Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri
Hollvinir himinlifandi með daginn á Glerártorgi
26.11.2023 kl. 06:00
Árleg hátíð Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og starfsfólks stofnunarinnar var á Glerártorgi í gær. Margt var um manninn, starfsfólk SAk bauð fólki upp á að mæla blóðþrýsting, súrefnismettun og púls, og yngsta kynslóðin mætti með bangsa eða önnur veik uppáhaldsdýr sem umsvifalaust fengu bót meina sinna. Jóhannes Bjarnason formaður Hollvinasamtakanna og fleiri úr stjórn þeirra ræddu við gesti og gangandi og skráðu niður nöfn nýrra félaga. Afar vel tókst til eins og jafnan áður, að sögn Hollvina, sem voru himinlifandi með daginn.