Dagsektum seinkað vegna rangs ártals
Vegna misritunar á ártali í fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra í desember ákvað nefndin fyrr í þessum mánuði að falla frá innheimtu dagsekta á lóðarhafa að Hamragerði 15 á Akureyri og taka málið upp að nýju. Með nýrri ákvörðun verða dagsektirnar lagðar á frá og með 26. febrúar, hafi lóðarhafi þá ekki brugðist við ítrekuðum kröfum nefndarinnar.
Í frétt á Akureyri.net í desember kom fram að nefndin hafði áður samþykkt þann 15. nóvember að áminna lóðarhafa þar sem ekki hafði verið brugðist við fyrirmælum og bætt úr umgengni á lóðinni. Jafnframt fékk lóðarhafi þá lokafrest til 10. desember til að ljúka tiltekt og í framhaldi af því var ákveðið á fundi 13. desember að leggja á sektir að upphæð 20 þúsund krónur á dag, frá og með 2. janúar 2023, eins og misritað var í fundargerðinni.
Málið var að nýju afgreitt með eftirfarandi hætti á fundi nefndarinnar þann 7. febrúar:
„Eftir að fundargerð hafði verið frágengin og undirrituð kom í ljós að ártal í bókun hafði misritast, ritað var 2023 í stað 2024. Að höfðu samráði við lögfræðing Akureyrarbæjar var því ákveðið að falla frá innheimtu dagsekta og taka málið upp á ný á vettvangi nefndarinnar.“ Þá kemur einnig fram að ekki hafi enn verið brugðist við ítrekuðum kröfum nefndarinnar um tiltekt á lóðinni og áfram berist kvartanir vegna umgengni á lóðinni og við hana.
„Heilbrigðisnefnd harmar þau mistök sem urðu við ritun og frágang fundargerðar 233. fundar. Jafnframt lýsir nefndin yfir vonbrigðum sínum með það að tiltekt á lóðinni við Hamragerði 15 skuli enn ekki vera lokið. Að mati nefndarinnar hafa ítrekuð tilmæli og væg þvingunarúrræði ekki skilað tilætluðum árangri og því nauðsynlegt að ganga harðar fram í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur. Heilbrigðisnefnd samþykkir að leggja dagsektir á lóðarhafa að upphæð kr. 20.000,- á dag frá og með 26. febrúar 2024.“
Álagning dagsekta frestast því um 55 daga. Ef dagsektir hefðu byrjað að safnast upp frá og með 2. janúar eins og ætlunin var hefði uppsöfnuð upphæð verið komin í 1,1 milljón króna þegar kemur að álagningunni þann 26. febrúar samkvæmt nýrri ákvörðun nefndarinnar.
Skjáskot úr fundargerð nefndarinnar 13. desember 2023: