Fara í efni
Sögur úr Innbænum

Jólapóstur

Þegar ég var drengur að alast upp á Akureyri vann pabbi, Ævar Karl Ólafsson á pósthúsinu en það var undraheimur sem gaman var að heimsækja fyrir jólin þegar allt var troðfullt af bréfum, pökkum og póstpokum. Ég var varla kominn af fermingaraldri er ég byrjaði að vinna þar í sumarvinnu, fyrst sem bréfberi eða við flokkun pósts, síðan sem gjaldkeri og í afgreiðslu á bögglastofunni. Og ég vann þarna líka í jólafríinu frá skólanum. Þá var oft mikil jólastemming og skemmtilegt að vinna og þessi tími rifjast oft upp á aðventunni. Þarna fóru um þúsundir bréfa og böggla á hverjum degi sem þurfti að skrá, frímerkja, stimpla og pakka og senda.

Þetta var fyrir daga samskiptamiðlanna og þarna kynntumst við unga fólkið þeim sem voru það sem kalla mætti sérþjálfaðir samskiptasérfræðingar, póstmönnunum. Þó oft væri galsi og grín í vinnunni þá var starfsseminni sinnt af faglegum metnaði og þarna lærðum við unga afleysingafólkið nákvæmni og skyldurækni. Reglum var fylgt í hvívetna og allt skráð skilmerkilega og innsigli og stimplar notaðir óspart í gæðastarfinu til að auka öryggi sendinga. Og stundum þurfti sérstakt öryggi með Ábyrgð eða mikinn hraða með Express.

Þarna vann fjöldinn allur af minnisstæðu fólki sem tók okkur unga afleysingafólkinu vel, sýndi okkur virðingu og gaf sér tíma til að leiðbeina okkur. Sá sem stjórnaði og bar hinn fallega titil póstmeistari var Óli P, virðulegur eldri maður með hatt og kom gangandi til vinnu en síðar tók við af honum tengdasonur hans Jóhann, glæsilegur maður og vingjarnlegur. Hann fékk mig stundum til að þvo bílinn sinn sem mér leiddist ekki og fékk þá að rúnta aðeins um á glæsikerrunni sem mig minnir að hafi borið númerið A579 (mikilvægi þessa skilja gamlir Akureyringar og leiðrétti mig nú ef ég man þetta ekki rétt).

Í afgreiðslunni voru pabbi og básúnuleikarinn Gulli, báðir oftast að troða í pípuna og Bylgja með sígarettuna í munnvikinu, pírandi augun af tóbaksreyknum. Lilja og maður hennar Óli Jóh sonur póstmeistarans voru ungt og sérlega glæsilegt fólk og seinna gerðist Óli þekktur listmálari. Svo var þarna Gísli Eyland sem stjórnaði bakvinnunni af mikilli alúð og nákvæmni en Guðmundur Steingrímsson vann flóknu verkin í tollpóstinum. Ég vann mikið með Jóni Inga Cæsarssyni á bögglastofunni og við náðum mjög vel saman og spiluðum endalaust borðtennis þegar beðið var eftir póstsendingum. Af þessu góða fólki lærði ég nákvæmni og samviskusemi í vinnubrögðum en einnig starfsgleði.

Stundum komu bréf erlendis frá með ófullkominni utanáskrift sem gaman var að finna út úr. Á þessum árum kunni ég röð allra bæja frá botni Eyjafjarðar út að Grenivík að austan og yfir í Fnjóskadal og út í Svarfaðardal að vestan og í Hrísey. Flest mannanöfn á bæjunum voru líka orðin kunnugleg eftir flokkun pósts í aðdraganda margra jóla. Það kom fyrir að þýskur strákur í bakpokaferðalagi væri að reyna að senda kveðju til stúlkunnar sem hann hafði kynnst sumarið áður en mundi ekki bæjarheitið. Þá gat hann tekið upp á að teikna utan á umslagið hvernig vegurinn lá inn dalinn og merkt við þriðja bæinn austan ár þar sem hann minnti að heimasætan hefði búið. Einn viðskiptavinurinn í bænum merkti til gamans öll jólakortin sem hann sendi með myndagátu í stað nafns og heimilisfangs. Það gat verið mjög spennandi að finna út úr þessu.

Lilja Sigurðardóttir, Guðlaugur Baldursson og Ævar Karl Ólafsson í afgreiðslunni á pósthúsinu.

Það fór mikið af áfengi í gegnum pósthúsið, sent frá Ríkinu á Akureyri á póststöðvarnar á Norðausturlandi. Oft var flöskunum pakkað tveimur eða fjórum, jafnvel sex í pappakassa. Einu sinni hafði ég misst kassa og flaska með Ákavíti brotnað. Jón Ingi brá skjótt við og greip kaffibrúsa og lét leka í hann. Síðar um daginn helti Guðmundur upp á kaffi og notaði að venju, án þess að hugsa sig um, kaffibrúsann til þess að fylla stóra kaffikönnuna. Þar með var komin óvænt styrking í kaffið sem uppgötvaðist í frekar skemmtilegum kaffitíma síðar um daginn.

Mesta upplifunin var að bera út póstinn dagana fyrir jól. Maður rogaðist í snjónum með þungan póstpokann fullan af jólakveðjum frá vinum og fjölskyldu, nær og fjær. Þegar bankað var upp á opnaðist inn í heim og jólaundirbúning hvers heimilis. Sums staðar var matarilmur, fjör og ofgnótt. Annars staðar þögn og fátækt eða fyllerí. Mjög forvitnilegt og e.t.v mótandi fyrir ungan dreng. Svona eftir á að hyggja eins og félagsleg rannsókn á stöðu mála í tíuþúsund manna samfélagi norður við heimskautsbaug á seinni hluta tuttugustu aldar. Í minningunni er þetta samt eins og í fallegu jólakorti: Það marrar í snjónum þegar gengið er eftir götunni á milli húsanna. Það eru fáir bílar á ferð og það verður undarlega kyrrt þegar byrjar að snjóa. Krakkarnir eru búnir að festa tunguna á frosnu handriðinu og konan í bakhúsinu er að sjóða skötu og lyktina leggur suður allt hverfið. Sjómaðurinn er góðglaður og valtur á fótunum að baksa við að komast út úr leigubílnum frá BSO með tvo stóra makkintoss bauka sem hann hefur keypt í túrnum til Bretlands. Byrjað er að lesa jólakveðjurnar í útvarpinu: Sendi öllum Akureyringum, vinum og ættingjum nær og fjær mínar bestu óskir um gleðileg jól.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir. Hann er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. 

Handavinna og smíði í Barnaskóla Akureyrar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. september 2022 | kl. 06:05

Listnám í Barnaskóla Akureyrar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
30. ágúst 2022 | kl. 06:00

Saga úr Innbænum VII – frekari upplýsingar

Skapti Hallgrímsson skrifar
17. ágúst 2022 | kl. 17:00

Barnaskóli Akureyrar – Fyrsti skóladagurinn

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
15. ágúst 2022 | kl. 23:00

Kartöflur og kjallarar

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
24. apríl 2022 | kl. 06:00

Róló og leikirnir í Innbænum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. apríl 2022 | kl. 06:00