Einvígi Þórs og Vals hefst í Höllinni í kvöld

Það er veisla fram undan í Íþróttahöllinni á Akureyri og Valsheimilinu að Hlíðarenda næstu daga því í kvöld hefst einivígi Þórs og Vals í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik, Bónusdeildarinnar. Þór byrjar einvigið á heimavelli þar sem liðið endaði í 4. sæti Bónusdeildarinnar, en Valur í 5. sætinu.
Þessi lið unnu hvort sinn leik í deildarkeppninni í vetur, fyrir tvískiptingu. Valur vann með fimm stiga mun á sínum heimavelli í byrjun október, en Þór svaraði með fimm stiga sigri á Akureyri í desember. Þór vann svo leik liðanna í A-hluta deildarinnar í byrjun mars með sex stiga mun á Akureyri.
Það má því búast við jöfnu og spennandi einvígi liðanna á næstu dögum, en meiðslalisti Þórs veldur þó helst áhyggjum, þrátt fyrir frábæra frammistöðu hjá löskuðu Þórsliði í naumu tapi fyrir Keflvíkingum í lokaumferð A-hluta deildarinnar fyrir skemmstu.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik – átta liða úrslit – leikur 1
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:30
Þór - Valur
Næstu leikir verða síðan laugardaginn 5. apríl í Reykjavík, miðvikudaginn 9. apríl á Akureyri og svo ef þarf, sunnudaginn 13. apríl í Reykjavík og miðvikudaginn 16. apríl á Akureyri. Vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslit Íslandsmótsins. Sigurlið einvígisins mætir sigurliðinu úr einvígi deildarmeistara Hauka og Grindavíkur.
- Vert er að geta þess að söngkonan Tinna Óðinsdóttir, sem tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins á dögunum, tekur lagið í hálfleik í kvöld.