Dísilknúinn strætisvagn til að brúa bilið
Meirihluti umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar hefur samþykkt að kaupa nýjan dísilknúinn strætisvagn fyrir 37 milljónir króna, og vísað málinu til afgreiðslu bæjarráðs og fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2024. Kaupin munu leysa úr brýnni þörf fyrir endurnýjun vegna hárrar bilanatíðni eldri vagna, að því er fram kemur í afgreiðslu ráðsins.
Akureyri.net hefur áður sagt frá því að vegna minnkandi framboðs á metani sem unnið var úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal hafi ekki verið möguleiki á að fjölga metanknúnum vögnum. Stefnan er hins vegar að endurnýjun vagnaflotans fari fram með kaupum á tveimur rafknúnum strætisvögnum á næstu tveimur til þremur árum og byggðir upp innviðir fyrir hleðslu þeirra. Í millitíðinni var talið nauðsynlegt að brúa bilið með því að kaupa dísilvagn.