Fara í efni
Jón Óðinn Waage

Grenivík

Sumarið 1982, þegar ég var 19 ára, fékk ég símtali frá manni sem kynnti sig sem Jón. Hann sagðist vera að hringja á vegum Magna á Grenivík og að þeim bráðvantaði markmann í fótboltaliðið, hvort að ég væri til í að taka það að mér og spila með þeim. Ég hélt það nú. „Fínt,“ svaraði hann, „leikur á morgun á Sanavellinum klukkan tvö, sjáumst.“

Þannig hófust kynni mín af Grenivík.

Ég átti nú reyndar eftir að spila allnokkra leiki og mæta á margar æfingar með þeim Magnamönnum áður en ég upplifði það að koma til Grenivíkur. Á Grenivík var bara grasvöllur og vorin við utanverðan Eyjafjörð bjóða ekki upp á sparkleiki á grasvöllum fyrr en komið er fram í júní. Svo Sanavöllurinn var staðurinn þar sem ég kynntist sonum Grenivíkur fyrst.

Ég mætti í fyrsta leikinn daginn eftir símtalið. Það var norðansuddi, völlurinn frosinn í byrjun en þiðnaði eftir því sem leið á leikinn og breyttist þá í drullusvað. Ég þekkti engan í liði Magna, nema þjálfarann kannaðist ég við, það var hinn sprettharði Þórsari Jón Lárusson. Leikurinn var við Þór sem á þessum tíma var betra liðið á Akureyri. Leikurinn fór að mestu fram inn í vítateignum hjá Magna svo ég hafði nóg að gera. Ég þekkti ekki nöfnin á liðsfélögum mínum en nokkrir þeirra voru með þau aftan á liðstreyjum sínum svo það gerði mér lífið auðveldara. Mest samskipti hafði ég við miðvörðinn, sá var grjótharður, þungbrýndur, munnsvipur laus við bros, hárið ljósrautt í hliðum en takmarkað að ofan, miskunnarlaus í návígi, svo mjög að ég þurfti oft að klofast yfir vælandi fórnarlömb hans. Hann ávann sér strax virðingu mínu, óttablandna, ég var þakklátur að vera í hans liði. Aftan á treyju hans stóð Toni. Það hvarflaði ekki að mér að ávarpa svona mann öðruvísi en með fullu nafni svo ég ávarpaði hann Anton allan leikinn. Í leikslok snéri hann sér eldsnöggt að mér, kom þétt upp að andliti mínu og sagði hörkulega: „Ég heiti ekki Anton, ég heiti Hjalti.“ Þetta var áður en ég fékk svarta beltið í júdó svo ég var við það að leka niður í forarsvaðið en tókst þó að stynja upp: „En af hverju ertu kallaður Toni?“ Hann kom enn þéttar upp að mér og hvæsti: „Af því að ég held með Everton!“ Svo hvarf hann en ég stóð eftir og velti fyrir mér í hvers konar félagsskap ég var kominn. Ekki minnkuðu þær vangaveltur er við Magnamenn söfnuðust saman með Jóni þjálfara eftir leikinn og Toni var þá kominn með þykkt svart hár á höfuðið.

Daginn eftir var þrekæfing á Bjargi. Jón Lár tilkynnti að við myndum byrja á útihlaupi, Skarðshlíðarhringurinn var málið. Þá steig lítill rauðhærður stubbur fram og sagðist sjá okkur seinna, svo hvarf hann. Þetta þótti mér eftirsóknarverður valmöguleiki, bara að segja sjáumst og láta sig svo hverfa. Sem markmanni sæmir var ég enginn áhugamaður um víðavangshlaup eða hlaup svona almennt, en sem nýliði þá þorði ég ekki að segja neitt svo ég skokkaði af stað Skarðshlíðarhringinn. Meðan við hlupum þessa vegalengd þá fór litli rauðhærði gaurinn að minnsta kosti tvisvar fram úr okkur. Ég spurði einn liðsfélaga minn hver þetta væri og fékk svarið að þetta væri Jolli Illuga og hann væri af einhverrri þingeyskri ætt þar sem geta í frjálsíþróttum var inntökuskilyrði. Jolli var að sjálfsögðu giftur frjálsíþróttakonu sem var margfaldur methafi. Ekki ætla ég að væna Jolla vin minn um að hafa verið ótrúr konu sinni, en tíu árum seinna sá ég ungan strák spila með Manchester United sem var lifandi eftirmynd Jolla, sá enski ber eftirnafnið Scholes en það breytir því ekki að erfðaefnið er úr Þingeyjarsýslu.

Það var svo í byrjun júní sem að ég loksins fékk Grenivík augum litið. Heimaleikur og nánast allt þorpið mætt á leikinn. Að sjá allt þorpið samankomið var upplifun, allar götur síðan þá get ég þekkt Grenvíkinga hvar í heiminum sem ég hitti þá. Bringan, maður minn, bringan. Aldrei séð heilt þorp þar sem allir eru með breiða og þykka bringu. Þetta eru svona bringur sem menn reyna að þjálfa upp í líkamsræktarstöðvum, en þess þarf ekki á Grenivík, þær eru meðfæddar. Það sem fór í bringurnar var þó tekið af hæðinni.

Ég spilaði tvö sumur með Magna, á þeim tíma lærði ég mikið af liðsfélögum mínum, ekki þó fótbolta heldur meira um lífið almennt. Væl var óþekkt en harkan þeim mun meiri, ekki þó á grófan hátt, meira svona ljúfmannlegan. Þegar þeir spörkuðu einhvern niður þá fannst þeim í góðu lagi ef að andstæðingurinn gerði það sama, voru jafnvel svekktir ef það var ekki reynt. Sársauki var eitthvað sem að þessi gaurar fundu ekki. Sá eftirminnanlegasti í þeim efnum var Himmi Ásgeirs. Himmi var ekki jafn mikill til bringunnar og sveitungar hans og svo skartaði hann fótleggjum sem voru grannir með afbrigðum. Það sem hafði verið sparað í fótleggi og bringu hafði verið sett ofan á höfuð hans, en Himmi skartar hnausþykkum lubba sem á þessum tíma var gulls ígildi við kvennaveiðar. Undir lubbanum var síðan haus sem innihélt enga hræðslu og sársauki var eins og áður sagt óþekktur á Grenivík. Himmi spilaði fótbolta með þeim hætti að senda boltann til andstæðinganna til þess eins og geta tæklað þá sundur og saman og þannig náð boltanum aftur. Þannig óð hann upp völinn, það sem þessir spóaleggir þoldu og engar legghlífar. Á þessum tveimur árum meiddust bara tveir, fyrst Jón Lár þjálfari og svo ég, innfæddir meiddust aldrei. Sjálfur hef ég ekki kveinkað mér undan sársauka síðan ég gekk í raðir Magna, þorði því ekki fyrst en svo vandist það.

Ég er mikill áhugamaður um sögu Grenivíkur, sú forvitni kviknaði eftir að hafa kynnst þessu fólki. Það kom mér ekki á óvart að forfeður Grenvíkinga voru hópur bænda, allir voru meira og minna náskyldir, sem fóru í hákarlaútgerð um miðja 19. öld. Fyrst gerðu þeir sér aðstöðu sunnan við Þengilshöfðann en þegar grynnkaði þar þá fluttu þeir sig norður fyrir höfðann í víkina þar, Grenivík. Þessar hákarlaveiðar gáfu vel af sér en voru aðeins fyrir hraustmenni, langt að sækja veiðina og langir túrar. Þegar svo hákarlinn hætti að gefa af sér fóru þeir að veiða fisk til að salta. Grenivík var þó enginn draumastaður fyrir útgerð, víkin opin og eitt árið gerði svo hressilegt brim að bátarnir enduðu nokkur hundruð metra upp á landi. Ég skil núna vaxtarlagið og hugarfarið, það þurfti krafta bæði til líkama og sálar til að lifa af. Ég sé alveg fyrir mér Grenvíkinga hreinsa til í fjörunni og koma bátunum aftur á sjó eftir brimið, brjóstvöðvarnir þandir í átökunum og enginn að kvarta. Svo var bara haldið áfram, vaðið í næstu tæklingu hvort sem það var veðurofsi eða fótboltaleikur.

Í kringum Ísland eru sjávarplássin hvert af öðru að gefast upp, kvótinn er farinn, húsin verðlaus og framtíðin dökk. Þegar ég var að spila á Grenivík var ýmist verið að loka eða opna frystihúsinu, reksturinn var ekki í höndum heimamanna, Grenivík hefði því alveg geta endað eins og svo fjölmörg önnur sjávarþorp. En nei, ekki Grenvíkingar, þeir skarta undarlegri blöndu af þvermóðsku, hugrekki, útsjónarsemi og óbilandi sigurkrafti. Þeir keyptu kvótann sjálfir og hafa síðan byggt upp þorpið jafnt og þétt. Þar eru framarlega margir af mínum gömlu liðsfélögum. Ef að Ísland væri rekið eins og Grenivík væri það sannarlega besta land í heimi, en þangað til situr Grenivík ein að því að vera best.

Aðdáun mín á Grenivík er sem sagt einlæg og mikil, svo mikil að síðustu tvær eiginkonur mínar eiga báðar ættir sínar að rekja til Grenivíkur.

Jón Óðinn Waage er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Vinir og óvinir

Jón Óðinn Waage skrifar
07. febrúar 2024 | kl. 06:00

Af hverju hata þau okkur svona mikið?

Jón Óðinn Waage skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 15:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Gallað en samt magnað meistaraverk

Jón Óðinn Waage skrifar
18. ágúst 2023 | kl. 13:15

Völundarhús hugar míns

Jón Óðinn Waage skrifar
16. ágúst 2023 | kl. 19:00