Fara í efni
Þór

Annar leikur Þórs og Fjölnis í kvöld

Hart barist í leik Þórs og Snæfells fyrr í vetur. Í kvöld eru það hins vegar Fjölnismenn sem mæta í Höllina og þurfa Þórsarar að taka duglega á þeim til að halda sér inni í einvíginu. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Þórs í körfuknattleik byrjar íþróttavikuna þegar Þórsarar taka á móti Fjölnismönnum í öðrum leik liðanna í umspili 1. deildar þar sem liðin í 2.-9. sæti deildarinnar berjast um seinna lausa sætið í efstu deild á næsta tímabili. 

Efsta lið deildarinnar, ÍA, fer beint upp í Bónusdeildina en liðin í 2.-9. sæti eru í umspili um hitt lausa sætið. Þórsarar enduðu í 6. sæti deildarinnar og mæta Fjölni, sem endaði í 5. sætinu. Fjölnir fékk því fyrsta heimaleikinn og fær oddaleikinn á heimavelli ef til hans kemur. 

Í deildarkeppninni í vetur unnu liðin hvort sinn leik og það á útivelli, bæði með nokkrum mun. Þór vann í Grafarvoginum í desember, en Fjölnir vann á Akureyri í mars.

Þórsarar fengu á baukinn í Grafarvoginum í fyrsta leik einvígisins sem fram fór á föstudagskvöldið. Þegar upp var staðið hafði Fjölnir skorað 100 stig gegn 68 stigum Þórsara. Það er því ljóst að Þórsarar verða að taka sig á fyrir leikinn í kvöld og treysta um leið á öflugan stuðning úr stúkunni.

  • 1. deild karla í körfuknattleik – umspil 2.-9. – leikur 2
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
    Þór - Fjölnir

Þriðji leikur liðanna verður í Grafarvoginum föstudaginn 4. apríl og svo ef þarf, þriðjudaginn 8. apríl á Akureyri og laugardaginn 12. apríl í Grafarvoginum. Sigurliðið úr einvígi Þórs og Fjölnis mætir sigurliðinu úr einvígi Ármanns og Selfoss, en Ármann vann fyrsta leikinn í því einvígi. Vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í næstu umferð.