Íbúar beggja blands gagnvart bíladögum
Íbúar Akureyrarbæjar eru beggja blands gagnvart bíladögum en meirihluti svarenda í könnun bæjarins kvaðst jákvæður gagnvart lokun göngugötunnar eins og hún var í sumar. Þetta kemur fram í könnun sem framkvæmd var á vegum Akureyrarbæjar í samvinnu við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Könnunin var send á 1.000 netföng og bárust svör frá 431 að hluta eða í heild.
Niðurstöður könnunarinnar í heild með greiningum eftir aldurshópum, menntun og búsetu - sjá hér.
Fram kemur í upplýsingum um könnunina að gögnin séu vigtuð til að endurspegla betur þýðið, þannig að hvert svar frá yngsta hópnum vegur meira en annarra. Svarhlutfall íbúanna var 43%, sem er mun meiri þátttaka en í beinni könnun á viðhorfi rekstraraðila í miðbænum til lokunar göngugötunnar þar sem aðeins 15 af 52 sem fengu könnuna svöruðu henni, eins og fram kom í annarri frétt á Akureyri.net.
Yngsta fólkið neikvæðara gagnvart bíladögum
Viðhorf þeirra íbúa sem svöruðu könnuninni til Bíladaga er beggja blands. Spurt var: Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt til bíladaga sem haldnir eru í júní ár hvert á Akureyri?
Álíka margir eru á jákvæðu nótunum og þeim neikvæðu, en flestir þar á milli. Af 417 manns sem svöruðu kváðu 36,5% viðhorf sitt frekar eða mjög jákvætt og sama er að segja á hinn veginn, tæplega 36,3% sögðu viðhorf sitt frekar eða mjög neikvætt.
Svörin voru meðal annars greind eftir aldri, menntun og búsetu. Athygli vekur að hlutfallslega kváðust mun fleiri í póstnúmeri 603 hafa frekar jákvætt eða mjög jákvætt viðhorf til bíladaga en í póstnúmeri 600. Í póstnúmeri 603 voru 44% á jákvæðu nótunum en 31% í póstnúmeri 600.
Þá vekur einnig athygli að yngri svarendur voru frekar á neikvæðu nótunum gagnvart bíladögunum en þeir eldri. Til að mynda kom fram frekar eða mjög neikvætt viðhorf hjá 48% svarenda í aldhurshópnum 34ra ára eða yngri, 21% á aldrinum 35-49 ára, 29% hjá 50-64ra ára og 33% hjá 65 ára og eldri. Almennt séð var viðhorfið neikvæðara hjá fólki með meiri menntun.
„Göngugatan“ – Hafnarstræti á milli Ráðhústorgs og Kaupvangsstrætis. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Yngra fólkið jákvæðast gagnvart lokun
Þegar kemur að viðhorfi íbúanna til lokunar göngugötunnar vekur orðalag spurningarinnar athygli. Í könnun á viðhorfi rekstraraðila í miðbænum var spurt: Hversu vel eða illa hugnaðist þér fyrirkomulagið í sumar. Í íbúakönnuninni er sett fram jákvæð staðhæfing sem svarendur segjast vera sammála eða ósammála (mjög/frekar/hvorki né).
- Rúmlega þrír af hverjum fjórum svarendum sögðust mjög eða frekar sammála því að þeim líkaði breytingarnar vel.
- Tæpur þriðjungur er frekar eða mjög sammála að loka ætti fyrir umferð vélknúinna ökutækja allan ársins hring.
- Fimmtungur svarenda kvaðst síður sækja sér þjónustu fyrirtækja og stofnana í göngugötunni vegna lokunar.
- Rúm 42% kváðust frekar eða mjög sammála því að lengja tímabil lokunar.
- Tæp 14% kváðust frekar eða mjög sammála því að hafa engar takmarkanir.
Staðhæfing: Lokanir á göngugötunni. Mér líkaði vel þessar breytingar sem gerðar voru í sumar.
Mynd: Haraldur Ingólfsson
Einnig var spurt um viðhorf fólks til þess hvort einhverjar takmarkanir ættu að vera á umferð vélknúinna farartækja um göngugötuna, viðhorf til þess hve langt lokunartímabilið ætti að vera og hvort lokun hafi haft áhrif á það hvort fólk sæki sér þjónustu fyrirtækja og stofnana á svæðinu ef lokað er.
Staðhæfing: Ég vil engar takmarkanir á umferð vélknúinna farartækja í göngugötunni.
Staðhæfing: Ég myndi vilja lengra tímabil lokunar.
Staðhæfing: Ég sæki mér síður þjónustu fyrirtækja og stofnana í göngugötunni ef lokað er fyrir umferð vélknúinna farartækja.
Staðhæfing: Ég vil að göngugatan sé lokuð fyrir umferð vélknúinna farartækja allan ársins hring.