Fara í efni
Fréttir

Hvað kostar eitt stykki Glerárgötustokkur?

Frá Greifanum að Sjallanum, rautt pennastrik sýnir hvar stokkurinn myndi liggja samkvæmt hugmyndum sem varpað hefur verið fram. En bygging götu í stokk er meira en bara stokkurinn sjálfur því áhrifasvæðið er töluvert, til dæmis með hæðaraðlögun sem teygði sig um 250-300 metra við hvorn enda stokksins.

Hve umfangsmikil yrði sú framkvæmd að leggja hluta Glerárgötu í stokk? Hugmynd um slíkt var varpað fram af nokkrum bæjarfulltrúum á Akureyri fyrr í vetur. Og hvað myndi verkefnið kosta? Erfitt er um slíkt að spá, eins og Akureyri.net komst að.

Í bókun allra fimm bæjarfulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn Akureyrar á bæjarstjórnarfundi 21. mars þar sem „framtaksleysi meirihlutans“ varðandi undirbúning að uppbyggingu á svæði Akureyrarvallar er gagnrýnt er endað á eftirfarandi: „Þá ætti að skoða alvarlega þann valkost að setja Glerárgötuna í stokk miðsvæðis, með framkvæmd á kostnaðargreiningu sem og viðræðum við Vegagerðina.“

Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, birti samdægurs grein hér á Akureyri.net undir heitinu „Tækifæri á Akureyrarvelli“. Þar var hann ekki að vísa til marktækifæris í fótboltaleik á vellinum sjálfum heldur velti hann fyrir sér möguleikum á nýtingu svæðisins í framhaldi af uppbyggingu á KA-svæðinu.

Eitt af því sem Andri nefnir í grein sinni er einmitt það sama og kom fram í áðurnefndri bókun, en Andri skrifaði: „Loks vil ég nefna það tækifæri að tengja betur saman Oddeyrina og miðbæinn, spennandi leið til þess væri að leggja Glerárgötu í stokk, til dæmis frá Greifanum suður að Sjalla.

Mjög einfaldaður samanburður

Akureyri.net lék forvitni á að vita hve umfangsmikil slík framkvæmd gæti orðið og ekki síður hvort hægt væri að skjóta á kostnað án þess að hafa rannsakað forsendur og aðstæður á þessum stað sérstaklega. Við leituðum til Vegagerðarinnar þar sem Glerárgata er þjóðvegur í þéttbýli, hluti af hringveginum.

Margrét Silja Þorkelsdóttir, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, tók saman fróðleik fyrir okkur um slíka framkvæmd, en rétt er að leggja áherslu á að samantekt hennar byggir aðallega á undirbúningi Sæbrautarstokks í Reykjavík og það sem hér er ritað er mjög einfaldaður samanburður á þeirri framkvæmd og hugsanlegum framkvæmdum við Glerárgötuna.

Kostnaður mjög háður aðstæðum

En hvernig er þá samanburður Sæbrautarstokks og hugsanlegs stokks í Glerárgötunni eins og hugmyndinni var kastað fram í vetur?

Í svari Margrétar Silju er tekið fram að kostnaður við stokkaframkvæmdir sé mjög háður aðstæðum á hverjum stað, slík framkvæmd í Glerárgötunni hafi ekki verið skoðuð og því liggi ekki fyrir kostnaðarmat. Jarðgrunnsaðstæður hafi mikil áhrif á kostnað, en þær séu sömuleiðis órannsakaðar í Glerárgötunni.

Gerðar eru ríkar öryggiskröfur þegar götur eru lagðar í stokka og til grundvallar stokkahönnun liggja norskar reglur um hönnun jarðganga, hvort tveggja útfærslur tengdar umferðaröryggi og öryggi í eldsvoða.

Sæbrautarstokkur er í hönnun og undirbúningi í Reykjavík, en þar er um að ræða stofnvegafjárfestingu á vegum Betri samgangna, verkefnis sem fjármagnað er af ríki og sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á vef verkefnisins má sjá að áætlaður kostnaður við Sæbrautarstokkinn er 15,5 milljarðar króna á verðlagi þriðja ársfjórðungs 2021. Margrét Silja nefnir að unnið sé að uppfærðri kostnaðaráætlun, en ef eingöngu sé horft til vísitöluþróunar sé kostnaður metinn á um 18 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag.

Hæðaraðlögun lengir framkvæmdasvæðið verulega

Sæbrautarstokkurinn er um 800 metra langur með 250-300 metra hæðaraðlögun hvoru megin, eða samtals um 1,4 kílómetrar. Inn í hann miðjan koma auk þess tveir rampar sem tengjast aðliggjandi götuneti. Hér verður ekki fullyrt hvort þörf væri á slíku í Glerárgötustokki.

Hugmyndin sem Andri Teitsson nefndi í sinni grein í vetur var um stokk í Glerárgötu frá Greifanum að Sjalla. Þarna á milli eru um 400 metrar og út frá reynslu við undirbúning Sæbrautarstokksins segir Margrét Silja að bæta megi við 250-300 metra hæðaraðlögun gatna hvoru megin, sem næði þá að gatnamótum Þórunnarstrætis í norðri og suður fyrir Hof, og lengdin þá samtals orðin tæpur kílómetri.


Bygging stokks í Glerárgötu sem myndi enda við Sjallann hefði áhrif alveg suður fyrir Hof því gera má ráð fyrir hæðaraðlögun um 250-300 metrum frá enda stokksins sjálfs. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Um 70% af Sæbrautarstokknum

Á mjög einfaldaðan hátt mætti segja að þegar aðlögunarsvæði veghæðar er talið með yrði Glerárgötustokkur um 70% af heildarlengd Sæbrautarstokksins. Að sama skapi á mjög einfaldaðan hátt gætum við reiknað 70% af 18 milljörðum og sagt að Glerárgötustokkurinn gæti kostað 12,6 milljarða.

En hann gæti kostað minna ef ekki þarf tengingar inn í hann með römpum og stokkurinn í hlutfalli minni að umfangi en í Sæbrautinni. Hér eru auðvitað margir óvissuþættir og óþekktar breytur í jöfnunni. Getum við farið niður í tíu milljarða? Enn neðar? Því verður ekki svarað nema með rannsóknum á umræddu svæði.

Annar samanburður á milli Sæbrautarstokksins og Glerárgötunnar er svo umferðarþunginn. Sæbrautarstokkurinn leysir af hólmi veg þar sem 35 þúsund ökutæki fara um á sólarhring, en um Glerárgötuna fara 12 þúsund ökutæki. Margrét Silja bendir á að báðir vegir séu í dag fjórar akreinar, en búast megi við að stokkur í Glerárgötu geti verið minni að umfangi en í Sæbrautinni.

MEIRA Á MORGUNUmfangið markast af hönnunarforsendum