Fara í efni
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri

Færðu Hollvinum SAk eina milljón króna

Vessgú, milljón! Frá vinstri: Markús Gústafsson, Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður Hollvinasamtaka SAk, Hermann Haraldsson stjórnarmaður og Róbert Már Kristinsson.
Markús Gústafsson og Róbert Már Kristinsson hafa verið viðskiptafélagar í aldarfjórðung og færðu af því tilefni Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri eina milljón króna að gjöf.
 

„Viðskiptasamband okkar hófst í maí árið 1998 í Nætursölunni, stað sem seint mun gleymast, þannig að í fyrra höfðum við unnið saman í 25 ár ,“ segir Markús við Akureyri.net. „Í stað þess að halda veislu í tilefni afmælisins ákváðum við að gefa frekar peninga í eitthvert gott málefni.“

Hollvinasamtökin urðu fyrir valinu að þessu sinni, enda segir Markús sjúkrahúsið vitaskuld gríðarlega mikilvæga stofnun; þangað þurfi allir einhvern tíma að leita og miklu máli skipti að það sé sem best tækjum búið.

„Það var heldur betur gaman að hitta meistara Jóhannes Gunnar Bjarnason, formann Hollvinasamtakanna. Hann fékk á sínum tíma það frábæra verkefni að kenna árgangi 1974 íþróttir í Gagganum, sællar minningar, þá nýútskrifaður úr námi,“ sagði Markús og lagði hlæjandi áherslu á orðið frábæra ...