Fara í efni
Fréttir

Ný, áhugaverð könnun um skipulag á Oddeyri

Könnun um skipulagsmál á Akureyri er í gangi á netinu á vegum fyrirtækisins Envalys og stendur til fimmtudags, 10. júní. Þar eru valkostir í nýlokinni íbúakönnun um aðalskipulag Oddeyrar sýndir í gagnvirkri þrívídd og frá öðrum sjónarhornum en gert var í kosningunni auk þess sem fólk getur, auk þess að taka þátt í könnunni, skrifað athugasemdir og vangaveltur beint inn í könnunina.

Um er að ræða tilraunaverkefni og að sögn Páls Jakobs Líndal, stofnanda og eiganda Envalys, er tilgangurinn að auka skýrleika í kynningu skipulagsmála og afla með kerfisbundnum hætti gagna um viðhorf og upplifun fólks. Eitthvað sem sé verulega ábótavant við hönnun, mótun og skipulag umhverfis. „Hérna er verið að tvinna saman umhverfissálfræði og nýjustu tölvutækni,“ segir hann við Akureyri.net. Páll er doktor í umhverfissálfræði.

Ekki á vegum bæjarins

„Ég legg áherslu á að Akureyrarbær bað ekki um þessa könnun. Við gerum þetta algjörlega á okkar forsendum því við viljum sýna fram á að svona tækni geti nýst vel. Þegar skipulagsmál eru annars vegar skilur fólk oft varla það sem er verið að sýna og þá verður ekki til vitræn umræða. Þetta á ekki bara við um Akureyri heldur er þetta svona alls staðar. Stjórnmálamenn eiga að taka ákvarðanir á sem faglegustum grunni og þá er mikilvægt að safna sem öllum upplýsingum, það skiptir máli fjárhagslega, sálfræðilega og félagsfræðilega. Eins og staðan er núna er umræðan bara þras úti í bæ,“ segir Páll.

„Við biðum auðvitað með að setja þessa könnun í loftið þar til eftir íbúakosninguna, annað hefði verið dónalegt, og þetta er alls ekki krossferð gegn Akureyri. Við viljum hafa stjórnvöld með okkur í liði. Könnunin er í gangi til 10. júní og allir geta tekið þátt, bæði íbúar á Akureyri og annars staðar. Við hvetjum alla til að taka þátt og tjá sig, því við erum að prófa þessa tækni og niðurstöðurnar munu fara til Akureyrarbæjar. Þetta verður okkar innlegg, hvað svo sem sveitarfélagið gerir við niðurstöðurnar.“

Envalys er fyrirtæki sem sprottið er upp úr háskólaumhverfinu og nýtur núna styrks frá Tækniþróunarsjóði. „Við bjuggum könnunina til út frá þeim myndum sem sýndar voru í íbúakosningunni og stærðum húsa sem gefnar voru upp. Við reyndum að gera teikningar sambærilegar þeim sem sýndar voru í íbúakosningunni nema hvað okkar eru í þrívídd. Vísindin hafa sýnt fram á að fólk skilur slíkar myndir betur, ég tala nú ekki um þegar hægt er að hafa gagnvirk, rafræn samskipti.“

Sérhagsmunir og skammtímahagsmunir banvæn blanda

„Mér sem umhverfissálfræðingi finnst að sálfræðilegir þættir verði út undan við skipulag og hönnun umhverfis. Hugmyndin er að auka vægi þessara þátta; við erum öll manneskjur og tilfinningabúnt og mér finnst undarlegt að búa til umverfi fyrir fólk en taka ekki manneskjulega þáttinn með af fullum krafti. Það hefur verið mitt markmið, síðan ég byrjaði á þessu 2007, að koma þessum þáttum inn í skipulagsferli. Til varð verkefni innan Háskólans í Reykjavík sem heitir sjálfbærar borgir framtíðarinnar, við erum að safna upplýsingum til að þróa og byggja upp sálfræðilegan þekkingargrunn um það hvernig samskipti fólks og umhverfis er. Hluti af þessari þróun er að geta náð í mikið magn upplýsinga og sýna fólki gagnvirka þrívídd. Umhverfið er lifandi, fólk fær ekki bara að sjá myndir og þarf svo að skrifa bréf heldur getur gefið einkunnir og skrifað athugasemdir í viðmótinu.“

Páll Jakob segir: „Skipulag má ekki snúast um egóisma, sérhagsmuni og skammtímahagsmuni – sú blanda er banvæn! Skipulagsmál verða að snúast um algjöra andstæðu þessa; um samfélagið og að hugsað sé til lengri tíma. Skipulagsmál snúast ekki um einstaka persónur og leikendur. Okkur er alveg sama hvaða pólitíkus kemur málum áfram eða hvaða verktaki byggir.“

_ _ _ _

  • Páll Jakob Líndal varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1994. „Ég er ekki Akureyringur nema að því leyti að Stefán Stefánsson skólameistari var langafi minn; Hulda Stefánsdóttir, dóttir hans, var amma mín. Hún hafði mjög sterk tengsl við Möðruvelli í Hörgárdal og Akureyri og talaði mikið um þá staði. Yfir rúminu hennar hékk lengi mynd af Akureyri 1923 – og nú hangir hún hér fyrir aftan mig á skrifstofunni,“ segir hann við Akureyri.net. 
  • Páll var eitt ár í Verzlunarskólanum en líkaði ekki og langaði í MA. „Ég komst inn fyrir tilviljun og árin í MA breyttu lífi mínu. Mér finnst Akureyri flottur bær sem lítið hefur verið skemmdur, nú eru teikn á lofti sem mér líst ekki á en ég tek skýrt fram að könnunin hefur ekkert með mína persónulegu skoðun að gera. Hún er algjört aukaatriði.“

Smelltu hér til að taka þátt í könnuninni.

Heimasíða Envalys