstakt að niðurstöður úr svifrykssýnum sem tekin voru fyrir tveimur árum í því skyni að greina uppruna svifryks liggi ekki enn fyrir.“


Skjáskot úr skýrslunni Upprunagreining svifryks á Akureyri, rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar 2020-21.

Sýnataka vegna rannsóknarinnar fór fram með hléum á Akureyri frá nóvember 2020 fram í júní 2021. Notaður var færanlegur sýnataki í eigu Umhverfisstofnunar. Sýni voru tekin yfir þriggja sólarhringa tímabil í hverja síu og voru notaðar teflonsíur. Alls voru tekin sýni á 30 síur í 90 sólarhringa á áðurnefndu tímabili. Sýnatakinn var staðsettur í sama búri og loftgæðamælir Umhverfisstofnunar við Strandgötu, gegnt Hofi. Fram kemur í skýrslunni að samkvæmt umferðartölum Vegagerðarinnar sé ársdagsumferð um Glerárgötu við gatnamót Strandgötu um tíu þúsund ökutæki. 

Um greiningu sýnanna segir í skýrslunni: „Ryksýnin voru síðan efnagreind með plasma-massagreini og gerðar á þeim endurvarpsmælingar. Út frá niðurstöðum mælinga var útbúið fjölbreytulíkan til að rekja uppruna svifryksins. Til að fá viðmiðunargildi var safnað ryki af ætluðum uppsprettum á sams konar
síur og með sama ryksafnara þannig að uppsprettusýnin og raunverulegu ryksýnin fengu sömu meðhöndlun.“

Merkjanlegur þáttur nagladekkjanotkunar

Meðaltalshlutföll einstakra upprunaefna á áðurnefndu tímabili sýna að malbik er þar fyrirferðarmest, eða 36%, en í skýrslunni er tekið fram að veðuraðstæður hafi áhrif. „Gera má ráð fyrir að veðuraðstæður hafi töluverð áhrif á samsetningu svifryks þar sem búast má við að hlutfall vegryks og jarðvegs sé hærra á þurrum dögum, en sót og salt meira áberandi þegar úrkoma er eða snjór á jörðu. Sýnatökutímabilið náði yfir nokkurra mánaða tímabil þar sem bæði voru blautir og þurrir dagar, auð jörð og snjóþekja, slabb á götum o.s.frv.“

Á meðfylgjandi myndriti má sjá hlutfall einstakra upprunaefna í svifrykinu. Í skýrslunni er bent á að tengja megi um 40% af svifryki á Akureyri beint við bílaumferð (malbik 36%, sót 3%, bremsur 1%). Síðan segir: „Hálkuvarnarefni á götum bæjarins, sem er annar veigamikill þáttur svifryks, er svo óbein afleiðing bílaumferðar.“


Skjáskot úr skýrslunni Upprunagreining svifryks á Akureyri, rannsóknarverkefni Vegagerðarinnar 2020-21.

Sýnatökutímabilið náði frá nóvember 2020 fram í júní 2021 og aðstæður því mismunandi. Þess sér meðal annars stað í hlutfalli malbiks eftir því hvenær sýni voru tekin. Um þetta segir í skýrslunni: „Stærsta einstaka upprunaefnið var malbik, um 36%. Hlutfall malbiks í sýnum sveiflaðist nokkuð en var almennt minnst í lok sýnatökutímabilsins í lok maí og byrjun júní þegar svo til öll ökutæki eru komin á sumardekk, en maí 2021 var kaldur framan af og nokkuð um næturfrost í mánuðinum sem gæti hafa lengt nagladekkjatímabilið á Akureyri. Það er því líklegt er að nagladekkjanotkun eigi merkjanlegan þátt í því malbikssliti sem að býr til hjólför í götur og framkallar um þriðjung svifryks á Akureyri. Full ástæða er til að leita leiða til að takmarka malbiksslit þar sem malbik inniheldur mörg heilsuspillandi efni eins og t.d. fjölhringja arómatísk kolvetnissambönd (PAH-efni),“ segir í skýrslunni.

Hátt hlutfall malbiks er áhyggjuefni

Í framhaldi af kynningu skýrslunnar samþykkti umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að hraða endurskoðun á verklagsreglum gegn svifryki og að þær liggi fyrir í september í samvinnu við Vegagerðina og Heilbrigðiseftirlitið. „Staðfest er að bílaumferð er meginorsakavaldur svifryksmengunar á Akureyri og hátt hlutfall malbiks í svifryki er áhyggjuefni,“ segir meðal annars í bókun ráðsins. Vísað er til Heilbrigðiseftirlitsins að endurskoða viðbragðsáætlun frá 2020 og gera hana sýnilegri á heimasíðunni, eins og segir í bókun ráðsins. Í aðgerðaáætlun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra í umhverfis- og loftslagsmálum, eins og hún birtist á vef stofnunarinnar, er ekkert að finna um aðgerðir til að stemma stigu við svifryki sérstaklega, nema hvað þar er rætt um lágmörkun á notkun jarðefnaeldsneytis á bifreiðar stofnunarinnar. Þessi aðgerðaáætlun var samþykkt á fundi heilbrigðisnefndar í nóvember 2021.

Sá varnagli er sleginn í skýrslunni að aðferðin við mælinguna byggi á líkanareikningum og skili því ekki hárnákvæmum raunniðurstöðum. „Hún gefur þó góða hugmynd um samsetningu svifryks og uppruna þess sem er mjög gagnlegt og nýtist í þeirri vegferð að draga úr svifryki. Einnig er rétt að benda á að þrjú upprunasýni voru mjög lík innbyrðis, þ.e. sandur, jarðvegur og malbik. Sérstaklega er erfitt að greina á milli sands og jarðvegs sökum þess hve stór hluti hálkuvarnarefna á götum Akureyrar er óþveginn sandur sem inniheldur talsvert af fínum jarðefnum,“ segir enn fremur í skýrslunni. 


Hreinsun gatna er mikilvægur þáttur í því að draga úr svifryksmengun. Í apríl 2021 fékk Akureyrarbær afhentan nýjan götusóp og var þá þessi mynd birt á Akureyri.is þegar Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla, afhenti Andra Teitssyni, formanni umhverfis- og mannvirkjaráðs, tækið. Mynd: Akureyri.is.

Saltið vekur athygli

Skiptar skoðanir eru um hvaða hálkuvarnir henti best eða hvað ökumenn og gangandi vegfarendur vilja helst að notað sé í þeim tilgangi. Sandur hefur verið áberandi hér á Akureyri og því vekur hátt hlutfall salts í svifryki hér athygli. Bent er á í skýrslunni að í fjórum sambærilegum rannsóknum í Reykjavík hafi hlutfall salts verið 11%, 8%, 4% og 3%. „Það er því mjög líklegt að hér gæti áhrifa sjávarseltu, en í sterkum norðan- og sunnanáttum er líklegt að sjávarsalt berist yfir Oddeyrina og þar með Strandgötu þar sem sýnatakinn var staðsettur. Salthlutfall hélst nokkuð stöðugt út allan sýnatökutímann, en magn salts í hverri síu minnkaði nokkuð eftir miðjan apríl samhliða minnkun svifryks. Ef sjórinn væri eina uppspretta salts þá ætti magn þess að haldast stöðugra sökum
ótakmarkaðs framboðs í sjónum en sú er ekki raunin. Hluti saltsins kemur því líklega annarsstaðar frá og líklega má tengja það við hálkuvarnarefni sem dreift er á götur bæjarins, en erfitt er að greina á milli þess og sjávarsalts," segir í skýrslunni.

Annað sem er frábrugðið niðurstöðum rannsókna í Reykjavík er að hlutfall sóts og bremsuagna er lægra á Akureyri, sem talið er skýrast af töluvert minni umferðarþunga og -hraða hér.