Fara í efni
Jón Óðinn Waage

Hatur

Reiði, vonbrigði og biturð er hættulegur kokteill, það þekki ég sjálfur, þurfti að flytja frá Íslandi því þessi kokteill var að drepa mig. Það er léttara að eiga við hann í nýju landi en hann er þó enn til staðar, maður tekur einn dag í einu, leitar að gleðinni í öllu og beitir sjálfan sig aga til að brotna ekki.

Það sem hjálpar mér þó mest er starf mitt með unglingum sem kerfið hefur brugðist. Flest eiga það sameiginlegt að kerfið hefur lagt fyrir þau verkefni og próf sem þeim var aldrei mögulegt að leysa svo þau upplifa sig misheppnuð. Afleiðingin er fyrrgreindur kokteill sem þau fá stóran skammt af. Þau refsa sjálfum sér með því að skaða sig og leita athvarfs í vímu fíkniefna. Og þau hata. Þeim líður eins og mér, þess vegna kemur okkur vel saman og að vera til staðar fyrir þau huggar mig. Fyrir það get ég aldrei þakkað, bara reynt að gera betur.

Hatrið leitar sér andlags, það dugir ekki bara að hata sjálfan sig. Þessir krakkar eru auðveld bráð fyrir tækifærissinnaða aðila sem reyna að telja þeim trú að ákveðnir hópar séu orsökin fyrir öllu því sem illa fer. Oftast eru það hópar sem eiga erfitt með að svara fyrir sig, flóttamenn eru þess vegna auðveld bráð.

Það var 14 ára strákur sem leið mjög illa og var hættur að mæta í skólann. Ég fékk það verkefni að fara heim til hans og reyna að fá hann í skólann. Það tókst. Við urðum ágætis mátar. Einn daginn gekk hópur innflytjenda nemenda fram hjá herberginu sem við sátum í. Þau voru öll dökk á hörund. Hann horfði á þau og leit svo á mig og sagðist hata svona fólk, innflytjendur sem að tækju alla peninga frá fátæku fólki í Svíþjóð. Hann sagðist vita að ég væri líka innflytjandi en ég væri hvítur og nennti að vinna. Það væru bölvaðir „niggararnir“ sem hann hataði. Maður rökræðir ekki rasisma úr unglingi sem líður illa, það er vonlaus aðferð, svo ég kinkaði bara kolli. Að hjálpa honum að losna við hatrið þurfti aðra aðferð.

Í marga mánuði sótti ég hann á hverjum degi, við fórum saman í íþróttasalinn þegar enginn var þar, gerðum þrekæfingar og spiluðum körfubolta. Hann vildi ekki hitta aðra nemendur, bara mig, ég var sá eini sem hann treysti. Einn daginn þegar við vorum að koma út úr íþróttahúsinu mættum við fósturdóttir minni, en hún var nemandi við skólann. Ég spjallaði að sjálfsögðu við hana á íslensku og svo fór hún sína leið. Fósturdóttir mín er ættuð frá Indlandi og er mjög dökk á hörund. Þegar hún var farinn sá ég að drengurinn horfði alvarlega á mig. Svo spurði hann mig hvort ég kynni sama tungumál og þessir bölvuðu „niggarar“. Ég neitaði og sagði honum að þetta væri íslenska og „niggarinn“ væri dóttir mín. Svo brosti ég en veröld hans hrundi.

Næsta dag sátum við og spjölluðum eftir að hafa tekið vel á því. Hann var yfirleitt ekki orðmargur en í þetta skiptið hafði hann þörf fyrir það að tala. Hann spurði mig mikið út í dóttur mína og ég svaraði. Svo sat hann þögull lengi. Leit svo á mig og sagði að það skipti ekki máli hvernig húðin væri á litinn. Þar með lauk því samtali.

Í dag á drengurinn vini sem eru innflytjendur, sumir þeirra eru þeldökkir, hann kallar þá vini sína. Þetta er svo einfalt.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Grenivík

Jón Óðinn Waage skrifar
04. desember 2024 | kl. 13:00

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Vinir og óvinir

Jón Óðinn Waage skrifar
07. febrúar 2024 | kl. 06:00

Af hverju hata þau okkur svona mikið?

Jón Óðinn Waage skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 15:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Gallað en samt magnað meistaraverk

Jón Óðinn Waage skrifar
18. ágúst 2023 | kl. 13:15