Fara í efni
Fréttir

Íbúakosning ákveðin um Oddeyrarskipulag

Svæðið á Oddeyri þar sem SS Byggir hefur sýnt áhuga á að byggja. Ljósmynd: SS Byggir/Auðunn Níelsson.

Íbúakosning fer fram fyrir lok maí á þessu ári um tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir Oddeyri. Kosningin fer fram í íbúagátt Akureyrarbæjar á netinu. Bæjarstjórn samþykkti það á fundi sem stendur yfir.

Málið snýst um hús sem SS Byggir hefur viljað reisa syðst á Oddeyri. Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir mun hærri húsum en nú er rætt um; einn bæjarfulltrúinn nefndi að „turnar“ væru ekki lengur inni í myndinni, en myndir af fyrstu hugmyndum væru iðulega birtar á samfélagsmiðlum þegar skipulagsmál á Oddeyri væru rædd.

Fyrir bæjarstjórn lá tillaga skipulagsráðs að breyttu aðalskipulagi fyrir svæðið með þeim breytingum sem gerðar hafa verið til að koma til móts við hluta athugasemda og umsagna sem bárust. Í breytingunum felst að hámarkshæð húsa lækkar úr 25 metrum yfir sjávarmáli í 20 metra, þannig að hæstu húsin geta verið 5 til 6 hæðir að hámarki, allt eftir útfærslu. Jafnframt eru sett inn ákvæði um að hús syðst á reitnum, næst Gránufélagshúsunum, megi að hámarki vera fjórar hæðir.

Svo fór að bæjarstjórn greiddi ekki atkvæði um tillögu skipulagsráðs, heldur samþykkti bókun sem Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, lagði fram um að tillagan færi í íbúakosningu.

Bæjarfulltrúum var tíðrætt um að mjög yrði að vanda til verka við kosninguna, að lykilatriði væri að málið yrði kynnt sem allra best, ekki síst myndrænt. Íbúagáttina yrði líka að kynna bæjarbúum vel svo ekki yrði neinum vandkvæðum bundið að taka þátt í kosningunni. Einnig veltu fulltrúarnir því fyrir sér hvort ákveða þyrfti hvort kosningaþátttaka skipti máli, hvort niðurstaða kosningarinnar yrði bindandi eða ráðgefandi og þar fram eftir götunum.

Gunnar Gíslason, oddviti sjálfstæðismanna, kom því til dæmis á framfæri að hann teldi forsendu þess að niðurstaða íbúakosningar yrði bindandi að helmingur bæjarbúa tæki þátt; að strax hefði átt að ákveða að 50% þátttaka í kosningunni væri skilyrði fyrir því að niðurstaðan yrði bindandi. Ekkert var ákveðið í þeim efnum en bæjarstjóra falið að vinna áfram að málinu í samráði við bæjarráð. Gert er ráð fyrir að hugmyndir að fyrirkomulagi íbúakosningarinnar komi aftur til afgreiðslu í bæjarstjórn.