Fara í efni
Fréttir

Efasemdir um hækkun í Hafnarstræti 73

Ásýndarteikning af húsaröðinni Hafnarstræti 67-77. Skjáskot úr tillögu sem unnin var af Landslagi ehf.

Minjastofnun lýsir efasemdum um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hafnarstrætis 73-75 vegna fyrirhugaðrar hækkunar hússins númer 73 (Lón, Dynheimar). Stofnunin efast um að veggir hússins beri svo mikla þyngd. Hafnarstræti 73 er þriðja hús frá hægri á myndinni að ofan og númer 75 annað frá hægri.

Gert er ráð fyrir hótelstarfsemi í þessum húsum. Skipulagsráð Akureyrar fjallaði í vikunni um umsóknina.

Ásýndarteikning af Hafnarstræti 67-77 þar sem byggingar á lóðum 73 og 75 eru 3,5 hæðir.

Skipulagsráð samþykkti í október að heimila Haraldi Sigmari Árnasyni, fyrir hönd Hótel Akureyri ehf., að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits þannig að fyrirhugaðar byggingar undir hótelstarfsemi á lóðum 73 og 75 við Hafnarstræti verði fimm hæðir í stað 3,5 hæða.

Í umsögn Minjastofnunar koma fram efasemdir um að veggir gamla hússins beri svo mikla þyngd sem í hækkuninni felist og kemur fram að þar sé talað af reynslu. Áður hafði Minjastofnun fallist á hækkun Hafnarstrætis 73 um eina hæð með nýju risi árið 2018 með ákveðnum skilyrðum. „Nú er hins vegar verið að bæta einni hæð við og engar nánari útlitsteikningar fylgja sem sýna fram á hvernig breytingin snertir gamla húsið sem nú er friðað (byggt 1923),“ segir í viðbrögðum stofnunarinnar við tillögunni.

Húsaröðin Hafnarstræti 67-77 með fimm hæða húsum á lóðum 73 og 74, séð úr suðri eins og hún birtist í umsókninni frá því í haust og í frétt á Akureyri.net. Aðalmynd fréttarinnar sýnir húsaröðina séða úr norðri.

Minjastofnun bendir á að vandamálið sé ekki það að ekki sé hægt að gera fallega teikningu af breytingunni, heldur hitt að veggir gamla hússins beri tæplega svo mikla þyngd sem í hækkuninni felst. Í skipulaginu sé talað um að hækkunin verði úr léttu efni sem sé ekki ásættanleg niðurstaða að mati Minjastofnunar. Minjastofnun mun senda formlega umsögn þegar skipulagið verður auglýst.

Skipulagsráð frestaði afgreiðslu erindisins þar til viðbrögð umsækjanda við umsögn Minjastofnunar liggja fyrir.

Svæðið sem um ræðir, Dynheimar (Hafnarfstræti 73) til vinstri, og lóðin númer 75 (Urban Farm Akureyri) þar sem gert er ráð fyrir fimm hæða húsi. Skjáskot af ja.is