Fara í efni
Snjókross

Milljón í krumpuðum 500 köllum og snjókross ævintýri í Bandaríkjunum

Bjarki Sigurðsson sigri hrósandi í einni keppninni í Bandaríkjunum um daginn.

Bjarki Sigurðsson, þekktur fyrir afrek á vélsleðum, varð þrítugur síðastliðið haust og fékk timburkassa með járnumgjörð og lásum, fullan af seðlum, í afmælisgjöf þegar hann blés loksins til veislu í janúar. Hann fékk hins vegar ekki aðgang að kassanum sem innihélt 1.000.670 krónur nema með því að uppfylla ákveðið skilyrði. „Ég þurfti að senda skjáskot af flugmiða til að fá lykilinn í hendurnar og fara svo með kassann sléttfullan af seðlum í bankann. Það var athöfn út af fyrir sig. Og reyna að útskýra fyrir dömunni í bankanum að þetta væri ekki illa fengið fé,“ segir Bjarki og vísar þar til þess að innihald kassans sem var „krumpaðir fimm hundrað kallar,“ eins og hann lýsir því, mátti hann eingöngu nota til að kosta ferð til Bandaríkjanna til að keppa í snjókrossi.

Afmælisgjöfin varð til þess að hann gekk í málið, pantaði sér flug út og keypti sér sleða úti. Hann hafði nefnilega verið að undirbúa Bandaríkjaferð með því að reyna að hafa uppi á fólki vestanhafs sem gæti aðstoðað hann. „Það var ekki fyrr en í desember sem ég kemst í samband við karl úti sem heitir Joe Duncan. Hann er gamall félagi pabba frá árunum í kringum 2000. Þá var hann að sjá um snjókrosskeppnirnar í Ameríku á þeim tíma og kom líka til Íslands nokkrum sinnum,“ segir Bjarki um undirbúninginn. Á þeim árum voru nefnilega alþjóðlegar keppnir hér á landi þar sem keppendur komu meðal annars frá Bandaríkjunum og Rússlandi.

Bjarki mættur í vinnuna heima á Akureyri á ný eftir ævintýrið vestanhafs. Hann starfar hjá AB varahlutum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ekki „minn“ sleði en minni fyrirhöfn

„Þetta var bara beint í djúpu laugina. Þó sleðarnir séu oftar en ekki býsna svipaðir þá á maður alltaf sinn sleða og það er ekki alltaf auðvelt að fara á eitthvað nýtt,“ segir Bjarki. Það er töluvert minni fyrirhöfn að kaupa sér sleða úti en að fara að flytja eigin sleða út þó vissulega geti verið betra að keppa á eigin sleða.

„Já, töluvert minni fyrirhöfn og bara miklu þægilegra. Þarna komst ég inn í lið sem ég gat keypt sleða hjá og svo bara gerðu þeir allt fyrir mig, skutluðu sleðanum fyrir mig á æfingar. Ef það þurfti eitthvað að skrúfa eða stilla þá gerðu þeir það fyrir mig og það fór meira að segja það langt að þeir helltu á hann bensíni fyrir mig. Ég var bara eins og prinsessa í þessar rúmu tvær vikur sem ég var þarna úti.“

Liðið sem Bjarki vísar til sem hann komst í samband við er með höfuðstöðvar í Minnesota, æfingaaðstöðu og allt sem þarf. Bjarki flaug út ásamt kærustunni og foreldrum sínum í lok febrúar, en fyrri keppnishelgin var 3. og 4. mars – og sú seinni viku síðar.

Bjarki á verðlaunapalli ásamt foreldrum sínum og kærustu eftir sigur í flokki 30 ára og eldri í Sioux Falls sem segir frá á morgun. Frá vinstri: Pálína Austfjörð, Sigurður Sigurþórsson, Bjarki og Arney Ágústsdóttir.

Bjarki náði tveimur góðum og dýrmætum æfingum fyrir fyrstu keppnina, en það er ekki sama að keyra brautir á Íslandi og í Bandaríkjunum. „Þó þetta sé í rauninni sama sport, snjósleðakrossið, þá er þetta allt í þriðja veldi þarna úti hvað varðar stærð á stökkpöllum og öllu svoleiðis,“ segir Bjarki og því var það mjög dýrmætt fyrir hann að geta keyrt sig inn í það sem menn eru að gera þarna. „Þó vissulega hefði ég þurft nokkra mánuði en ekki tvo daga þá var þetta eitthvað sem ég þurfti virkilega.“

Á fyrsta æfingadegi leist mönnum ekkert sérstaklega á hann, virkaði eins og byrjandi því heimamenn voru miklu hraðari. „Ég var rosalega óöruggur til að byrja með. Á meðan þeirra venjulegu stökk eru 30 metrar eru okkar stökk tíu metrar. Allt miklu tæknilegra og mun léttara að gera mistök – og mistökin eru dýrkeypt.“

„Alveg hryllileg braut!“

Eftir tveggja daga æfingar, stillingar og vinnu við sleðana keyrði hópurinn til bæjar sem heitir Sioux Falls í Suður-Dakóta. „Þar blasir við þessi alveg hryllilega braut,“ segir Bjarki þegar hann rifjar upp komuna á staðinn. Brautirnar þar vestra eru bara stöðugir stökkpallar og hólar til skiptis og ökumenn stöðugt að stökkva á milli og reyna að finna taktinn og þannig er hún allan hringinn, mjög ólíkt því sem sleðamenn eru vanir hér heima.

Bjarki á fleygiferð í einni keppninni vestanhafs í síðasta mánuði.

„Hérna heima eru sléttir kaflar á milli stökkpalla og stökkpallurinn er með flötum toppi. Þarna úti eru eiginlega engir svoleiðis pallar, þetta eru allt bara uppstökk og svo bil og í lendingu. Þannig að ég fékk pínu í magann og allar væntingar til árangurs fóru mjög hratt niður. Markmið mitt varð bara að lifa af helgina,“ segir Bjarki. Svo kom annar skellur því æfingin varð styttri en lofað var, flaggað út eftir fjóra hringi. „Þá kom enn meiri kvíði í magann vegna þess að ég náði engum almennilegum tengslum við brautina á þessum tíma.“

„Tilbúnir að láta lífið í fyrstu beygju!“

Bjarki keppti í sportflokki á föstudeginum, en keppt er í fjórum flokkum, Sport Light, Sport, Pro Light og Pro. Í neðsta flokknum, Sport Light, ungir ökumenn sem koma þar inn eftir unglingaflokkinn og fara síðan upp í sportflokkinn og svo áfram. En sportflokkurinn er sérstakur að sögn Bjarka.

„Þessi flokkur er alveg stórkostlegur. Þarna eru krakkar alveg frá 16 ára aldri og greinilega upp í þrítugt af því að ég var þarna líka. Það sést alveg á akstrinum hjá þeim að þeir þurfa ekkert að mæta í vinnu á mánudeginum. Það var aðeins búið að vara mig við þessu vegna þess að þeir eru alveg tilbúnir að láta lífið í fyrstu beygju. Um leið og græna ljósið kemur lokast á alla rökhugsun og það er bara haldið í botni, allt á fullt, sem var klárlega raunin í þessari keppni því menn voru að fljúga á hausinn út um allt.“

Bjarki segir það nánast eins og að keyra í gegnum jarðsprengjusvæði að komast framhjá sleðum og mönnum í þessari keppni á föstudeginum.

Rosalegt keppnisskap, ekki viðræðuhæfur á keppnisdögum

Keyrðar eru tvær umferðir og árangurinn úr þeim ræður því hvaða keppendur fara beint í úrslit og hverjir þurfa að fara í „síðasta séns“, aukaumferð til að fylla síðustu sætin í úrslitunum.

Bjarki endaði í þriðja sæti í fyrri umferðinni, en 22 hófu keppnina. Fimmtán komast í úrslitin. „Ég byrja frábærlega og kem inn í pyttinn og ljómaði allur. Allt liðið hálfhissa á þessu af því að þeir sáu mig keyra nokkrum dögum áður. Ég hef alltaf verið svoleiðis, hef aldrei náð miklum hraða á æfingum, en svo þegar kemur í keppni þá breytist ég.“

Er það þá bara adrenalínið og keppnishamur sem kemur yfir þig?

„Ég er með svo agalega mikið keppnisskap. Ég er oft ekki viðræðuhæfur á keppnisdögum. Maður er alveg klofinn persónuleiki á svona dögum.“

Í keppni við „tryllta unglinga“

Bjarki varð þriðji í fyrri umferðinni, en „svaf yfir sig“ á ráslínunni í þeirri seinni, eins og hann orðaði það. Var seinn af stað og endaði í kringum 10. sætið. Hann var því ekki bjartsýnn á að komast beint í úrslitin. En svo kom í ljós að hann slapp beint inn í úrslitin.

Í úrslitaumferðinni var mikill æsingur og atgangur. „Strax í fyrstu beygju velta þrír minnir mig og tveir detta á fyrsta palli. Þetta verður það mikil spenna að ég hálfpartinn gleymdi að anda. Ég fattaði það bara á fjórða hring að ég var ekki búinn að anda neitt. Það var svo mikil spenna og haldandi fast í stýrið, þetta var bara ótrúlegt. Þú getur ímyndað þér, þetta voru trylltir unglingar,“ segir Bjarki um keppinautana og úrslitaumferðina. Honum gekk þó ekki verr en svo að hann endaði í 6. sæti sem var árangur sem hann grunaði ekki að hann gæti náð.

  • Á MORGUN – Alvöru sýning og áhorfendur trylltust!