Fara í efni
Fréttir

Íbúar kjósa um skipulag á Oddeyri í lok maí

Svæðið sem um ræðir er syðsti hluti Oddeyrarinnar - merkt með rauðu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ljóst er að ráðgefandi íbúakosning um tillögu að breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar fram í lok maí. Meirihluti bæjarráðs samþykkti í gær að leggja það til við bæjarstjórn.

Íbúakosningin fer fram í gegnum þjónustugátt bæjarins á vefnum dagana 27. til 31. maí nk. Málið snýst um reit syðst á Oddeyri, þar sem SS Byggir hefur sýnt áhuga á að byggja nokkurra hæða íbúðarhús. Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir mun hærri húsum en nú erum til umræðu – í breytingunum felst að hámarkshæð húsa lækkar úr 25 metrum yfir sjávarmáli í 20 metra, þannig að hæstu húsin gætu orðið fimm til sex hæðir að hámarki, allt eftir útfærslu. Jafnframt eru sett inn ákvæði um að hús syðst á reitnum, næst Gránufélagshúsunum, megi að hámarki vera fjórar hæðir.

Fulltrúi SS Byggis hefur sagt opinberlega, eftir að breytt tillaga að skipulagi kom fram, að fyrirtækið muni ekki koma að því að byggja á svæðinu. Það svari ekki kostnaði miðað við þessar forsendur.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Framsóknarflokki, sat hjá við afgreiðsluna í gær.

Hlynur Jóhannsson, Miðflokki, greiddi atkvæði á móti afgreiðslunni og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Þar sem nú eru gjörbreyttar forsendur miðað við þegar sú ákvörðun var tekin að vera með íbúakosningu vegna Oddeyrarreitsins þá er engin ástæða til að vera með þessa kosningu. Verktakinn sem á lóð þarna og óskaði eftir því að skipulaginu yrði breytt hefur komið þeim skilaboðum til bæjarfulltrúa að þær takmarkanir sem eru settar í þessa kosningu séu til þess fallnar að hann muni ekki byggja þarna. Bærinn á ekki lóð þarna og því enginn að fara að byggja og tilgangslaust að eyða tíma bæjarstarfsmanna og peningum úr bæjarsjóði til þess að kjósa um ekki neitt á sama tíma og bæjarsjóður skilar methalla. Sú bæjarstjórn sem nú situr á aðeins eitt ár eftir og ætti því að láta þeirri bæjarstjórn sem tekur við eftir að ákveða hvað þarna verður gert. Ef þetta er eingöngu gert til þess að sýna fram á að ekki ríki verktakaræði hér þá er þetta skrýtin leið og nær væri að vanda sig í skipulaginu. Þá er það mikið áhyggjuefni að bæjarfulltrúar skuli vera til í að eyða peningum bæjarbúa í ekki neitt á þessum erfiðu tímum í rekstrinum.“