Fara í efni
Snjókross

Glæsileg tilþrif á sleðunum - MYNDIR

Fyrsta umferð Íslandsmeistaramótsins í snjókrossi – snocross –  fór fram á Mývatni í dag, þar sem bæði veðurguðirnir og vélsleðakapparnir sýndu sparihliðarnar. Keppnin var á dagskrá í gær, ákveðið var að fresta henni um sólarhring vegna veðurs og í dag voru allar aðstæður eins og best verður á kosið.

Akureyringurinn Bjarki Sigurðsson sigraði í Pro Open flokki, þar sem þeir bestu og reyndustu eigast við. Ívar Már Halldórsson varð annar og Baldvin Gunnarsson þriðji.

Í Sport Pro flokki varð Einar Sigurðsson hlutskarpastur, Hákon Birkir Hákonarson í öðru sæti og Bergsveinn Ingvi Friðbjörnsson þriðji.

Í Sport flokki varð Bjarki Jóhannsson í fyrsta sæti, Elvar Örn Jóhannsson annar og Axel Darri Þórhallsson í þriðja sæti.

Verðlaun fyrir tilþrif í unglingaflokki hlaut Alex Þór Geirsson.

Mikil stemning er í hópi vélsleðamanna um þessar mundir og þrátt fyrir að um einstaklingskeppni sé að ræða eru búið að setja saman nokkur lið, sem setur skemmtilegan svip á keppnina. 

Það var AMS í Mývatnssveit sem sá um mótshald og var aðbúnaður og skipulag til mikillar fyrirmyndar. Alls voru 26 keppendur skráðir til leiks, 11 í Sport flokki, níu í Sport  Pro og fimm í Pro Open.

Tvær vikur eru í næstu keppni, sem haldin verður á Akureyri 27. mars. Alls verður keppt fjórum sinnum um Íslandsmeistaratitilinn en tímabilinu lýkur með tvöfaldri keppni á Sauðárkróki, 17. og 18. apríl.

 

Bjarki Sigurðsson á fleygiferð í Mývatnssveit í dag. Fleiri glæsilegar myndir af honum neðar! 

Þrír efstu í Pro Open flokknum, frá vinstri: Ívar Már Halldórsson, sigurvegarinn Bjarki Sigurðsson og Baldvin Gunnarsson.

Þrír efstu í Sport Pro flokki, Hákon Birkir Hákonarson, Einar Sigurðsson og Bergsveinn Ingvar Friðbjörnsson.

Þrír efstu í Sport flokki, frá vinstri: Axel Darri Þórhallsson, sigurvegarinn Bjarki Jóhannsson og Elvar Örn Jóhannsson.

Alex Þór Geirsson, sem fékk viðurkenningu fyrir tilþrif í unglingaflokki.

Liðsstjórarnir í dag, frá vinstri: Hákon Gunnar Hákonarson, Guðlaugur Már Halldórsson  og Björn Már Björnsson.

Hér að neðan eru svo nokkrar myndir þar sem sá besti í dag, Bjarki Sigurðsson, leikur listir sínar!