Fara í efni
Fréttir

Hvers konar þéttbýli viljum við?

Þekkt hús og falleg í forgrunni, Akureyrarkirkja og Sigurhæðir séra Matthíasar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Hvers konar þéttbýli viljum við? Á 21. öldinni er krafan sú að við hönnun, mótun og skipulagningu þéttbýlis sé heilsa og velferð fólks tekin alvarlega. Að umhverfið sé því hliðhollt, það bæti, efli og styrki,“ segir í tilkynningu frá AkureyrarAkademínunni.

Á þriðjdaginn, 26. apríl, mun dr. Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur halda fyrirlestur á vegum AkureyrarAkademíunnar um skipulagsmál sem hefur yfirskriftina: Hvers konar þéttbýli viljum við?

„Í fyrirlestrinum ætlar dr. Páll Jakob Líndal að fjalla um upplifun fólks í þéttbýlisumhverfi, hvað þurfi að leggja áherslu á svo skapa megi mannvænt og heilsusamlegt þéttbýli og hvernig megi brúa bilið milli ólíkra hagsmunahópa þegar kemur að hönnun og uppbyggingu þess. Fyrirlesturinn fer fram í sal Félags eldri borgara á Akureyri, Bugðusíðu 1, og hefst kl. 16:00. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis,“ segir í tilkynningunni.

„Dr. Páll Jakob Líndal er með doktorspróf í umhverfissálfræði frá Háskólanum í Sydney. Hann er sérfræðingur í mati á sálfræðilegum áhrifum umhverfis á heilsu og vellíðan, hvort um er að ræða náttúru eða byggt umhverfi. Dr. Páll Jakob hefur áralanga reynslu af skipulagsmálum og verkefnum er snúa að verndun byggingararfsins, s.s. uppmælingum og gerð húsakannana, auk þess að vinna að sálfræðilegum rannsóknum. Hann hefur um árabil verið ötull talsmaður þess að sálfræðileg sjónarmið fái sitt rými í hönnunar- og skipulagsferlum og lögð sé ríkari áhersla á samspil fólks og umhverfis. Dr. Páll Jakob á og rekur TGJ – hönnun-ráðgjöf-rannsóknir og einnig ráðgjafarfyrirtækið ENVALYS. Þá kennir dr. Páll Jakob umhverfissálfræði við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, auk þess að vera fyrirlesari og markþjálfi.“

Fyrirlestrar í tilefni afmælis

Fyrirlesturinn er sá fyrsti í fyrirlestraröð á þessu ári sem AkAk mun bjóða bæjarbúum upp á í tilefni af 160 ára afmæli Akureyrarbæjar á árinu. Markmiðið með fyrirlestrunum er að auka framboð á fjölbreyttu og aðgengilegu efni um sögu og menningarlíf á Akureyri og að virkja almenning til þátttöku. Menningarsjóður Akureyrar styrkir fyrirlestrana.