Fara í efni
Þór

Bræðurnir hönnuðu keppnisbúninga Þórs

Viktor Ernir, til vinstri, og Jason Orri, báðir klæddir treyjum sem þeir hönnuðu, þær eru hluti varabúnings en þeir halda á aðal-treyjunum. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Nýr búningur knattspyrnuliðs Þórs var frumsýndur á dögunum, þegar liðið mætti KA í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins. Falleg treyja vakti athygli og ekki síður það að hún var hönnuð af Þórsaranum Jasoni Orra Geirssyni. Þegar við söguna bættist að yngri bróðir hans, Viktor Ernir, hefði hannað keppnistreyju handboltaliðs Þórs taldi Akureyri.net ekki hjá því komist að spjalla stuttlega við þá bræður.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á treyjum og hef eiginlega verið að teikna þær síðan ég var sjö eða átta ára, þegar við bjuggum í Danmörku,“ segir Jason Orri. „Pabbi teiknaði þá margar litlar treyjur á A4 blað og ég litaði þær. Ég hef alltaf haft gaman af þessu og sá mér svo leik á borði þegar ég fékk tækifæri til að hanna alvöru treyju.“

Jason hefur áður hannað eina, svörtu treyjuna sem Þórsarar klæddust á útivöllum síðustu misseri. „Þá talaði ég við Svein Elías, formann knattspyrnudeildar, og spurði hvort til stæði að gera eitthvað sérstakt í búningamálum. Svo var ekki en hann spurði hvort ég vildi gera eitthvað, og ég sagði auðvitað já!“

Nýstárlegur varabúningur

Knattspyrnulið Þórs leikur í Macron búningum og Jason setti sig strax í samband við starfsmenn þar á bæ. „Þeir voru mjög hjálplegir, ég teiknaði fullt af hugmyndum og þeir völdu eina.“

Segja má að fyrstu skref í hönnun nýju búninganna hafi verið stigin á Ítalíu í september á síðasta ári. Fulltrúum allra íslenskra félaga sem leika í búningum frá Macron var boðið utan og skoðuðu þeir ma. höfuðstöðvar fyrirtækisins í Bologna. „Það var mjög flott og upp úr því hannaði ég þessar nýju treyjur. Varðandi heimatreyjuna var ég með í huga búninginn frá 1994 sem mér fannst alltaf mjög flottur, einmitt með Egils appelsín auglýsingu eins og núna.“

Hönnuðirnir ásamt litla bróður sem skartar nýrri markmannstreyju fótboltaliðsins. Frá vinstri: Viktor Ernir, Arnór Elí og Jason Orri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Óhætt er að segja að varabúningurinn sé nýstárlegur – Þór hefur ekki áður leikið í fjólublárri treyju. „Við Gestur [Arason] fórum á leik með Fiorentina þar sem Albert frændi minn spilar, liðið er í fjólubláum búningi sem mér finnst mjög flottur og mér datt strax í hug að gera eitthvað í þeim stíl.“

Jason segir aðspurður ekki hafa verið erfitt að fá stjórn knattspyrnudeildar til að samþykka nýja litinn. „Nei, alls ekki – og það kom mér svolítið á óvart! Ég fékk að gera þetta eins og ég vildi og tók hugmyndina alla leið. Tók smá áhættu en mér finnst þetta koma mjög vel út.“

Öfundaði Jason!

„Ég öfundaði bróður minn svo mikið að fá að gera þetta ég spurði stjórn handboltadeildarinnar hvort ég mætti ekki hanna búning á liðið!“ segir Viktor Ernir, spurður hvernig það kom til að hann fetaði í fótspor Jasonar.

„Ég var viðloðandi stjórnina í kringum úrslitakeppnina í fyrra, tók þá við samfélagsmiðlum fyrir handboltadeildina eins og Jason gerði fyrir fótboltann, og mér leist eiginlega ekkert á treyjurnar sem strákarnir voru að keppa í. Ég bauðst til að heyra í Kraft, sem framleiðir búninginn, og athuga hvort hægt væri að gera eitthvað skemmtilegt.“

Viktori var vel tekið af starfsfólki Kraft. „Það var mjög hjálplegt. Ég fékk A4 blað til að teikna á – eins og Jason í Danmörku! Teiknaði allt frá grunni, útlit búningsins og raðaði auglýsingum. Ég fékk alveg að stjórna þessu, enginn skipti sér af, og ég er mjög ánægður með útkomuna. Það eina sem er að ég fékk ekki að fara til Ítalíu!“ segir hann og hlær.

Þórsliðið hóf að leika í nýju treyjunum fyrir nokkrum vikum. „Við erum annað liðið á Íslandi sem leikur sem gerir sérhannaða treyju hjá Micron, fótboltalið Gróttu var það fyrsta.“

Til gamans má geta þess að bræðurnir eru nú báðir í stjórn handknattleiksdeildar Þórs, Viktor Ernir sér um samfélagsmiðla deildarinnar og Jason Orri sér um þá hlið fyrir knattspyrnudeildina.

Eldrautt Þórsblóð í æðum!

Gaman er að geta þess í lokin að bræðurnir eru aldeilis ekki þeir fyrstu í fjölskyldunni sem láta að sér kveða innan vébanda Þórs.

  • Faðir þeirra, Geir Kristinn Aðalsteinsson, er fyrrverandi leikmaður og þjálfari félagsins í handbolta. Þá var hann formaður Íþróttabandalags Akureyrar í mörg ár, þar til í fyrra. Móðir þeirra, Linda Guðmundsdóttir, starfar sem íþróttafulltrúi Þórs.
  • Föðurbræður Viktors og Jasonar, Sigurpáll Árni og Heiðar Þór, léku báðir handbolta með Þór og sá fyrrnefndi þjálfaði meistaraflokk Þórs á árum áður.
  • Föðurafi Viktors og Jasonar, Aðalsteinn Sigurgeirsson, lék bæði handbolta og fótbolta með Þór, og var formaður félagsins um 10 ára skeið, frá 1985 til 1995. Aðalsteinn er heiðursfélagi í Þór.
  • Föðuramma strákanna, Anna Gréta Halldórsdóttir, var þekkt stórskytta í handbolta í gamla daga (eins og rifjað var upp með gamalli íþróttamynd á Akureyri.net fyrir stuttu) og lék einnig körfubolta með Þór og var í Íslandsmeistaraliði félagsins í greininni 1969.
  • Að síðustu er þess að geta að faðir Önnu Grétu, langafi Jasonar og Viktors, Halldór Árnason heitinn – Dóri skó – var gerður að heiðursfélaga Þórs 1990.