Fara í efni
Fréttir

Arkþing með bestu tillöguna um Torfunef

Yfirlitsmynd úr verðlaunatillögu Arkþings.

Tillaga Arkþing Nordic ehf. hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um nýtt skipulag Torfunefs. Niðurstaða dómnefndar var kynnt í gær í húsnæði Hafnarsamlags Norðurlands.

Í áliti dómnefndar segir m.a. að meginatriði tillögunnar felist í fjölbreyttum útirýmum sem mótuð séu með sjö byggingum, ólíkum að stærð og formi. Byggingarnar myndi húsaröð og aðdraganda að Hofi og gönguleiðin að Hofi sé endurbætt á áhugaverðan hátt. Sérstaklega sé unnið með tengsl við miðbæinn, annars vegar með porti við gatnamót Kaupvangsstrætis sem leggur áherslu á leiðina niður á bryggju og hins vegar með ákveðinni rýmismyndun og áfangastað við nyrðri tenginguna í framhaldi af nýju göturými vestan Glerárgötu.

Formaður dómnefndar, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, skrifar í inngangi að dómnefndarálitinu:

„Á síðustu árum og áratugum hafa skipulagsyfirvöld bæja og borga víða um heim gert sér sífellt betur grein fyrir því gríðarlega aðdráttarafli sem vel skipulögð hafnarsvæði með blandaðri starfsemi hafa fyrir íbúa og ferðafólk. Því hefur mikil áhersla verið lögð á faglega uppbyggingu þeirra verðmætu svæða sem liggja að hafi, sjó eða stærri fljótum.

Hlutverk hafnarsvæða hefur í tímans rás breyst frá því að vera miðstöð ýmis konar iðnaðar sem gjarnan tengist sjósókn eða flutningum á hafi, yfir í að vera blómleg miðstöð mannlífsins í hjarta borga og bæja.

Svæðið í kringum hina gömlu Torfunefsbryggju á Akureyri hefur alla burði til að verða slík miðstöð mannlífsins í bænum með beina tengingu við miðbæinn okkar og Menningarhúsið Hof. Því er afar mikilvægt að horft sé með heilstæðum hætti til framtíðar þegar kemur að uppbyggingu á þessu svæði og vandað mjög til verka.

Það var í þessum anda sem Hafnasamlag Norðurlands, Akureyrarbær og Arkitektafélag Íslands efndu í byrjun árs til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs. Meginmarkmið verkefnisins var að fá fram tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi í hjarta Akureyrar.“

Dómnefndina skipuðu, auk Ásthildar, Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, Ágúst Hafsteinsson, arkitekt FAÍ, Árni Ólafsson, arkitekt FAÍ, og Guðrún Ragna Yngvadóttir, arkitekt FAÍ.

Nánar hér um niðurstöðu dómnefndar