Fara í efni
Sigmundur Ernir

Linduveðrið

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 70

Já, en þetta er nú ekkert á við Linduveðrið.

Þessi setning fylgdi Akureyringum og sjálfsagt Eyfirðingum öllum um áratugi og fram að aldamótum – og sjálfsagt yfir þau líka.

En það varð til nýtt og óafturkræft viðmið í veðri á átta ára afmælisdegi mínum 6. mars 1969, þegar helsta lægðin á öldinni sem leið, svipti öllu þvera þakinu af súkkulaðiverksmiðju Lindu niðri á eyrarflatanum í einni svipan.

Húsið tók hatt sinn ofan.

Afleiðingar óveðurs höfðu aldrei verið myndrænni, og vel að merkja, Sjónvarpið var nýkomið norður á Akureyri – og mannfólkið nyrðra horfði á þessi undur og stórmerki á svarthvítum skjánum heima hjá sér, ef loftnetið virkaði. Linduþakið lá þarna fyrir framan það, á belgvíðum skjánum, en þó aðallega á eyrinni.

En það sem þetta glumdi í eyrum manns fram eftir aldri. Einu gilti hversu veðrið varð vont. Og engu skipti hvað ófærðin varð mikil og langvarandi. Það glumdi alltaf sama bjallan í eldra fólkinu; en þetta væri nú ekkert á við Linduveðrið.

En þannig var ungdæmi manns. Það var bara eitt vont veður. Linduveðrið.

Og öll hin sem maður varð að sætta sig við, hvort sem var um borð í Drangi á leið í skíðaferðalög út með firði, og allir ælandi um borð, eða á bekk í rútu, fastri við Hauganes, svo við fengum náðarsamlegast að sofa í kirkjunni á Stóra Árskógssandi, og stundum líka, ef við vorum heppnari, á fóðruðu dýnunum í Víkurröst, ef ekkert var rutt, svo dögum skipti, en það var segin saga að allt saman var það ekkert á við Linduveðrið.

Ég hef stundum hugsað til þess á efri árum hvað líf mitt væri einfaldara í veðurminningunni ef Linduþakið hefði ekki gefið sig um árið.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BETREKK

Njóli

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. apríl 2025 | kl. 11:00

Svefnsófi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. apríl 2025 | kl. 11:30

Rauðkál

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
31. mars 2025 | kl. 11:30

Ómegð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
24. mars 2025 | kl. 11:30

Betrekk

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. mars 2025 | kl. 11:30

KEA

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. mars 2025 | kl. 11:30