Hönnunarsamkeppni um stúdentagarða
Félagsstofnun stúdenta Akureyri, FÉSTA, efnir til framkvæmdasamkeppni um hönnun á nýjum stúdentagörðum í samstarfi við Arkitektafélag Íslands. Fyrirhugaðar eru þrjár byggingar stúdentagarða í austurjaðri háskólasvæðisins meðfram Dalsbrautinni, tvær byggingar á milli Borgarbrautar og Norðurslóðar og ein sunnan Norðurslóðar. Miðað er við 120-124 íbúðareiningar á lóðunum. Verðlaunafé er samtals tíu milljónir króna, þar af fimm fyrir fyrsta sætið.
Í frétt FÉSTA segir að meginmarkmið samkeppninnar sé að fá tillögu sem gerir FÉSTA kleift að byggja bjartar og aðlaðandi íbúðir í góðu samræmi við húsnæðisþarfir nemenda HA. „Áhersla er á vistvænt skipulag, vistvottaðar byggingar og blágrænar ofanvatnslausnir. Byggingar skulu falla vel að landslagi og endurspegla góða byggingarlist,“ segir enn fremur um samkeppnina.
Fyrri áfangi tilbúinn haustið 2026
Miðað er við skilafrest fyrir tillögur til 25. janúar 2024 og að niðurstaða dómnefndar liggi fyrir 22. febrúar 2024. Uppbygging stúdentagarðanna er fyrirhuguð í tveimur áföngum. Fyrri áfanginn yrði uppbygging á nyrðri lóðinni (reitur D). Áætlaður framkvæmdatími fyrri áfanga yrði frá vori 2025 og byggingarnar tilbúnar til notkunar haustið 2026.
Megináherslur dómnefndar:
- Að tillagan sé heildstæð og byggi á vandaðri og góðri byggingarlist.
- Að gæði, notagildi og fyrirkomulag endurspegli framsækna hönnun.
- Að ásýnd bygginganna og lóða falli vel að nánasta umhverfi.
- Að aðgengis- og öryggismál séu vel leyst.
- Að hönnun hvetji til félagslegrar virkni íbúa.
- Að horft sé til umhverfisáhrifa bygginganna og vistvænnar hönnunar.
- Að byggingarefni og lausnir uppfylli kröfur um hagkvæmni og góða endingu.
Fyrirhugaðar byggingar stúdentagarða eru neðst á þessari skýringarmynd. Skjáskot úr umsókn um deiliskipulagsbreytingu fyrir háskólasvæðið.
Þingvellir, Sólvellir og Mánavellir
Lóð D liggur meðfram Dalsbraut, frá Borgarbraut upp að Norðurslóð. Þar er gert ráð fyrir byggingum allt að fimm hæðum ásamt kjallara, en leyfilegt byggingarmagn er 5.200 fermetrar. Þarna er gert ráð fyrir tvenns konar stúdentagörðum, Þingvöllum og Sólvöllum. Í öðru húsinu er gert ráð fyrir sex kjörnum sem hver og einn inniheldur níu einstaklingsherbergi, sameiginlegt eldhús og fleira. Miðað er við eitt bílastæði fyrir hver þrjú herbergi. Í hinu húsinu er gert ráð fyrir tíu stídíóíbúðum og 20 tveggja herbergja íbúðum. Þar er miðað við eitt bílastæði á hverja 1,5 íbúð.
Lóð E liggur einnig meðfram Dalsbrautinni, en sunnan Norðurslóðar. Þar er leyfilegt byggingarmagn 2.400 fermetrar. Miðað er við tíu stúdíóíbúðir og 20 tveggja herbergja íbúðir í Mánavöllum og gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja 1,5 íbúð.
Þurfa færri bílastæði
Í september óskaði dómnefndin vegna samkeppninnar eftir undanþágu frá skilmálum um bílastæðafjölda í nýsamþykku deiliskipulagi fyrir lóðir D og E og heimilaði skipulagsráð FÉSTA að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við umsóknina og í samvinnu við skipulagsfulltrúa. Helstu rökin fyrir þessari undanþágubeiðni eru að ætlunin sé að byggja hagkvæmar, litlar tveggja herbergja íbúðir, stúdíóíbúðir og einstaklingsherbergi og markhópurinn sé því pör og einstaklingar.
Reynslan af útleigu íbúða í stúdentagörðum í Skarðshlíð 46 og Klettastíg 6, þar sem eru sambærilegar einingar, er sögð vera sú að þar hafi bílanotkun leigjenda verið mjög lítil og stæði því ónýtt af leigjendum að stórum hluta. Afstaða dómnefndarinnar er að hæfilegur fjöldi bílastæða fyrir þessar 120-124 íbúðareiningar sé 26 bílastæði, eða um eitt bílastæði á hverjar fimm íbúðareiningar. Þar af er gert ráð fyrir sex bílastæðum fyrir fatlaða.
Umhverfissjónarmið og lýðheilsa
Þá er einnig bent á að FÉSTA leggi áherslu á umhverfissjónarmið og lýðheilsu stúdenta og að draga úr byggingar- og rekstrarkostnaði. „Fyrirhugaðar byggingar eru staðsettar á eystri jaðri háskólasvæðisins. Háskólasvæðið er miðsvæðis í bænum og vel staðsett gagnvart almenningssamgöngu, auk þess er göngufæri í nærliggjandi matvöruverslanir, apótek, heilsugæslu og ýmsa aðra þjónustu,“ segir meðal annars í rökstuðningnum með umsókninni.
Dómnefndin telur einnig að umbeðið frávik samræmist aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum.