Fara í efni
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri

Besta mögulega tækni á skurðstofum SAk

Við aðra nýju speglunarstæðuna á skurðstofu SAk í dag. Frá vinstri: Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður stjórnar Hollvina, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður, Kristín Sigfúsdóttir, ritari, Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu á SAk og Sandra Hrönn Sveinsdóttir skurðhjúkrunarfræðingur. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri færðu í dag skurðstofum stofnunarinnar formlega tvær glænýjar speglunarstæður sem taka við af þeim sem komnar voru til ára sinna.

Speglunarstæður eru notaðar til að gera ýmiskonar aðgerðir þar sem hægt er að komast af með litla skurði. Þessar nýju veita bestu mögulegu tækni til að meðhöndla vandamál við góðar og öruggar vinnuaðstæður sem tryggja enn betur öryggi skjólstæðinga, skv. upplýsingum frá stofnuninni. 

Myndavél er stungið inn í líkamshol ásamt áhöldum. Sem dæmi um slík inngrip eru aðgerðir í kviðarholi, á gallblöðru, botnlanga, kvenlíffærum, ristli og smágirni, en einnig liðspeglanir, legholsspeglanir, maga- og ristilspeglanir, blöðruspeglanir og aðgerðir á nýrnasteinum. 

Speglunarsamstæðurnar sem um ræðir kostuðu 28 milljónir króna.