Fara í efni
Þór

Þór mætir Keflavík í meistarakeppni KKÍ

Hrefna Ottósdóttir, Daníel Andri Halldórsson þjálfari, og Anna Ingunn Svansdóttir, leikmaður Keflavíkur, í bikarúrslitaleiknum í mars. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta mætir liði Keflavíkur, Íslands- og bikarmeisturunum, í meistarakeppni Körfuknattleikssambandsins, leiknum um titilinn meistarar meistaranna, í Keflavík í dag kl. 16:30.

Í leiknum um meistara meistaranna mætast Íslands- og bikarmeistarar frá síðastliðnu tímabili, en þar sem Keflvíkingar unnu tvöfalt og Þórsliðið fór í úrslitaleikinn í bikarkeppninni kemur það í þeirra hlut að mæta Keflvíkingum í þessum leik.

Þórsliðið vann úrvalsdeildarlið Njarðvíkur á útivelli í æfingaleik á dögunum og lið Hamars/Þórs, nýliða í efstu deild, á heimavelli fyrr í mánuðinum. Nokkrar breytingar hafa orðið á liðinu frá því í vor, tvær erlendar körfuknattleikskonur komnar inn í hópinn, ásamt fleiri breytingum. Fjallað verður nánar um liðið í aðdraganda fyrsta leiks í deildinni.

Stutt er í að keppni í úrvalsdeildinni, sem nú hefur fengið nafnið Bónusdeildin, hefjist. Þórsliðið fær stutta hvíld eftir Keflavíkurferðina því stelpurnar mæta liði Vals á útivelli þriðjudaginn 1. október.