Fara í efni
Fréttir

Drónar gætu nýst vel við mælingu á útblæstri

Skemmtiferðaskip á siglingu inn Eyjafjörð. Líklegt er að afla mætti nákvæmari upplýsinga um útblástur skipa með því að mæta þeim með drónum úti á sjó en að mæla í landi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri.net hefur undanfarna daga fjallað um erindi sem flutt voru á kynningarfundi Ferðamálastofu um helstu málefni sem tengjast komum skemmtiferðaskipa. Í því fjórða var fjallað um mengun og mengunarmælingar og kom fram að gögn skorti yfir mengunarmagn frá skemmtiferðaskipum, til dæmis í samanburði við það að losunartölur frá flugrekstraraðilum og öðrum í ferðaþjónustu eru aðgengilegar.

Engar formlegar athuganir

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hafa ekki verið gerðar neinar formlegar athuganir á loftmengun frá skemmtiferðaskipum, en þó eru nokkrir mælar staðsettir í grennd við hafnir í þeirri von að ná loftmengun í kringum þessi skip. Þetta kemur fram í svari Ragnhildar G. Gunnbjörnsdóttur Phd., sérfræðings á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun. Einn þessara mæla sem staðsettir eru í grennd við hafnir er við Strandgötu gegnt Hofi.

Mælitæki við Strandgötuna, gegnt Hofi, í grennd við höfnina. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í svari Ragnhildar kemur fram að ekki hafi verið farið út fyrir reglugerðarmörk á þessum stöðum og vísar þá til mælisins á Akureyri og mæla í grennd við Reykjavíkurhafnir. „Við höfum ekki farið yfir fjölda leyfilegra skipta yfir heilsuverndarmörk síðustu ár á neinum stöðvum í landinu,“ segir í svari Ragnhildar.

Mögulegt er að fylgjast með loftgæðamælingum í nær-rauntíma, eins og það er kallað, á vefnum loftgæði.is, meðal annars úr mælistöðinni við Strandgötuna. Til samanburðar er dagatal yfir komur skemmtiferðaskipa að finna á vef Hafnasamlags Norðurlands, port.is. Hér ber þó auðvitað að hafa í huga að mælirinn við Strandgötuna er nokkurn spöl frá höfninni og staðsettur nálægt fjölförnum gatnamótum Strandgötu og Glerárgötu. 

Ónýtt aðferð hér á landi

Mæling á loftmengun frá skemmtiferðaskipum er hvorki einföld né auðveld enda margar breytur sem þar hafa áhrif. En með fjölbreyttari mælingaraðferðum má safna ítarlegri og nákvæmari gögnum. Huga þarf vel að staðsetningu mælitækisins út frá því hvar fólk verður útsett fyrir þessari mengun og út frá staðháttum og veðurfarsaðstæðum. Ýmsar breytur í veðrinu geta haft áhrif á það hvernig mengunin dreifist, svo sem vindátt, vindhraði, raki, veðrahvörf og fleira.

„Staðsetja þarf mælistöðina þar sem líklegt er að menguninni slái niður. Oft er þetta mat sérfræðinga, en einnig er hægt að notast við líkön í þessu samhengi. Ég veit þó ekki til þess að loftgæðalíkön hafi verið notuð í miklu magni í þessu samhengi,“ segir Ragnhildur í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net.


Dróni á vegum EMSA, European Maritime Safety Agency, stofnunar á vegum Evrópusambandsins. Myndin er af vef EMSA.

Ragnhildur nefnir einnig að svo hún viti til séu hér engar beinar mælingar á útblæstri skipa eins og gert er í sumum löndum. „Oft eru notaðir drónar til að fljúga í útblæstri skipanna meðan þau eru úti á sjó til að kanna hvaða eldsneyti er notað og hver mengunin frá þeim er. Þetta er ekki gert hér á landi, en myndi líklega skila miklu. Hér fer eftirlitssfólk um borð í skipin meðan þau eru við land og þar eru athuganir gerðar.“ Í þessu sambandi bendir Ragnhildur á að það geti gerst að notaðar séu aðrar tegundir eldsneytis úti á sjó en við land. Því myndu drónar skila betri upplýsingum.

Sýnataka úr tönkum

Hvað varðar eftirlit með mengun frá skemmtiferðaskipum og öðrum skipum þá hefur Umhverfisstofnun eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 124/2015 um brennisteinsinnihald í tilteknu fljótandi eldsneyti og er heimilt að taka sýni úr skipum, tönkum og olíubirgðastöðvum til greiningar. Þessum gögnum um eldsneyti er safnað í samstarfi við Samgöngustofu til að vakta brennisteinsinnihald í skipum við Ísland og má finna nokkrar af niðurstöðum þessa eftirlits frá árunum 2020-2021 á vef Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun hefur möguleika á að leggja stjórnvaldssektir á skip sem ekki fylgja reglum, en stofnunin hefur eftirlit með að þau skip sem koma til landsins noti eldsneyti með lægra brennisteinsinnihald en 0,10%, eða viðurkenndar hreinsunaraðferðir. Þvingunarúrræði sem stofnunin getur gripið til eru tilgreind í XIII. og XIV. kafla efnalaga nr. 61/2013. Stofnuninni er heimilt að veita áminningu, leggja á dagsektir, stjórnvaldssektir og að stöðva starfsemi til bráðabirgða.

Fyrirbyggjandi leiðbeiningar

Umhverfisstofnun sinnir einnig fyrirbyggjandi starfi við mengunarvarnir, meðal annars með útgáfu á leiðbeiningum fyrir stjórnendur farþegaskipa sem koma til Íslands, í samvinnu við Samgöngustofu og Landhelgisgæslu Íslands. Um þær segir á vef UST: Í leiðbeiningunum er að finna yfirlit yfir ákvæði í íslenskri löggjöf sem gilda um siglingar farþegaskipa við Ísland og varða siglingaöryggi, mengunarvarnir og náttúruvernd. Þar er einnig að finna nokkur tilmæli stofnananna til farþegaskipa. Leiðbeiningunum er meðal annars ætlað að tryggja að ferðir og ferðaáætlanir farþegaskipa á sjó og á landi fari ekki í bága við umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf á Íslandi. Leiðbeiningarnar eru gefnar út á rafrænu formi, bæði á íslensku og ensku.