Fara í efni
Sigmundur Ernir

Njóli

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 75

Aðalatriðið var að reykja. Fyrirmyndirnar voru svo að segja á hverju strái. Það sást ekki í saumaklúbbana fyrir mekkinum sem lagði af vindlingum frúnna sem prjónuðu, reyktu og töluðu í einni saman hendingunni.

Það reyktu allir. Kennarar frammi fyrir nemendum, gjaldkerar inni í básum sínum og rútubílstjórar á meginleiðum landsins. En þess utan farþegar, af fremsta bekk og aftur úr, en sú nýlunda var þó tekin upp í innanlandsflugi, líklega á áttunda áratugnum, að aðeins mætti reykja öðru megin í Fokkernum.

Það hefur líklega verið léttir fyrir þá sem sátu hinum megin.

En við krakkarnir reyktum njóla. Höfðum ekki efni á innfluttum sígarettum. Og af því að við gátum ekki verið minni menn en fullorðnir, þurfti auðvitað að máta sig við þessa nautn að hleypa reyknum inn fyrir varir, og helst ofan í lungu, ef maður var lengra kominn, og búinn að henda af sér helvítis hóstanum.

En það var nóg til af njóla. Hann óx um alla Akureyri, og þess þá síður að nokkurt ungmenni gæti staðist þessa freistingu að taka með sér eldspýtur að heiman og finna almennilega þroskað illgresi til að halda á milli fingra sinna, en kveikja svo í öðrum hvorum endanum, og leggja varirnar að hinum, svo það varð eiginlega ósjálfrátt viðbragð manns að anda að sér reyknum.

Þannig byrjaði kynslóð manns að reykja. Einhvers staðar inni í vinnuskúr. Á byggingasvæðinu á næstu grösum við heimili manns. Þar varð fyrsta kommúna manns að veruleika. Það var setið í hring, lengi vel, og reykt, en sá sem hóstaði lengst, var mesti auminginn. Það hét ekkert minna.

En því næst var að hnupla sígarettum úr pökkum foreldra sinna.

Og reykja upp frá því, eins og maður.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SAUMAHERBERGI

Svefnsófi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. apríl 2025 | kl. 11:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Ómegð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
24. mars 2025 | kl. 11:30

Betrekk

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. mars 2025 | kl. 11:30

Linduveðrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. mars 2025 | kl. 11:30

KEA

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. mars 2025 | kl. 11:30