Danska
AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 59
Guðrún amma talaði dönsku ef hún ætlaði að láta taka mark á sér. En með þeim hætti hljóðaði tilskipunin miklu betur. Og ekki bara á sunnudögum. Alla daga.
Íslenska væri hversdagsmál. Danska þótti hæfilega hofmúðug. Hún talaði miklu skýrar en froðan sem læki af frónskunni, að henni sjálfri fannst.
Svo ég varð snemma tvítyngdur eins og önnur systkini mín af Syðri-Brekkunni. Því hún fór aldrei út á svalir, ef hún átti þess kost, þar sem hún var raunar við það að forkelast, heldur fram á altanið, og utan um garðinn við húsið var miklu fremur stakketí en girðing, en ef inn var komið lá heklaður og vel straujaður löberinn á mublunni, en það merkti renningur á skenknum, í sjálfu sér dúkur á ylhýrri íslensku, en mér var stundum legið á hálsi af vinum mínum að vera svolítið hallur undir dönskuskotin úr munni ömmu minnar, sem áttu það til að detta óvart upp úr túla mínum, svo helvede ligeglad, sem maður var að verða.
En eldhúsið var þó einna mest erlendis.
Amma lagaði þar hjemmelavaðar fríkadellur, eins og það hét í hennar húsum, en það merkti akureyskar kjötbollur, og ef hún ætlaði sér að sjóða þverskornu ýsuna var það alltaf gert í kastarollunni, en aldrei í potti, sem að hennar mati var full til flatt á tungurótinni. En þetta væri sko lavning í lagi.
Og hún gaf mér aldrei sælgæti heldur bolsíur og slikkerí.
Svo man ég hvað andlitið af henni féll heldur afgáttalega niður í gólfið þegar fjarskyld ættmennin komu að sunnan og sögðu í óspurðum fréttum að það hefði ekki einu seinni heldur tvisvar sprungið á dekkinu á leiðinni.
En það héti púnkterað, sagði sú gamla, og lét hnussa í tálknum, yggld á brún.
Og ég sé hana fyrir mér í helgri minningu, hennar majestæd, svo meget blessed.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: SVIÐNIR LEGGIR