Góðar umræður um „auðlindina okkar“
Fjölbreyttur hópur fundarfólks tók þátt í umræðum á fjórða og síðasta fundi fundaraðarinnar Auðlindin okkar sem haldinn var í Hofi á Akureyri á þriðjudaginn.
Fundargestir höfðu margt að ræða en þar voru mættir fulltrúar stórra útgerðarfyrirtækja, smábátasjómenn, fulltrúar sveitarfélaga og almennir borgarar, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. „Meðal umræðuefna á fundinum var samþjöppun í sjávarútvegi, áhrif byggðapotta á sjávarbyggðir, strandveiðar, mikilvægi vísinda og rannsókna, skattspor fyrirtækja og álagning veiðigjalda á ólíkar tegundir afla.“
Einnig var rætt um áhrif óvissu á framtíðarfjárfestingar í sjávarútvegi, „mikilvægi þess að tryggja nægt hráefni svo unnt sé að starfa við sjávarútveg allt árið um kring, samspil sjávarútvegs og rekstur hafnasjóða, tækifæri til að efla menntun í sjávarútvegi, loftslagsmál og mengun hafsins.“
Í fréttinni segir að líkt og á fundunum á Ísafirði, Eskifirði og Vestmannaeyjum hafi þátttaka verið góð í umræðum, bæði í sal og í gegnum streymi. Á fimmta þúsund áhorfenda hafi nú fylgst með streymi frá fundaröðinni.
Fundarstjóri var Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar. Rebekka Hilmarsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fyrrum bæjarstjóri Vesturbyggðar, kynnti verkefnið Auðlindin okkar og vinnu starfshópanna Aðgengi, Samfélag, Tækifæri og Umgengni. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra kynnti starfsemi samtakanna og samspil þeirra við sjávarútveg á svæðinu.
Auk fjölmargra fundargesta sem tóku þátt í umræðum tóku einnig þátt í fundinum þau Ingunn Agnes Kro, formaður starfshópsins Tækifæri, Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður starfshópsins Aðgengi, Freydís Vigfúsdóttir, fulltrúi í starfshópshópnum Umgengni og Hreiðar Þór Valtýsson, fulltrúi í starfshópnum Samfélag.
„Vinnuhóparnir eru um þessar mundir að ljúka viðtölum við hagaðila og úrvinnslu á þeim. Við þá vinnu munu hóparnir m.a. nýta það efni sem fram hefur komið á opnu fundunum. Greinargerð hefur verið birt í samráðsgátt um stöðu vinnu við sjávarútvegsstefnu matvælaráðherra og gefst þar öllum kostur á að koma á framfæri hugmyndum og athugasemdum sem nýst geta við stefnumótunina. Frestur til að veita umsögn er til og með 20. nóvember 2022. Gert er ráð fyrir að endanlegar afurðir úr verkefninu líti dagsins ljós sem frumvörp til Alþingis vorið 2024.“
Vakin er athygli á því að unnt er að koma á framfæri frekari ábendingum og upplýsingum sem kunna að nýtast í verkefninu í gegnum netfangið audlindinokkar@mar.is.