Að vera (ekki) velkominn
Hann var sá eini sem að tók mér heldur fálega þegar ég kom í bekkinn. Það vakti forvitni mína, ég vildi vita meira um hann svo ég nánast sat fyrir honum.
Tækifærið kom einn daginn þegar hann mætti haltur í skólann. Mig grunaði hver orsakavaldurinn væri, þekkti þann djöfsa vel sjálfur. Svo ég spurði og auðvitað hafði ég rétt fyrir mér, fótbolti. Þarna náði ég tengingu, við spjölluðum góða stund um fótbolta og voru sammála um að Barcelona væri besta lið í heimi.
Stuttu síðar lentum við saman í umræðuhóp, við áttum að ræða saman um ýmis mál til að æfa sænskuna. Ein af spurningunum var hvernig okkur liði í Svíþjóð. Hann svaraði strax og sagði að sér liði alls ekki vel í Svíþjóð, þvert á móti, honum liði hreinlega illa. Augu hans skutu gneistum þegar hann sagði þetta.
Eftir þetta voru það bara við tveir sem töluðum, ég spurði og hann svaraði. Hann sagðist vera Palestínumaður, fæddur og uppalinn á Gaza. Hann sagðist ekki hafa flúið til að hefja nýtt líf heldur til að hefja eitthvað líf. Lífið á Gaza væri ekkert líf. Það kom mér ekkert á óvart, það hefur ekki verið neinn skortur á fréttamyndum frá þessu svæði allt mitt líf.
Ég var hissa á því að honum liði ekki vel hér í Svíþjóð, mín upplifun er að mikill meirihluti Svía er stoltur af því að vera ein þeirra þjóða sem tekur best á móti flóttamönnum. Hann sagði að vegna uppruna síns væri honum ítrekað mismunað. Sem dæmi nefndi hann að þegar vaskur nágrannakonu hans, sem er sænsk, hafi bilað þá hafi leigusalinn komið og sett nýjan í staðinn. Þegar að vaskurinn hjá honum hafi bilað hafi leigusalinn komið og teipað utan um leiðslurnar svo nú leka þær aðeins minna en leka samt. Einn af nágrönnum hans er kjósandi öfgaflokks hér í Svíþjóð, sá hefur ítrekað sigað lögreglunni á hann án tilefnis.
Hann taldi upp mörg önnur dæmi. Hann á nokkra sænska vini og þeir hafa prófað að athuga hvort að viðmótið sé öðruvísi gagnvart þeim en honum, yfirleitt sé það svo.
Hann gefur lítið fyrir að hann eigi að vera þakklátur fyrir að fá að búa hér. Hann segir langafa sinn hafa verið ágætlega settan í Palestínu en hann hafi verið hrakinn frá eigum sínum og síðan hafi fjölskyldan búið í við ömurlegar aðstæður á Gaza, sem séu í raun ekkert annað en fangabúðir. Hann segir að flestar þjóðir heims beri ábyrgð á þessu og því finni hann ekki hjá sér neitt þakklæti fyrir að mega búa annars staðar en á Gaza. Hann vill bara fá að vinna fyrir sér og njóta sömu réttinda og aðrir. Það standi hins vegar ekki til boða.
Við sitjum oft saman nokkrir í kaffipásunni. Meðan að við spjöllum þá teiknar hann látlaust. Ég bað hann um að sýna mér teikningarnar sínar. Hann varð vandræðalegur og dró sig í hlé. Ég gaf mig ekki og sýndi honum myndir af málverkunum hennar Ingu minnar. Þá lifnaði yfir honum og hann sýndi mér nokkrar myndir. Þær voru fallegar en sumar samt þannig að sársaukinn í þeim skein í gegn og nísti mann.
Hann segist ekki geta snúið aftur til Gaza, ef þú ferð þá getur þú ekki komið aftur. Hann finnur sig hvergi velkominn. Honum gengur vel að læra sænsku, er bæði einbeittur og líka ákafur. Hann á erfitt með að hemja tilfinningar sínar, augu hans loga þegar að hann talar um óréttlætið en svo sá ég tár þegar að hann horfði á myndirnar hennar Ingu minnar og sýndi mér svo sínar myndir.
Ég er ekki viss um hvað hann er gamall, sennilega að nálgast þrítugt. Hann er með afbrigðum fríður og þegar að hann brosir þá geislar hann. Það gerist bara svo sjaldan.
Ég myndi heldur ekki brosa ef ég væri hvergi velkominn.
Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.