Fara í efni
Þór

Globys til Þórs á ný og framherji frá Flórída

Andrius Globys í leik með Þór í mars 2021 - og Bandaríkjamaðurinn Tim Dalger sem í vetur þreytir frumraun sína utan Bandaríkjanna.

Körfuboltadeild Þórs hefur samið við tvo erlenda leikmenn um að leika með karlaliði félagsins í vetur. Annar er góðkunningi Þórsara; Litháinn Andrius Globys, sem lék með Þór veturinn 2020 - 2021, hinn Bandaríkjamaðurinn Tim Dalger sem þreytir nú frumraun sína utan heimalandsins.

„Tim Dalger er frá Flórída og er íþróttamaður mikill. Hann kemur úr sterku háskólaprógrammi og getur skorað hvort sem er nálægt körfunni eða langt frá henni. Hann mun hjálpa liðinu okkar mikið,“ segir Þröstur Jóhannsson, þjálfari Þórs á heimasíðu félagsins, sem kveðst spenntur fyrir nýja leikmanninum, sem lék með Billikens, liði Saint Louis háskólans í Missouri ríki.

Globys er sterkur framherji, 29 ára að aldri. Hann lék með Þór undir stjórn Bjarka Ármanns Oddssonar 2020 - 2021 við mjög góðan orðstír. „Andrius er fjölhæfur, klár leikmaður. Hann er 29 ára gamall og þó það teljist varla vera gamalt þá hækkar hann meðalaldur liðsins töluvert. Leikmaður með reynslu úr sterkari deildum og mun bæta liðið hvort sem er í leikjum eða á æfingum,“ segir Þröstur á heimasíðu Þórs.