Fara í efni
Fréttir

Austursíða: vilja lækka hámarkshraða

Loftmynd sem sýnir staðsetningu fyrirhugaðra gangbrauta yfir Austursíðu. Skjáskot úr fylgiskjali með afgreiðslu umhverfis- og mannvirkjaráðs.

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar leggur til að hámarkshraði í Austursíðu verði endurskoðaður. Í bígerð er að koma fyrir gangbrautum á tveimur stöðum yfir götuna, við Frostagötu/Þverusíðu annars vegar og við vestari innkeyrsluna að Norðurtorgi hins vegar. Íbúar í hverfinu hafa miklar áhyggjur af umferðaröryggi, en umferð hefur aukist mjög um götuna, meðal annars í tengslum við uppbyggingu við Norðurtorg. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar kallar eftir að löngu tímabær vinna við umferðaröryggisáætlun Akureyrarbæjar verði hafin.

Horfa þurfi til fleiri úrræða

Í tengslum við umræðuna í umhverfis- og mannvirkjaráði um umferðaröryggi í Austursíðu lagði Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi S-lista, fram bókun þar sem hún benti á að hún hefði í mars fyrir tveimur árum hafið umræðu um umferðaröryggismál á Akureyri og bæjarstjórn hafi þá samþykkt tillögu hennar um að hefja undirbúning að gerð umferðaröryggisáætlunar. „Því miður er sú vinna enn ekki hafin og því ekki til nein umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið,“ segir Hilda Jana meðal annars í bókuninni. Hún bendir á að á íbúafundi núna í maí hafi íbúar í hverfinu lagt mikla áherslu á bætt umferðaröryggi í Austursíðunni.
 

Frá umræddum hverfisfundi í Síðuskóla. Þar komu fram áhyggjur íbúa af umferðaröryggi í Austursíðu. Mynd: Akureyri.is.
Hilda Jana segir jafnframt í bókuninni að þessar tvær gangbrautir verði sannarlega til bóta. Hins vegar sé ljóst að ef mæta á ákalli íbúa þurfi ennig að horfa til fleiri úrræða, til dæmis gönguþverana við Bugðusíðu og Fögrusíðu, lækkaðs umferðarhraða og að bæta við hraðahindrunum. Ef ljóst sé að framtíðarlausnir taki einhvern tíma í framkvæmd segir Hilda Jana mikilvægt að horft sé til bráðabirgðalausna, ekki síst á svæðum þar sem mikil uppbygging á sér stað á skömmum tíma líkt og við Austursíðuna.
 

Loftmynd sem sýnir staðsetningu fyrirhugaðra gangbrauta (bláar) og staðsetninganna sem Hilda Jana nefnir í bókun sinni (rauðar). Skjáskot af map.is/Akureyri.

Gleymdist umferðaröryggisáætlunin eða ekki?

Akureyri.net hefur áður fjallað um vöntun á umferðaröryggisáætlun fyrir Akureyrarbæ, meðal annars þegar rætt var ítarlega við Aðalstein Svan Hjelm, íbúa í Oddeyrargötu, í febrúar í fyrra í tengslum við umferðarhraða og öryggismál í Oddeyrargötunni. Aðalsteinn Svan fullyrti þá að það hafi hreinlega gleymst að útbúa umferðaröryggisáætlun sem kynnt var af þáverandi bæjarstjóra 2009 að ákveðið hefði verið að gera. 

„Umferðaröryggisáætlun er ekki til. Það var fyrst skrifað undir 2009, ef ég man rétt. Þá var haldinn blaðamannafundur, bæjarstjórinn kvittaði undir að það ætti að búa til umferðaröryggisáætlun, líkt og er búið að gera held ég í flestum sveitarfélögum landsins. En svo var því bara stungið undir stól þangað til að við fórum að pönkast í öllum hérna innanbæjar í fyrra,“ sagði Aðalsteinn Svan í viðtali sem birtist í þremur hlutum 16.-18. febrúar í fyrra. 

Andri Teitsson, þáverandi formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs, brást við gagnrýni Aðalsteins varðandi umferðaröryggi í Oddeyrargötunni og andmælti einnig fullyrðingu hans um umferðaröryggisáætlunina. 

„Hún hefur aldrei gleymst og það hefur verið lögð talsverð vinna í ýmsa þætti hennar, svo sem að skoða og laga göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Einnig hefur verið lögð vinna í að kortleggja umferðarhraða í bænum, umferðargreinirinn hefur verið nær samfellt í gangi frá 2008. Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur fjallað um mikilvægi þess að ljúka við heildstæða umferðaröryggisáætlun og sérfræðingar okkar hafa verið í sambandi við verkfræðistofu um mögulegt umfang á þeirri vinnu. Skipulagsráð þarf einnig að taka virkan þátt enda liggur þar valdið til að ákvarða umferðarhraða, einstefnur og svo framvegis,“ sagði Andri í viðtali við Akureyri.net þann 19. febrúar 2023.