Fara í efni
Snjókross

Mikið sjónarspil í undirbúningi

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Bikarmót vélsleðamanna í snjókrossi – snocross – verður haldið á Akureyrarvelli á laugardaginn og þar er mikið sjónarspil í undirbúningi. Veislan hefst kl. 18.00.

Verktakar bæjarins hafa nú þegar keyrt liðlega 18.000 rúmmetrum af snjó inn á völlinn og eru hvergi nærri hættir. Brautin verður stór og flott, að sögn Axels Darra Þórhallssonar, eins þeirra sem undirbúa mótið. Hann hefur undanfarið hvílt sleðann og séð til þess í félagi við aðra að fjarstaddir geti fylgst með Íslandsmótaröðinni í snjókrossi, með stórglæsilegum beinum útsendingum á youtube rásinni Fuelkött. Þeir Axel halda sínu striki og senda beint frá bikarmótinu á laugardag.

Smellið hér til að fara á Fuelkött youtube rás Axels og félaga.

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Fyrirkomulag bikarmótsins á laugardag verður annað en á Íslandsmótaröðinni. Í stað þess að allir taki þátt í umferðunum þremur etja sleðakempurnar nú kappi hver við annan í tveimur undanriðlum til að komast í úrslitin, sem fram fara í upplýstri brautinni um kvöldið.

Aðeins einu sinni hefur verið haldin keppni í snjókrossi á Akureyrarvelli. Það var árið 2000, keppendur þá 30 í þremur flokkum en vonast er til þess að það met verði slegið á laugardaginn.

Viðburðurinn á Facebook