Hver er staðarandi Oddeyrarinnar?
Orri Árnason, arkitekt hjá Zeppelin arkitektum, skrifaði opið bréf til bæjarstjórnar Akureyrar sem hann sendi Akureyri.net til birtingar í síðustu viku. Önnur grein Orra um tillöguna Seglin við Pollinn birtist hér í dag. Hann segir: „Eins og við var að búast vakti bréfið og meðfylgjandi myndir af tillögunni misjöfn viðbrögð og bersýnilega skiptast menn í sveitir í afstöðu sinni. Enginn úr bæjarstjórn hefur haft samband við höfund tillögunnar, kannski vegna þess að stutt er síðan bréfið var skrifað og bæjarstjórnarmenn vafalítið uppteknir í öðru.“
Orri heldur áfram: „Einhverjir hafa haft á orði að seglin séu ekki í takti við aðra byggð á Oddeyrinni, að staðarandans sé ekki gætt. En hver er hann þessi margumtalaði staðarandi Oddeyrarinnar sem ber að gæta; er hann áþreifanlegur, skiljanlegur og auðsær, eða er hann eingöngu tískuorð í skipulagsmálum?
Í leit að staðarandanum skoðaði ég svæðið sem hverfist um Gránufélagshúsið, hús sem byggt er á einhverjum mestu krepputímum Íslandssögunnar. Nokkru austar er Oddeyrarbryggja, þar sem risastór farþegaskip leggja að og gnæfa yfir næsta umhverfi. Á hafnarbakkanum er Oddeyrarskáli, stór steinsteypukumbaldi, og gámasvæði þar norðan við. Norðan og austan við Gránufélagshúsið eru illa hirt hús og geymslusvæði. Hvernig ætli staðarandanum líði í þessu umhverfi? Vestan við er annað svæði og manneskjulegra, gamli íbúðahlutinn á Oddeyrinni. Þar býr annar andi, sjarmerandi, enda er gaman að ganga þar um og sjálfsagt líka að búa þar.“
Smelltu hér til að lesa grein Orra.