Fara í efni
Fréttir

Hafa gengið langt til móts við lóðarhafa

Móahverfið. Mynd: Þorgeir Baldursson

Því miður hefur ýmislegt orðið til þess að áætlanir um byggingarhæfi lóða í Móahverfi hafa ekki staðist, en lóðarhafar hafa frá upphafi verið upplýstir um stöðu mála á hverjum tíma. Akureyrarbær og Norðurorka hafa „gengið ansi langt í að koma til móts við lóðarhafa á svæðinu“. 

Þetta kemur fram í minnisblaði frá tveimur sviðum Akureyrarbæjar, skipulagssviði og umhverfis- og mannvirkjasviði, auk Norðurorku í tengslum við umfjöllun um ályktun Meistarafélags byggingarmanna á Norðurlandi (MBN), sem Akureyri.net sagði frá fyrr í dag. „Að mati Akureyrarbæjar og Norðurorku liggja ekki málefnaleg rök fyrir því að veita þurfi sérstakt framlag til lóðarhafa,“ að því er fram kemur í minnisblaðinu, eins og farið er fram á í ályktun MBN.

Möguleg seinkun komi skýrt fram í skilmálum

Í minnisblaðinu, sem lagt var fram á fundi bæjarráðs í morgun, kemur meðal annars fram að ákveðið hafi verið að bjóða út lóðir í Móahverfi áður en framkvæmdir við uppbyggingu gatna hófust til að gefa lóðarhöfum góðan tíma til undirbúnings. Það hafi falið í sér ákveðna óvissu og því komi skýrt fram í útboðsskilmálum að afhending lóða gæti orðið síðar en stefnt væri að og fylgir eftirfarandi skjáskot úr útboðsskilmálunum.

Regluleg samskipti og upplýsingastreymi

Þar er einnig bent á að regluleg samskipti hafi verið við MBN um stöðuna og upplýst um áætlaðar tímasetningar ákveðinna verkþátta, með nauðsynlegum fyrirvörum, eins og þar stendur.

Einnig er bent á að Akureyrarbær og Norðurorka hafi frá upphafi framkvæmda reynt að koma til móts við lóðarhafa eins og hægt er, meðal annars til að lágmarka óþarfa kostnað. Í ljósi stöðunnar hafi innheimtu gatnagerðargjalda sem átti að hefjast með helmingsgreiðslu 1. september 2023 verið frestað fram að útgáfu byggingarleyfis. Þannig hafi þeir lóðarhafar sem biðu með framkvæmdir þar til lóðirnar yrðu byggingarhæfar ekki enn verið rukkaðir um gatnagerðargjöld. 

Snúið að framkvæmdir innan lóða og við veitur og götur skarist

Óskir hluta lóðarhafa um heimild til að hefja framkvæmdir hafi verið samþykktar með ákveðnum skilyrðum og upplýst um fyrirvara tengdum því hvenær þeir mættu vænta að allar veitur yrðu aðengilegar. Þar er til skýringar birt skjáskot af klausu úr samningi sem gerður var við lóðarhafa.

Meðal þess sem einnig kemur fram í minnisblaðinu að gera megi ráð fyrir að framkvæmdir væru komnar lengra en raunin er í dag ef lóðarhafar hefðu ekki fengið að fara af stað með framkvæmdir. Það geti verið snúið að hafa framkvæmdir í gangi innan lóða á sama tíma og framkvæmdir við götur og veitur. 

Móahverfið þegar framkvæmdir voru að hefjast. Mynd: Helgi Steinar Halldórsson.

„Það liggur fyrir að framkvæmdir við Móahverfi hafa ekki alveg verið í samræmi við upphaflegar áætlanir en að mati Akureyrarbæjar og Norðurorku hefur verið gengið ansi langt í að koma til móts við lóðarhafa á svæðinu sem óskuðu eftir að hefja framkvæmdir áður en lóðirnar urðu byggingarhæfar. Framkvæmdum er ekki lokið og er miðað við að áfram verði gott og mikið samráð við lóðarhafa á svæðinu með það að markmiði að tryggja að framkvæmdir geti haldið áfram án tafa,“ segir einnig í minnisblaðinu.

- - -

Texti minnisblaðsins í heild er eftirfarandi:

Á sínum tíma var ákveðið að bjóða lóðir í Móahverfi út áður en framkvæmdir við uppbyggingu
gatna hófust til að gefa tilvonandi lóðarhöfum góðan tíma til undirbúnings þannig að hægt væri
að fara í uppbyggingu á svæðinu um leið og lóðirnar yrðu byggingarhæfar. Þetta fól auðvitað í
sér ákveðna óvissu og þess vegna kom skýrt fram í útboðsskilmálum að afhending lóða gæti
orðið síðar en stefnt væri að, sbr. eftirfarandi úrklippa úr útboðsskilmálum.

Því miður hefur ýmislegt orðið til þess að áætlanir um byggingarhæfi lóða hafa ekki staðist en
lóðarhafar hafa frá upphafi verið upplýstir um stöðu mála á hverjum tíma. Þá hafa einnig verið
regluleg samskipti við Meistarafélag byggingarmanna á Norðurlandi (MBN) um stöðuna þar
sem m.a. hefur verið upplýst um áætlaðar tímasetningar ákveðinna verkþátta, með
nauðsynlegum fyrirvörum.

Akureyrarbær og Norðurorka hafa frá upphafi framkvæmda reynt að koma til móts við lóðarhafa
eins og hægt er, m.a. til að lágmarka óþarfa kostnað. Í útboðsskilmálum var gert ráð fyrir að
greiða ætti helming gatnagerðargjalda þann 1. september 2023 en í ljósi stöðunnar var ákveðið
að fresta þeirri gjaldtöku fram að útgáfu byggingarleyfis. Þeir lóðarhafar sem ákváðu að bíða
með framkvæmdir þar til lóðirnar yrðu byggingarhæfar hafa enn ekki verið rukkaðir um
gatnagerðargjöld þó svo að gildandi samþykkt Akureyrarbæjar um gatnagerðargjöld geri ráð
fyrir því, sbr. 6. gr. gjaldskrár.

Hluti lóðarhafa óskaði eftir heimild til að hefja framkvæmdir þó svo að lóðirnar væru ekki
orðnar byggingarhæfar. Var það samþykkt með ákveðnum skilyrðum auk þess sem upplýst var
um fyrirvara tengdum því hvenær vænta mætti að allar veitur yrðu aðgengilegar. Eftirfarandi er
klausa úr samningi sem gerður var við lóðarhafa.

Hér má síðan sjá úrklippu úr samningi þar sem fjallað er um verkáætlun.

Akureyrarbær og Norðurorka hafa allan þennan tíma reynt að taka tillit til hagsmuna lóðarhafa
eins og hægt er sem hefur gert það að verkum að aldrei hefur orðið stopp á framkvæmdum
innan lóða þó svo að unnið hafi verið að umfangsmikilli uppbyggingu gatna og veitna samhliða.
Að hafa framkvæmdir innan lóða í gangi samhliða framkvæmdum við götur og veitur getur verið
snúið og haft í för með sér ýmsan aukakostnað. Má þannig gera ráð fyrir að verkið væri komið
mun lengra en raunin er í dag ef lóðarhafar hefðu ekki fengið að fara af stað með framkvæmdir.

Það liggur fyrir að framkvæmdir við Móahverfi hafa ekki alveg verið í samræmi við upphaflegar
áætlanir en að mati Akureyrarbæjar og Norðurorku hefur verið gengið ansi langt í að koma til
móts við lóðarhafa á svæðinu sem óskuðu eftir að hefja framkvæmdir áður en lóðirnar urðu
byggingarhæfar. Framkvæmdum er ekki lokið og er miðað við að áfram verði gott og mikið
samráð við lóðarhafa á svæðinu með það að markmiði að tryggja að framkvæmdir geti haldið
áfram án tafa. Að mati Akureyrarbæjar og Norðurorku liggja ekki málefnaleg rök fyrir því að
veita þurfi sérstakt framlag til lóðarhafa t.d. með niðurfellingu gjalda eða öðrum sambærilegum
hætti.

Uppbyggingu á stóru íbúðahverfi eins og Móahverfi er umfangsmikið verkefni sem margir koma
að. Um er að ræða margra ára ferli sem hefst við gerð skipulags og lýkur ekki fyrr en nýir íbúar
flytja inn í hverfið. Í slíkum verkefnum má ávallt má vænta þess að upp komi óvæntar aðstæður
sem bregðast þurfi við og það er ýmislegt sem má læra af þeim framkvæmdum sem þegar hafa
farið fram við uppbyggingu Móahverfis sem nýtist við skipulag áframhaldandi uppbyggingar á
svæðinu og við skipulag sambærilegra verkefna í framtíðinni.