Hollvinir gefa SAk fyrir 100 milljónir í ár
Eigendur veitingastaðarins Greifans færðu í gær Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri 300.000 krónur og tók Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður samtakanna, við gjöfinni. Féð verður notað upp í kaup á beinþéttnimæli handa sjúkrahúsinu.
Á hverju ári þarf fjöldi fólks af landsbyggðinni til Reykjavíkur í því skyni að komast í beinþéttnimælingu, að sögn Jóhannesar. „Hér er til gamall garmur en löngu kominn tími á nýjan mæli svo fólk þurfi ekki suður til að fá ábyggilega niðurstöðu. Það er mjög algengt að fólk þurfi í beinþéttnimælingu því þetta er ótrúlega stórt vandamál. Þegar fylgjast þarf reglulega með sjúklingi sparar það margar ferðir og eykur lífsgæði sjúklinga að hægt sé að mæla almennilega hér fyrir norðan,“ segir Jóhannes.
Formaðurinn kann Greifamönnum bestu þakkir fyrir gjöfina. „Þeir hafa lengi styrkt okkur fyrir jólin, oft mjög veglega, upphæðin er lægri núna vegna Covid en við erum samt mjög þakklát.“
Í yfirlýsingu frá Greifanum segir: „Þótt árferðið sé eins og það er og rekstur veitingastaða erfiður í þeim fjöldatakmörkunum sem hafa verið nauðsynlegar í baráttunni við Covid 19, þá viljum við leggja okkar af mörkum og hvetjum önnur fyrirtæki til að gera það sama. Einnig viljum við minna á að hægt er að skrá sig í Hollvinasamtökin á heimasíðu SAk en árgjaldið er einungis 5.000 kr.“
„Algjört metár“
Spurður um árið sem senn líður í aldanna skaut, svarar Jóhannes Gunnar Bjarnason: „Þetta er algjört metár í sögu Hollvina. Við höfum aldrei gefið jafn mörg sjúkratæki eða tól eins og á þessu ári og ef við náum að ganga frá kaupum á beinþéttnimælinum fyrir áramót, sem allt bendir til, rjúfum við 100 milljón króna múrinn á þessu ári. Ég held það sé býsna gott hjá áhugamannafélagi eins og þessu að öngla því saman!“ segir hann.
Jóhannes nefnir að fyrr á árinu hafi samtökin gefið tvö svokölluð hágjörgæslurúm og fullkomna öndunarvél „sem er þeirrar náttúru að ef sjúklingur slasast eða veikist alvarlega, og er tengdur vélinni, er hægt að flytja hann suður þannig ef þarf, því þetta er ferðaöndunarvél. Það var ekki hægt áður. Svo keyptum við kælivél fyrir þá sem hafa fengið hjartaáfall og fleira á gjörgæsluna. Þá má nefna að við keyptum til dæmis 14 ný rúm á fæðingardeildina, sem mér skilst að þyki algjör bylting. Svo hefur verið keyptur urmull af minni tækjum og tólum.“
Félagar í Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri eru að nálgast þriðja þúsundið, segir Jóhannes og nefnir að þrátt fyrir ástandið séu fyrirtæki býsna jákvæð. „Þau eru í raun og veru alltaf jákvæð. Það gekk mjög vel að safna framan af ári, hefur dregið aðeins úr en við reynum að vera dugleg að sækja í ýmsa sjóði fyrirtækja og stofnana.“