Byggt við búsetukjarna og leiksvæði minnkað
Fyrirhugað er að byggja við sambýlið að Hafnarstræti 16 á Akureyri og hefur breyting á aðalskipulagi bæjarins verið auglýst.
Skipulagsbreytingin felur í sér að íbúðasvæðið, þar sem búsetukjarninn er, stækkar um hálfan hektara og lóðin sunnan við minnkar sem því nemur. Á hluta þess svæðis er leikvöllur, beint austur af Laxdalshúsi.
Nokkrir íbúar Innbæjarins hafa lýst yfir mikilli óánægju við Akureyri.net vegna fyrirhugaðra breytinga; þeim finnst ekki nægilegt tillit tekið til barna, benda á að þarna sé um að ræða eina leikvöllinn í bæjarhlutanum, og ekki sé nein skólalóð í nágrenninu þar sem börn geti leikið sér, eins og í öðrum hverfum.
Hægt er að senda inn athugasemdir til 27. þessa mánaðar.
Hægt er að nálgast skipulagslýsingu í þjónustuveri Akureyrarbæjar í Ráðhúsinu og hér má líka sjá lýsingu á skipulagsferlinu.