Hvers vegna þarf að flokka í þrjár tunnur?
Í lok september er stefnt að því að öll heimili á Akureyri verði komin með nýjar sorptunnur. Nýju tunnurnar, þrjár við hvert heimili, taka við fjórum flokkum af rusli; matarleifum, pappír og pappa, plasti og blönduðum úrgangi. Ísak Már Jóhannesson, verkefnisstjóri úrgangs- og loftslagsmála hjá Akureyrarbæ fór yfir það helsta sem tengist þessum breytingum.
- Hvers vegna þarf að breyta núverandi kerfi? Hefur flokkun á Akureyri ekki gengið nógu vel?
„Jú, flokkun hefur gengið mjög vel á Akureyri og við höfum verið ánægð með kerfið eins og það hefur verið. Hins vegar voru árið 2021 samþykktar breytingar á lögum á Alþingi um meðhöndlun úrgangs þar sem þessari fjórflokkun var komið á. Lögin tóku gildi 1. janúar 2023 og samkvæmt þeim er öllum sveitarfélögum skylt að safna fjórum flokkum úrgangs við heimili í þéttbýli. Þessar reglur byggja á Evrópureglum en eru útfærðar í hverju landi fyrir sig. Hugsunin með þessu var að samræma flokkunina um allt land sem er mjög jákvætt. Flokkunin verður mun skýrara og sú sama á öllu landinu.“
Það verður áskorun fyrir sum heimili á Akureyri að koma þremur tunnum fyrir við heimilið.
- Akureyrarbær sendi nýlega upplýsingabækling til íbúa þar sem nýja flokkunarkerfið var kynnt. Þar kom fram að tunnurnar yrðu tvær við hvert heimili en stuttu seinna var ákveðið að þær yrðu þrjár. Hvað breyttist?
„Við ætluðum upphaflega að vera með stærri tunnu undir plastumbúðir og pappírsefni sem væri tvískipt. Svo þegar tunnurnar komu kom í ljós að þær stóðust ekki okkar kröfur. Þá þurftum við að finna aðra lausn og þetta var besta lausnin, þ.e.a.s að vera með þrjár tunnur undir flokkunina. Öll heimili fá þrjár tunnur en fólk getur haft samband við okkur og óskað eftir breytingum t.d ef það óskar eftir stærri tunnum eða vill vera saman um tunnu. Og það er ekkert mál að breyta eftir á. Við bjóðum reyndar líka upp á, þar sem t.d. fáir eru í heimili og heimilismenn duglegir að nýta sér grenndarstöðvarnar, staka tvískipta tunnu sem tekur bæði pappír og plast og þá losnar fólk við þriðju tunnuna. Þessi tvískipta tunna er í sömu stærð og tunnan undir blandaðan úrgang og matarleifar. Það geta allir óskað eftir þessari lausn, en það má ekki troða í þessar tvískiptu tunnur þar sem það er hættara við að ruslið festist í þeim þegar þær eru losaðar. Þá bjóðum við líka upp á yfirborðsgáma fyrir fjölbýlishús en sumstaðar hentar sú lausn betur. Íbúar geta ekki neitað því að fá flokkunartunnu/ur við heimili sín þar sem okkur er skilt að hafa þessa fjóra flokka við hvert heimili og engin undanþága í reglugerðinni frá því. Við skoðuðum hvort við gætum útfært þetta t.d með endurvinnslutunnunni, sem hefur verið í boði hér á Akureyri. Þar er hins vegar öllum endurvinnsluflokkum blandað saman og þar sem það er mjög skýrt í lögunum að halda beri flokkunum aðskyldum þá gekk það ekki upp. Eins varðandi úrvinnslusjóðinn, sem greiðir úrvinnslugjald af umbúðunum. Þegar ruslinu er safnað og því komið í endurvinnslu eða aðra meðhöndlun, þá fá fyrirtæki og sveitarfélög sem safna efninu endurgreitt úr úrvinnslusjóði en einungis ef við höldum flokkunum aðskildum. Þetta er hugsað sem hvati til þess að bæta flokkunina.“
Ísak Már Jóhannesson, verkefnisstjóri úrgangs- og loftslagsmála hjá Akureyrarbæ segir að sérbýli muni þurfa að greiða meira fyrir sorphirðu samkvæmt nýrri gjaldskrá. Gjald á minni sérbýli mun líklega standa í stað og lækka í stærri fjölbýlishúsum.
- Hversu oft verða tunnurnar tæmdar?
„Við leggjum upp með að blandaður úrgangur og matarleifar verði tæmdur á tveggja vikna fresti en pappír og plast á fjögurra vikna fresti. Það sem kostar mest við að veita þessa þjónustu er hirðan á endurvinnsluefninu, pappír/pappa og plastumbúðum. Við erum ekki að borga mikið fyrir meðhöndlunina á efninu og svo fáum við endurgreiðslu úr úrvinnslusjóði líka, en það er hirðan sem kostar. Og til þess að við þurfum ekki að hækka gjaldskrána mikið þá höfum við þessa hirðitíðni.“
- Verða grenndargámarnir áfram til staðar?
„Já, en við sjáum fyrir okkur að notkun þeirra muni minnka. Við ætlum að hafa þá áfram með sama sniði og safna þar sömu flokkum. Hvort þeim fækki í framtíðinni verður bara að koma í ljós en það verða alltaf einhverjar grenndarstöðvar því gler, vax, málmar og textíll má ekki fara í tunnurnar við heimilin.“
- Eru sorphirðugjöldin að fara að hækka?
„Gjaldskráin hefur enn ekki verið samþykkt af bæjarstjórn en við sjáum fyrir okkur að heildarkostnaðurinn fyrir sorphirðu hjá Akureyrarbæ muni hækka um u.þ.b. 20%. Aðeins hluti af þessari hækkun skýrist af þessari nýju flokkun. Við vorum að bjóða aftur út sorphirðuna því samningurinn sem við vorum með rann út og verðin sem við fengum frá Terra hækkuðu töluvert miðað við það sem þau voru fyrir, sem er bara eðlilegt. Svo erum við að kaupa nýju tunnurnar en fram til þessa höfum við verið að greiða leigu fyrir tunnurnar sem höfum verið með. En það kom betur út að kaupa tunnurnar heldur en að leigja þær áfram. Annars á gjaldskrá sorphirðu að endurspegla raunkostnaðinn við þjónustuna og sorphirðugjöldin verða að standa undir sér, við megum ekki taka peninga úr öðru til að niðurgreiða sorphirðu. Stóra breytingin er sú að gjaldheimtan er að breytast. Hingað til hefur verið flatt gjald á allar fasteignir, sama hvort þú býrð í lítilli íbúð í blokk eða í einbýlishúsi. Með nýju gjaldskránni miðast gjaldið við ílátin sem þú hefur aðgang að, en það er t.d. hægt að fá stærri ílát og greiða þá meira. Þar fyrir utan er fast gjald sem hver íbúð greiðir og þar tökum við inn rekstur grenndarstöðvanna og gámasvæðisins. Í rauninni sjáum við fyrir okkur að gjaldskráin muni hækka á sérbýli en á sama tíma mun sorphirðigjaldið í minni fjölbýlishúsum væntanlega svo gott sem standa í stað eða jafnvel lækka. Í stærri fjölbýlishúsum mun gjaldið lækka þar sem íbúar sameinast um ílát og hirðan er þar af leiðandi ódýrari en í sérbýlum. Þá eru líka komnir djúpgámar við sum fjölbýli en þeir eru algjör bylting því þeir minnka svo mikið vinnuna við hirðuna og þar af leiðandi kostnaðinn, svo öll sú þróun er afar jákvæð. Það má alveg horfa á þetta þannig að fjölbýlishúsin séu búin að vera að niðurgreiða sorphirðuna í einbýlishúsunum í allan þennan tíma og við lítum á þetta sem sanngjarnara fyrirkomulag varðandi gjaldheimtuna.“
- Hver verður stærsta áskorunin við þessi tunnuskipti?
„Stærsta áskorunin er að innleiða þetta kerfi. Við erum að vonast til þess að vera búin að skipta út öllum tunnum fyrir lok september. Þetta er farið af stað og gengur vel, en við verðum að sjá hvernig framvindan verður. Við eigum eftir að fá aðra sendingu af tunnum sem er fyrir svæðið sunnan við ána. Við erum ekki búin að fá staðfestingu á því hvenær sú sending kemur en við erum að vonast til þess að klára þetta í lok september.“
- Hver hafa viðbrögð íbúa verið við þessu breytta fyrirkomulagi?
„Við fáum símtöl og tölvupósta á hverjum degi, en við höfum bent fólki á að senda okkur fyrirspurnir og óskir á netfangið flokkumfleira@akureyri.is Langalgengast er að fólk sé að óska eftir því að fá að skipta úr þremur tunnum yfir í tvær. Þetta eru aðallega sérbýli með fáa í heimili. Mér hefur annars fundist fólk almennt vera áhugasamt um þessa breytingu en auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru óánægðir. En það er margt jákvætt við þetta, eins og t.d. samræmd flokkun um land allt, og vonandi verður þetta til góðs fyrir sem flesta og auðveldar fólki að flokka heima hjá sér.“
Þess má að lokum geta að allar nánari upplýsingar varðandi þessar breytingar má finna á vef Akureyrarbæjar https://www.akureyri.is/is/thjonusta/umhverfismal/sorphirda/flokkum-fleira-heima