Fara í efni
Fréttir

Fyrstu lóðirnar í Móahverfi auglýstar

Akureyrarbær hefur auglýst eftir tilboðum í fyrstu lóðir í hinu nýja Móahverfi í norðvesturhluta bæjarins. 

Gert er ráð fyrir að byggðar verði allt að 1.100 íbúðir í hverfinu á næstu árum en í fyrsta áfanga er nú auglýst eftir tilboðum í 11 lóðir, auk þess sem auglýstar eru tvær lóðir þar sem úthlutun mun byggja á uppbyggingu íbúða á grundvelli stofnframlaga.

Í þessum fyrsta áfanga er áhersla lögð á lóðir fyrir fjölbýlishús af öllum stærðum og gerðum auk nokkurra par- og raðhúsa. Um er að ræða átta fjölbýlishúsalóðir, tvær raðhúsalóðir og þrjár parhúsalóðir þar sem heimilt er að byggja samtals 220 - 280 íbúðir. Lögaðilar geta boðið í allar lóðirnar en einstaklingar geta eingöngu boðið í parhúsalóðirnar.

Síðar á árinu munu fleiri par- og raðhúsalóðir auk einbýlishúsalóða verða auglýstar.

Fimmtudaginn 16. mars verður haldinn kynningarfundur um þessa fyrstu úthlutun lóða í Móahverfi. Fundurinn verður í Ráðhúsi Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, frá kl. 14.00 til 15.00. Í tilkynningu frá bænum eru þeir sem ætla að koma í Ráðhúsið beðnir um að skrá sig á með því að senda tölvupóst á skipulag@akureyri.is. Kynningarfundinum verður jafnframt streymt á Teams.

Útboðsgögn verða tilbúin til afhendingar 16. mars. 

Í tilkynningu frá bænum segir: „Tilboðum í lóðir skal skilað rafrænt á útboðsvef Akureyrarbæjar, https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/utbod/auglyst-utbod-loda frá 16. mars og fram til kl. 12 fimmtudaginn 30. mars 2023. Tilboð verða opnuð í Ráðhúsinu kl. 14 sama dag í viðurvist þeirra umsækjenda sem þess óska.“

  • Smelltu hér til að skoða vefsvæði Móahverfis, þar sem er að finna allar helstu upplýsingar um fyrirhugaða uppbyggingu og skipulagsferlið.