Íbúakosning í maí, þrír vildu hætta við
Ráðgefandi íbúakosning um tillögu við breytingu á aðalskipulagi Oddeyrar fer fram síðari hluta maí mánaðar. Það var samþykkt með átta atkvæðum á bæjarstjórnarfundi undir kvöld. Þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði gegn tillögunni og vildu hætta við íbúakosninguna.
Kosningin fer fram í þjónustugátt bæjarins á netinu 27. til 31. maí. Samþykkt var að valkostirnir yrðu þessir:
- Óbreytt skipulag – sem kveður á um að byggingar verði almennt ekki hærri en fjórar hæðir.
- Síðasta tillaga sem auglýst var að breytingum á skipulagi á svæðinu – að hámarkshæð húsa verði 25 metrar yfir sjávarmáli þannig að húsin gætu mest orðið sex til átta hæðir.
- Hámarkshæð húsa verði 22 metrar yfir sjávarmáli – húsin á reitnum gætu þannig orðið fimm til sex hæðir að hámarki, en þó aldrei hærri en fjórar hæðir syðst á reitnum.
Samstarfssáttmáli allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar, sem samþykktur var fyrr í vetur, kvað á um að íbúakosning færi fram á þróunarreit á Oddeyri; reitnum sem hér um ræðir, syðst á Eyrinni,
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti framsóknarmanna og formaður bæjarráðs, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, Framsóknarflokki og Hlynur Jóhannsson, bæjarfulltrúi Miðflokksins, greiddu atkvæði gegn því að íbúakosning færi fram. Bæði Guðmundur og Hlynur sögðu að eins og málið hefði þróast væri í raun til einskis að kjósa núna. Verktakinn, sem kom upphaflega fram með þá hugmynd að reisa hús á reitnum, hefði lýst því yfir að hann myndi ekki fara í uppbyggingu þar. Því væri betra að hætta við og gefa næstu bæjarstjórn tækifæri til að taka málið upp á ný ef hún vildi.
Aðrir voru á því að kosningunni skyldi haldið til streitu. Ekki skipti máli þótt engar framkvæmdir hæfust á þessu kjörtímabili; skipulagsmál tækju langan tíma og gott væri að kanna hug íbúa, niðurstaðan gæti verið vísbending til næstu bæjarstjórnar um hug íbúa á Akureyri til hæða á húsum almennt í grónari hverfum, þétting byggðar skipti af ýmsum ástæðum miklu máli og einnig var nefnt að þótt kosningin snérist um ákveðinn reit mætti líta á hana sem prófsteinn á það hver vilji fólks væri til að gera á Oddeyri í heild sinni.