Fara í efni
Jón Óðinn Waage

Að sjá fegurðina

Fyrir margt löngu dvaldi ég á hóteli eina helgi ásamt hópi fólks. Fyrsta morguninn var ég á leiðinni út í göngutúr. Í anddyri hótelsins stóð ein úr hópnum, myndlistarkona. Hún greip í mig, benti á gluggann og sagði: „Sjáðu hvað þetta er fallegt, geislar sólarinnar tvístrast og endurkastast af gólfinu.“ Ég horfði en sá enga fegurð, ég benti henni á að rúðan væri sprungin og gólfið óhreint. „Já“, svaraði hún, „það er einmitt það sem býr til fegurðina“. Ég gekk út. Er ég kom út snéri ég mér við og sá að myndlistarkonan stóð ennþá og horfði hugfangin á það sem ég sá ekki. Ég fékk samviskubit, lélegt að benda bara á ljótleikann.

Þetta sat í mér lengi, mig langaði í þessa gleði sem myndlistarkonan upplifði. En það var sama hvað ég reyndi, ég fann aldrei fegurðina, bara það sem var að.

Nokkru seinna var ég sem þjálfari á fótboltamóti 6-7 ára. Einn af mínum drengjum meiddi sig og fór að gráta. Ég var strangur þjálfari, harður nagli sem þoldi ekkert væl og kenndi börnum það að harka af sér. Hughreysting mín fólst í að skipa drengnum að harka af sér. Það virkaði ekki, hann vildi bara fara til mömmu og pabba sem voru að horfa á. Ég fylgdi honum til foreldra sinna og áfram hélt leikurinn.

Skömmu seinna var togað laust í stakkinn minn, ég leit við og horfði framan í grátbólgið andlit drengsins. „Ég er tilbúinn núna“, sagði hann skjálfandi röddu. Ég sendi hann inn á völlinn. Þetta var prúður drengur, einn af þeim sem vildi alltaf leyfa hinum að hafa boltann, vildi ekkert vera fyrir. Nú brá svo við að hann hljóp út um allt og barðist um alla bolta. Eftir hvern sprett leit hann stoltur upp í brekkuna þar sem foreldrar hans stóðu. Ég leit á þau, þetta voru ungir foreldrar, hann var þeirra eina barn. Þarna stóðu þau og héldu utan um hvort annað, tárin runnu niður kinnar þeirra og mættu þar einlægu hamingjubrosi.

Ég hafði mjög oft upplifað svipuð atvik áður, en atvikið með myndlistarkonunni hafði kveikt í mér eitthvað og nú sá ég loks fegurðina. Ég fór að gráta með foreldrunum. Engin sá það, ég var ennþá harður nagli, bara svo að það sé á hreinu.

Og myndlistarkonan, hún heitir Arna Valsdóttir.

Jón Óðinn er leiðbeinandi barna með hegðunarvandamál og fyrrverandi júdóþjálfari.

Í leikhúsi hugans

Jón Óðinn Waage skrifar
17. mars 2024 | kl. 11:50

Vinir og óvinir

Jón Óðinn Waage skrifar
07. febrúar 2024 | kl. 06:00

Af hverju hata þau okkur svona mikið?

Jón Óðinn Waage skrifar
10. nóvember 2023 | kl. 15:30

Heimur nöldurs og væls

Jón Óðinn Waage skrifar
15. september 2023 | kl. 15:30

Gallað en samt magnað meistaraverk

Jón Óðinn Waage skrifar
18. ágúst 2023 | kl. 13:15

Völundarhús hugar míns

Jón Óðinn Waage skrifar
16. ágúst 2023 | kl. 19:00